- Ný uppfærsla Audi A8 kynnt með meiri tækni og nýju útliti
- ?Með þessari breytingu fær Audi A8 uppfærslur í útliti, endurbætt upplýsinga- og afþreyingarkerfi og stærri rafhlöðu fyrir tengitvinnútgáfuna
Nýr arftaki Audi A8 hefur þegar verðið forsýndur í formi Grandsphere hugmyndabílsins, en þýska vörumerkið hefur uppfært núverandi lúxusbíl með endurbættu upplýsingakerfi og útliti.
Sem fyrr er þessi keppinautur Mercedes S-Class fáanlegur bæði með hefðbundnu hjólhafi og löngu hjólhafi í „lúxusútfærslu“ og uppfærð öflug S8 gerð situr efst í framboðinu.
Hægt verður að panta uppfærðan A8 í Evrópu frá og með desember. Á heimamarkaði bílsins í Þýskalandi er grunnverðið 99.500 evrur (um 15 milljónir ISK).
Útlitsbreytingar á þessari andlitslyftu á A8 eru frekar hóflegar. Stærsta breytingiin er nýtt grill, sem er stærra en var á eldri gerðinni. Hins vegar er örlítið breyttur framstuðari, nýjar hliðarklæðningar og nýr neðri hluti að aftan.

Ný LED framljós fáanleg sem aukabúnaður
LED framljósin eru annar nýr hönnunarþáttur og hægt er að uppfæra þau í nýja Digital Matrix LED einingar Audi sem aukabúnað. Ljósaeiningarnar innihalda 1,3 milljónir örspegla, sem vörumerkið segir að geti stillt geislamynstrið með millimetrískri nákvæmni til að hjálpa til við að lýsa upp dökka bletti á veginum og bæta sýnileika ökumanns.

Bíllinn er búinn hefðbundum beygjuljósum og aðlagandi hágeislastýringu, en kerfið getur einnig gefið frá sér einbeittan geisla á milli hvítu línanna á veginum til að hjálpa ökumanni að staðsetja bílinn betur á akreininni.

Ný afturljós með innbyggðum fjarlægðarskynjara
Nýju framljósin eru í samræmi við endurbætt afturljósin, sem eru með innbyggðum fjarlægðarskynjara sem þýðir að ef bíll ekur of nálægt afturenda A8 þegar hann er kyrrstæður kviknar á afturljósunum og vara ökumanninn við þannig að hann geti haldið sig í hæfilegri fjarlægð.

Þrír skjáir að framan og tveir fyrir aftursætin
Sem fyrr samanstendur upplýsinga- og afþreyingarkerfið af tveimur skjáum; 10,1 tommu skjá fyrir miðlunaraðgerðir bílsins og 8,6 tommu skjá sem er eingöngu fyrir miðstöðina. 12,3 tommu stafræna mælaborðið er áfram til staðar, þó að kerfið sem keyrir alla þrjá skjáina sé nú byggt á nýjum hugbúnaði.

Farþegar í aftursætum njóta líka góðs af meiri tækni. Audi býður nú upp á par af nýjum 10,1 tommu skjám sem aukabúnað, sem hægt er að tengja við snjallsíma farþeganna til að spila efni frá streymisveitum.
Bang & Olufsen hljóðkerfi með tuttugu og þremur hátölurum
Aðrir valkostir eru 23 hátalara Bang & Olufsen hljóðkerfi, fjögurra svæða miðstöðvarstýring, nuddsæti og ísskápur. Upphitaður fótapúði með nuddi er sömuleiðis á meðal valkosta en púðinn er festur aftan á farþegasætið í lengri útgáfunni af Audi A8 L.

Í „S line“ útgáfunni bætist við sportlegt útlit, svipað og í S8 flaggskipinu, en án stóru V8 vélarinnar. Það er nýtt grill að framan fyrir þetta útfærslustig, ásamt tegundarsértækum stuðara og neðri hliðarklæðningum.

Breytingarnar í bíl S-línunnar takmarkast þó ekki við ytra byrði. Því einnig hafa orðið breytingar að innan. Það eru S line sportsæti, sportstýri og svört innrétting á mælaborði, þó hægt sé að skipta þessu síðarnefnda út fyrir koltrefjar sem aukabúnað.
Fimm aflrásir
Kaupendur hafa val um fimm aflrásir: dísilvél, þrjár bensínvélar og tengitvinnkerfi. Allir hefðbundniar brunahreyflar (ekki PHEV) í A8 framboðinu eru með aflaukningu með 48 volta „mild-hybrid“ kerfi. Allar gerðirnar eru með Audi quattro fjórhjóladrifi og átta gíra sjálfskiptingu.
Dísilvélin er kunnugleg 3,0 lítra V6 frá Audi, sem skilar 282 hestöflum og 600 Nm togi. Frá 0 upp í 100 km/klst fer bíllinn á 5,9 sekúndum og hámarkshraðinn er 250 km/klst.
Ódýrari bensínvélin sem er í A8 55 TFSI býður upp á 335 hestöfl og 500 Nm tog frá 3,0 lítra túrbó V6, en 0-100 km/klst tíminn fer niður í 5,6 sekúndur. Hámarkshraði helst sá sami, þ.e. 250 km/klst.
Audi býður einnig upp á 4,0 lítra V8 vél í tveimur útgáfum. Í A8 60 TFSI framleiðir vélin 454 hestöfl og 660 Nm togi, en flaggskipið í S8 gerðinni er með 563 hestöfl og 800 Nm tog. Fyrri útgáfan er 4,4 sekúndur úr kyrrstöðu upp í 100 km/klst, en S8 getur farið sama sprettinn á 3,8 sekúndum.
Til að þessi aukaafkastageta njóti sín til fulls er S8 með sport-mismunadrifi, stærri bremsur og fjórhjólastýri, ásamt sportlegum útlitseinkennum til að aðgreina hann frá hinum bílunum í línunni. Fjöðrunarkerfi Audi sem greinir aksturshegðun ökumanns er staðalbúnaður, en sá búnaður getur t.d. dregið úr skriki í beygjum.
456 hestafla tengitvinngerð
Aflrásin í tengitvinnbílnum A8 60 TFSI e er byggð á sömu 3,0 lítra V6 og A8 55 TFSI, en hún er studd af rafmótor sem eykur aflið í aflrásinni í 456 hestöfl og 700 Nm tog – nóg til að koma þessari útgáfu frá 0-100 km/klst á 4,9 sekúndum.
Rafmótorinn er knúinn af nýjum 17,9kWh rafhlöðupakka, stærri en 14,1kWh einingin sem var í fyrri gerðinni. Audi á enn eftir að staðfesta hversu mikil áhrif nýi rafhlöðupakkinn hefur á A8 bílinn þegar eingöngur er ekið á rafmagninu.
(Byggt á frétt á Auto Express – myndir frá Audi)
Umræður um þessa grein