Volvo droppar 10 bílum úr 100 feta hæð
Drop test er vanalega eitthvað sem við sjáum Youtube bloggara gera í myndböndum teknum á síma og birt á vefnum. En þeir droppa ekki bílum. En Volvo gerir hlutina aðeins öðruvísi reyndar.
Samt sem áður verður að segjast að maður gapir við að sjá Volvo láta 10 splunkunýja bíla hanga í krana og sleppa þeim svo úr 100 feta hæð. Til að gera þetta mögulegt var notast við risakrana sem bílarnir voru hífðir upp með og látnir falla og skella niður á nefið. Sjá neðangreint myndband.
Skýrari mynd
Nú hugsa menn með sér: „Af hverju?” Volvo er með gott svar. „Tilraun sem þessi gefur mun skýrari mynd af alvarlegu umferðarslysi en við getum prófað í venjulegu árekstrarprófi.”


Volvo menn fullyrða að fallprófunin gefi réttari mynd af alvarlegustu umferðarslysunum þar sem til dæmis samstuð verður á milli fólks- og flutningabíls á mikilli ferð eða mjög harða hliðarárekstra. Þetta eru þau umferðarslys sem valda hvað mestum meiðslum á farþegum.
Þjálfun fyrir neyðarliða
Í annan stað er Volvo í samstarfi við sænskar neyðarsveitir í þessum prófunum. Í svona háorkuslysum notast neyðarsveitir við sérþjálfaðan mannskap og öflug tæki eins og vökvaklippur til að losa slasaða á sem skemmstum tíma úr flökum bifreiða. Markmiðið er síðan að koma slösuðum á neyðarmóttöku innan ákveðins tíma sem oft hefur verið kallaður „hinn gullni klukkutími” e. Golden hour.

Fallprófunin gengur því ekki síður út á að þjálfa neyðarliða við að bregðast við alvarlegum umferðarslysum.

Í prófuninni safnast upplýsingar sem hjálpa Volvo til að framleiða öruggari bifreiðar ásamt því að þjálfa og auka þekkingu neyðarliða er koma að alvarlegum umferðarslysum.
Ný tækni – önnur nálgun
Volvo segir að neyðarsveitir fái því miður oftar en ekki eldri bíla til að æfa sig á. Slíkir bílar eru ef til vill ekki lengur í almennri notkun og skekkja því hina raunverulegu mynd þeirra sem koma að slysi þar sem nýr og fullkominn bíll kemur við sögu.

Bílar með nýjustu tækni og byggingarlag og búnir stórum og miklum rafhlöðum eru enn fáir í bílakirkjugörðum.
Aðgengilegt á heimsvísu
Allar upplýsingar, þjálfun og þekking verður síðan færð til bókar í skýrslu sem gerð verður aðgengileg fyrir neyðarsveitir og dreift frítt – á heimsvísu segir Volvo.
Volvo menn fóru ekki út í smáatriðin hvernig einstakar gerðir bíla þeirra komu út úr þessu magnaða prófi en myndirnar tala sínu máli.
Byggt á grein Autoblog.
Umræður um þessa grein