BMW i3 kominn á lokametrana
- BMW mun hætta framleiðslu á i3 rafbílnum í júlí þar sem kaupendur sniðganga í dag rafbílinn sem einu sinni þótti byltingarkennd gerð jafnvel þó rafknúnir bílar séu að verða vinsælli í dag.
Upphaflega átti að framleiða þennan litla hlaðbak í verksmiðjunni í Leipzig í Þýskalandi til ársins 2024 vegna mikillar eftirspurnar eftir rafbílum. Síðasta sumar var hins vegar tekin ákvörðun um að færa lok framleiðslunnar fram til sumars 2022.
BMW hefur smíðað um 250.000 i3 í Saxlandi síðan 2013.
Þótti byltingarkenndur á sínum tíma
BMW i3 er lítill bíll í B-flokki; háþekjuhlaðbakur framleiddur og markaðssettur af BMW með rafdrifinni aflrás, afturhjóladrifi og eins hraða gírskiptingu, Li-ion rafhlöðupakka í gólfi og með vali á bensínvél til að auka drægnina.
i3 var fyrsti fjöldaframleiddi bíll BMW sem losaði ekki útblástur og var settur á markað sem undirmerki BMW með skilgreiningunni i3.
BMW i3 var hannaður af Richard Kim, og boðinn í einni fimm hurða hönnun með farþegarými úr hástyrktri, ofurléttri CFRP (koltrefjastyrktri fjölliðu) sem er fest við undirvagn úr áli sem ber bílinn, rafhlöðuna, drifkerfið og aflrásina.
Eftir að hafa verið í þriðja sæti yfir rafbíla sem seldir voru um allan heim frá 2014 til 2016, og sala bílsins á heimsvísu nam alls yfir 220.000 eintökum um allan heim í lok árs 2021. Bandaríkin eru sennilega söluhæsti markaðurinn.
i3 hefur hlotið tvenn verðlaun fyrir „World Car of the Year“, valinn sem „World Green Car of the Year 2014“ og einnig sem „World Car Design of the Year 2014“.
Töluvert minni sala en hjá öðrum rafbílum
Salan á bílnum í Evrópu jókst um 4,5 prósent, eða í 24.259 selda bíla samkvæmt markaðsrannsóknum JATO Dynamics, en magnið á i3 er talsvert undir öðrum rafhlöðubílum.
Til samanburðar seldi Volkswagen 71.252 eintök af ID3 rafdrifna bílnum sínum, en sala Tesla Model 3, sem er töluvert stærri millistærðar fólksbíll, jókst um 63 prósent í 140.421 seld eintök, sem gerir hann að söluhæsta rafbílnum í Evrópu.
Hættir í júlí
BMW staðfesti framleiðslustöðvun á i3 í júlí næstkomandi við Automobilwoche, systurútgáfu Automotive News Europe.
Þegar hann kom á markaðinn var i3 talinn byltingarkenndur og brautryðjandi sem rafbíll, þótt salan í upphafi hafi verið léleg.
Ein af ástæðunum sem BMW gaf fyrir ákvörðuninni um að hætta framleiðslu var sú að hugsanlegir kaupendur rafbíla hafa áhuga á gerðum með meira plássi.
Var hann of mikið „öðruvísi“?
Þar að auki ætti rafbíll ekki að skera sig of mikið út sjónrænt frá „venjulegum“ brunahreyflabílum, sagði talsmaður fyrirtækisins við Automobilwoche. Nokkrir starfsmenn hjá BMW töldu að i3 væri of sérstæður vegna óvenjulegrar lögunar og fæli því marga viðskiptavini frá.
Fyrirtækið vonast til að í framtíðinni muni viðskiptavinir horfa til nýja Mini Electric, fullrafmagnaðs Mini Countryman og framtíðar iX1 til að fullnægja þörfum þeirra varðandi lítinn rafbíl.
„Þessar gerðir hafa tilhneigingu til að skapa umtalsvert meiri einingasölu en i3 náði á sínum besta tíma“, sagði talsmaður fyrirtækisins.
Tapaði BMW á bílnum?
Hvort BMW náði einhvern tímann að græða á i3 er enn fyrirtækisleyndarmál. Stefan Bratzel, forstöðumaður Center of Automotive Management (CAM) í Bergisch Gladbach, Þýskalandi, áætlaði þróunarkostnað bílsins, „Project i“, vel yfir tvo milljarða evra.
„Kolefnisfjárfestingin ein og sér er nálægt 700 milljónum evra,“ sagði Bratzel. Við þetta bættist gífurlega dýr og flókin framleiðsla á ofurlétta efninu fyrir yfirbyggingu i3.
Peter Fintl, sérfræðingur hjá tækniráðgjafafyrirtækinu Capgemini Engineering, sagði við Automobilwoche að hann teldi að tilkoma „-seríu BMW“ hafi verið tíu árum á undan sinni samtíð.
„Á þeim tíma var BMW fyrsti framleiðandinn til að hugsa heildstætt um sjálfbærni, rannsaka nýstárlega tækni og koma henni í raðframleiðslu,“ sagði hann. „Íhlutir úr i3, sem og kunnátta, hafa hjálpað til við að rafvæða aðrar gerðir í hópnum.”
Gatið sem myndast í framleiðslunni í Leipzig mun verða fyllt með næstu kynslóð „2 Series Active Tourer“, sem fer í framleiðslu á þessu ári. Frá og með 2023 verður nýr Mini Countryman smíðaður í Leipzig sem tengitvinnbíll og sem fullrafmögnuð gerð.
(Automotive News Europe og fleiri vefsíður)
Umræður um þessa grein