Benz G-jeppinn fær uppfærslu
Nýr 2022 Mercedes-Benz G-Class sást við vetrarprófanir og búist er við „léttri hressingu“
Mörgum finnst þetta vera flottasti jeppinn – öðrum finnst hann ljótur – hvað sem öllum finnst þá er verið að „hressa hann við“ þessa dagana.
Vefur Auto Express segir okkur frá því að andlitslyft útgáfa af hinum öfluga Mercedes G-Class eigi að koma á árinu (2022) og lítur út fyrir að hún fái létta endurnýjun á undan fyrsta rafknúna G-Class-jeppa vörumerkisins – sem heitir EQG – sem á að koma árið 2024.
Njósnaljósmyndari Auto Express tók þessar myndir af andlitslyftingu G-Class í vetrarprófunum og lítur hann út í stórum dráttum eins og núverandi hönnun.
Búist er við að önnur kynslóð þýska jeppans verði að mestu óbreytt hvað ytri hönnun varðar.
Margt enn lítið breytt frá upphafinu 1979
Núverandi kynslóð Mercedes-Benz G-Class kom á markað árið 2018 og skartar mörgum eiginleikum og útlitseinkennum frá upprunalega bílnum frá 1979 ofan á glænýjum undirvagni.
Hann er með sömu kassalögun, einkennandi hurðarhandföng fyrir jeppa, utanáliggjandi hurðarlamir og varadekkið sem fest var á afturhurðina. Vinsældir hans hafa aldrei verið meiri, en yfir 40.000 seldust á heimsvísu árið 2021.
Búist er við smávægilegri endurbót á fram- og afturstuðurum í þessari andlitslyftingu á miðju skeiði gerðarinnar og LED afturljósin að aftan gætu fengið uppfærslu líka.
Hins vegar er búist við að helstu breytingarnar verði í farþegarými og undir vélarhlífinni, sérstaklega þegar kemur að flaggskipsgerð Mercedes-AMG G 63.
Endurbætur í innanrými
Að innan mun innréttingin loksins fá nýjustu útgáfuna af MBUX upplýsinga- og afþreyingarhugbúnaði Mercedes, þar sem G-Class er sá eini innann fjölskyldunnar sem er án hans.
Ekki er vitað á þessu stigi hvaða aðrar breytingar verða gerðar en ólíklegt þykir að þýska merkið muni endurhanna miðjustokkinn algjörlega til að hýsa stærri snertiskjá eins og er að finna í nýjustu S-Class, C-Class og SL Roadster, þar sem G-Glass notar sinn eigin sérsniðna skjá, enda er bíllinn byggður grind en ekki MRA2 grunninum sem fólksbílarnir eru byggðir á.
Þess í stað verður áherslan lögð á nýjan hugbúnað, nýja virkni og uppfærðan rofabúnað, þar á meðal snertinæma púða í stað eldri snúningstakkanna sem er að finna í núverandi bíl, og uppfært úrval af innréttingum sem kaupendur geta valið úr.
Að sögn Auto Express munu vélar fyrir breska markaðinn haldast við núverandi framboð af 3,0 lítra 400d dísilgerð með forþjöppu og 577 hestafla AMG-G 63 útgáfu, hugsanlega uppfærð til að innihalda 48 volta milda tvinnútgáfu af 4,0 lítra V8 túrbó AMG, eins og fyrirfinnst í nýjustu E 63 fólksbílunum.
Mercedes mun einnig nota þessa andlitslyftingu sem tækifæri til að kynna upphækkaða gerð með enn meiri torfærugetu.
Njósnarar hafa séð 4×4 tilraunabíla með meiri getu af G-Class allt aftur til sumarsins 2020.
Síðasti áður en allt verður rafmagnað?
Þessi endurbót á G-Class eins og við þekkjum hann gæti verið sú síðasta sinnar tegundar áður en rafmagnsútgáfan kemur.
EQG hugmyndin var fyrst sýnd almenningi á bílasýningunni í München árið 2021 og státar af endurnýjaðri hönnun með nokkrum sérstökum eiginleikum eins og óhefðbundinni ferhyrndri „varadekksfestingu“ að aftan.
(frétt á vef Auto Express)
Umræður um þessa grein