Engin gúrkutíð hjá Volvo! Allt að frétta frá Gautaborg
Það er margt að frétta úr höfuðstöðvum Volvo, hins sænska stórframleiðanda. Í gær bárust fjölmargar fréttir frá Gautaborg og ber þar einna hæst frétt þess efnis að árið 2030, eftir tæp níu ár, mun Volvo einungis framleiða rafbíla. Markmið framleiðandans er að draga úr framleiðslu bíla sem ekki eru 100% rafbílar og mun þeim fækka ört á næstu árum.
Til að kaflaskipta breytingunum er fyrsta markið meitlað við árið 2025, þegar 50% framleiddra bíla verða tvinnbílar og hin 50% rafbílar. „Sprengihreyfill í bílum á ekki heima í framtíðarmyndinni,“ var haft eftir Henrik Green, tæknistjóra Volvo í fréttatilkynningu í gær.
„Það er markmið okkar að framleiða rafbíla eingöngu og mun sú umbreyting á framleiðslunni verða fyrir árið 2030.
Þannig getum við komið til móts við óskir viðskiptavina okkar samhliða því að leggja okkar af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar,“ sagði tæknistjórinn enn fremur.
Svona lagað hafa Svíar yfirleitt ekki í flimtingum og vissulega má ganga út frá því að framleiðslubreytingaferlið er skipulagt viku fyrir viku fram til ársins 2030.
Reykjavík-Akureyri á Volvo C40 Recharge
Í gær var rafbíllinn Volvo C40 kynntur til leiks sem sérlegur erindreki rafbyltingarinnar sem framundan er hjá Volvo. Hann er í raun „litli bróðir“ XC40. C40 mun fara í framleiðslu á haustmánuðum.
C40 er sagður hafa alla eiginleika smájeppa (SUV – förum ekki nánar út í sportjeppa, smájeppa og öll jepplingsheitin hér) en hönnunin miðar þó að því að hann sé fólksbílalegri í útliti. Hvers vegna, veit undirrituð ekki; þ.e. hvers vegna hann hefur alla eiginleika smájeppans en er svo bara fólksbíll sem þú situr hátt í og allt það.
Eina sem kemur upp í hugann er sú skynsamlega lausn fyrir þá sem nenna ekki að útskýra hvað smájeppi, jepplingur, sportjeppi er… Þeir eiga bara fólksbíl sem hegðar sér eins og millistig fólksbíls og jeppa. Þá er nú gott að þurfa ekki að hafa fleiri orð um það. En burtséð frá jepplingsmeinlokunni þá er það nú staðreynd að C40 verður 40 mm lægri en XC40. Breiddin er sú sama.
Nema hvað! Í hinum fullkomna heimi veðurskilyrða, sem sagt einhverri útópíu í augum hins almenna Íslendings, kemur C40 til með að komast allt að 420 kílómetra á hleðslunni. Ef Ísland tilheyrði ofangreindum heimi þá ætti að vera hægt að komast frá Reykjavík til Akureyrar (388 km) á hleðslunni.
Annað sem sagt er um C40 í fréttatilkynningunni frá Gautaborg er að einungis muni taka 40 mínútur að hlaða rafhlöður bílsins að 80%. Það hlýtur að teljast harla gott!
Burt með leðrið og tví„skinnunginn“
Sænski bílaframleiðandinn tvínónar hvorki við hlutina né verður uppvís að tví„skinnungi“. „Skinnungur“ rataði hér innan gæsalappa vegna þess að C40 verður fyrsti bíllinn frá Volvo sem verður gjörsamlega leðursnauður. Enda skyti það eflaust skökku við að boða raf-fagnaðarerindið í þágu náttúru og umhverfis en skarta samtímis ósútaðri húð eða skinni af stórgripum fánu jarðar í innréttingum bílsins. Þett verður kannski fyrsti vegan-bíllinn? Nei, varla.
Greinarhöfundur ætlaði að vera sniðugur og fjalla hér eilítið um andleðurstefnu Volvo og fór á Google alnetsins. Þar í leitarstreng skrifaði undirrituð „leather Volvo“ og upp komu ótal sölusíður þar sem falboðnar voru hinar ýmsu leðurvörur merktar framleiðandanum; lyklakippur, kortaveski og svo mætti lengi telja.
Já, lesandi góður: Þetta dót tilheyrir héðan í frá (um það bil héðan) fortíðinni. Þessa leðurhluti má í framtíðinni selja á veraldarvefnum fyrir fúlgur fjár. Og hver veit nema þetta verði hreinlega selt á svörtum kolefnisfótsporamarkaði en ekki fyrir allra augum? Heimurinn er að breytast!
Fyrir þá sem vilja lesa meira um leðurlausa framtíð Volvo þá má lesa greinarkorn hér.
Færri skref að rafbílnum – kolefnissporafylgjan í nálgunarbanni
Þetta er ekki búið. Onei! Hér í upphafi var minnst á margar fréttir og hér er enn ein frá gærdeginum: Rafbílakaup munu einungis fara fram á netinu.
Við kaup á rafbíl frá Volvo munu viðskiptavinir geta sleppt því að lengja kolefnissporahalann sem við flest höfum sem eins konar fylgju á eftir okkur.
Ævarandi áminning um hversu værukær við eitt sinn vorum þegar við notuðum plastpoka eins og ekkert væri, brúkuðum sprengihreyfla ótæpilega og flokkuðum ekki ruslið okkar.
Já, við erum öll sek um eitthvað misjafnt í þessum efnum!
Enn smærri rafbíll væntanlegur
Þá er það rúsínan í pylsuendanum. Í það minnsta er þetta lokafréttin frá Volvo í dag. Við fjölluðum hér að ofan um C40 sem hefur eiginleika smájeppa. XC20 er rafbíll, smærri en C40, sem koma mun á markað og er margt um þann bíl sveipað dulúð. Enda fátt verið gefið út um bílinn smáa.
Raunar er fréttin um XC20 ekki fengin beint frá Volvo og því er blaðamanni hálfilla við að fjalla um þetta sem grjótharða staðreynd. Því skal hér vitnað í vefinn Auto Express, sem hefur eftir Hakan Samuelsson sem á sæti í framkvæmdastjórn Volvo, að ekki liggi fyrir hvenær framleiðsla á XC20 komi til með að hefjast. Hér má lesa fréttina á Auto Express og skoða myndir af XC20.
Það er því morgunljóst að margs er að vænta frá Volvo á næstunni og verður fróðlegt að fylgjast með þeim ótrúlegu breytingum sem verða á framleiðslunni fram til 2030 þegar einungis rafbílar verða í boði frá sænska framleiðandanum.
Umræður um þessa grein