BMW undirbýr öflugasta M-bílinn með jeppaútliti
Framleiðsluútgáfa af XM mun koma á markað seint á næsta ári frá verksmiðju BMW í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum
LOS ANGELES – BMW er að stækka bílaframboð sitt með fyrsta sjálfstæða bílnum frá M Performance vörumerkinu síðan BMW M1 kom á markað fyrir fimm áratugum.
BMW Concept XM, sem sýndur var á blaðamannafundi í Los Angeles í mánuðinum, er sýnishorn af kraftmesta M-bílnum í línunni, sagði bílaframleiðandinn.
Framleiðsluútgáfan af XM kemur á markað seint á næsta ári og verður hún sett saman í bandarískri verksmiðju BMW í Suður-Karólínu.
Franciscus van Meel, forstjóri M vörumerkisins fyrir BMW, lýsti XM sem „hámarki svipmikils lúxuss“.
„Við erum í raun að tala við markhópa sem við höfum ekki beint til BMW og M,“ sagði van Meel.
Á markað um allan heiminn
Nýja gerðin verður boðin um allan heim, en Bandaríkin verða stærsti markaðurinn, sagði BMW.
Líkt og með AMG-bíla frá Mercedes-Benz, hefur M undirmerki BMW notið mikils álits á markaðnum og að hafa sjálfstæða gerð eykur og eflir álitið enn frekar, sagði Sam Fiorani, varaforseti AutoForecast Solutions.
„Þessi nýja gerð mun einnig vekja athygli á hinum M útgáfunum, þar sem kaupendur líta á þær sem eftirsóknarverðari bíla en vel búnar algengar gerðir,“ sagði Fiorani.
V8 tvinnbíll
XM verður aðeins fáanlegur sem tengitvinnbíll, með nýþróað M Hybrid drifkerfi bílaframleiðandans, sem sameinar V-8 vél og afkastamikinn rafmótor til að framleiða allt að 750 hestöfl. Drægni bílsins á rafmagni eingöngu mun vera allt að 48 km.
Með hertum reglugerðum um losun, munu öflugar gerðir þurfa að vera með einhvers konar blendinga til að haldast hreinni, sagði Fiorani.
„Að bæta við tengimöguleikanum gefur ökumönnum kost á að ferðast án útblásturs frá púströrinu en bætir ekki ofan á CO2-töluna swemw þegar var há hjá bílaframleiðandanum,“ sagði hann.
Að sameina V-8 vél með rafmótor skilar einnig hámarksafköstum.
„Þú hefur slagkraftinn í EV-vélinni, sem er hámarkstog úr kyrrstöðu, ásamt V-8 vélinni, sem er nokkuð móttækilegur,“ sagði van Meel. „Þetta er það besta úr heimunum tveimur og er góð samsetning fyrir afkastamikinn bíl því hann tryggir prýðilega frammistöðu við allar aðstæður.“
Raunsætt mat
Ákvörðun BMW um að setja XM á markað sem tengitvinnbíl, í stað þess að vera aðeins með rafhlöðu, snérist um raunsæi.
Ófullnægjandi uppbygging hleðslukosta á mörgum mörkuðum takmarkar enn notkun fullrafknúinna ökutækja, sagði van Meel. Hann sagði að BMW hafi fengið viðbrögð viðskiptavina þar sem þeir báðu framleiðandann að skipta ekki alfarið yfir í rafbíla því þeir óttuðust að með því myndi sérstaða M vörumerkisins glatast.
Þó að stór hluti iðnaðarins fái enn afl frá brunahreyflum, þá sér BMW M „Performance“ undirvörumerkið sem ástæðu til að halda framleiðslu háoktanvéla áfram.
„Það er enn mikil eftirspurn eftir V-8 vélum,“ sagði van Meel. „Við viljum ekki slökkva á því með stuttum fyrirvara.“
Ný hönnun á grilli
Hönnun Concept XM, sem er með coupé-útliti, (sem er meira en 90 prósent svipuð komandi framleiðsluútgáfu) boðar nýjan framenda með útgáfu sem mun birtast í fyrsta skipti árið 2022 sem hluti af sókn BMW-gerðarinnar.
Framljósunum hefur verið skipt í tvær einingar, með dagljósinu í grannri efri einingunni. Lággeisla- og hágeislaljósin verða í neðri einingunni, fest á bak við litað gler.
Stóra nýrnalaga grillið situr á milli framljósanna og mjókkar í átt að ytri brúnum og framkallar næstum átthyrndar útlínur. Merki M-línunnar með tvöföldum línum innan grillsins bæta við skynjun á breidd.
Útlínulýsing er á grillinu til að gera dagljósin auðþekkjanleg.
Nýja XM lógóið í nýrnagrilli og stóru loftinntökin eru sjónræn áminning um V8 undir húddinu.
„Þetta gerði okkur kleift að vera með breiðari vindskeið að aftan svo að við gætum bætt loftaflflæðið,“ sagði van Meel.
Til heiðurs M1 er afturrúðan með tvöföldum leysimerktum BMW hringjum.
Lúxus innrétting
BMW mun hækka lúxusstuðul M með XM.
„Viðbrögð viðskiptavina okkar eru þau að þeir elska bílana okkar virkilega,“ sagði van Meel. „En í framtíðinni myndu þeir vilja hafa meiri lúxus í bílum sínum.“
Concept XM er með „setustofulíkum“ aftursætum, svartlituðum hliðargluggum að aftan fyrir næði og djúphleypt teppi.
Sjónræni hápunkturinn í farþegarýminu er klæðningin í loftinu með þrívíddar prisma uppbyggingu. Sambland af óbeinni og beinni lýsingu býr til léttara yfirbragð. Hægt er að virkja umhverfislýsinguna í BMW M litunum þremur.
Umræður um þessa grein