Allir nýir bílar eru búnir spyrnustýringu eða spólvörn, en veistu hvernig þetta virkar og hvenær eða hvort á að slökkva á þessu?
Nú gengur brátt í garð sá árstími þegar fyrsta hálkan og snjórinn gerir vart við sig. Nær allir nýir bílar eru búnir ýmsum innbyggðum öryggisbúnaði sem hjálpar ökumanninum að aka með öruggari hætti t.d. við vetraraðstæður. Sumt af þessum búnaði „er bara í bílnum“ og eflaust margir ökumenn sem eru ekkert að velta honum fyrir sér dags daglega.
Má þar til dæmis nefna aðstoð við að halda bílnum á réttri akrein, búnaður sem passar upp á að ekki sé farið of nálægt næsta bíl á undan, og hemlalæsivörn.
Eitt af því sem fellur undir „hjálparbúnað“ er spyrnustýring eða „spólvörn“; öryggisatriði sem hefur verið til í áratugi í ýmsum útgáfum, en varð nánast skyldubúnaður í bílum frá árinu 2011.
Eins og með margan öryggisbúnað í bílum, virkar hann í bakgrunni, jafnvel án þess að ökumaður veiti því nokkra einustu athygli, en bíll með gripstýringu er án efa öruggari en sá sem er án slíks búnaðar.
Sumir vilja kalla þennan búnað „spólvörn“, vegna þess að hann kemur að hluta í veg fyrir að eitt eða fleiri hjól spóli í hálku eða bleytu.
Ég hef kosið að kalla þetta „spyrnustýringu“ vegna þess einfaldlega að búnaðurinn tryggir viðspyrnu hjólsins þegar á þarf að halda.
Sá merki nýyrðasmiður bílorða hér á landi, Finnbogi Eyjólfsson, gjarnan kenndur við Heklu, var harður á því að kalla „traction control“ spyrnustýringu, og á sama máli var hann frændi minn, Sigfús B. Sigurðsson, sem kenndi við Iðnskólann um árabil og gaf út tvö orðasöfn yfir tækni- og bílorð.
Við Finnbogi vorum um hríð samstarfsmenn í Heklu, um aldamótin síðustu, og ræddum gjarnan um þýðingar á hugtökum í bílaheiminum – og þetta var eitt þeirra.
Virkar svipað og hemlalæsivörn
Ef við einföldum málið nokkuð, þá má segja að spyrnustýring sé rafeindakerfi sem notar sömu skynjara og læsivörn hemlakerfisins (ABS) til að draga úr eða koma í veg fyrir að hjól spóli.
Ef hjól, eða dekkið, snýst (spólar) þýðir það að dekkið grípur ekki lengur vegyfirborðið á áhrifaríkan hátt. Þetta gæti þá leitt til yfirstýringar (þar sem afturendi bílsins leitar út úr stefnu bílsins) eða undirstýringar (þar sem bíllinn bregst ekki nægilega vel við stýrinu), sem hvort tveggja gæti reynst mjög hættulegt á veginum.
Hvenær var spyrnustýring tekin upp?
Kerfi spyrnustýringar hafa verið notuð í fólksbílum allt frá því á áttunda áratugnum en tæknilegar takmarkanir þýddu að þessi eldri kerfi voru ekki sérlega áreiðanleg eða útbreidd.
Það var ekki fyrr en seint á níunda áratugnum og snemma á þeim tíunda að spyrnustýring fór að verða algengari og fágaðri.
Eins og mikið af hefðbundnum búnaði sem við erum vön í nútímabílum, er stöðlun smám saman orðin hluti af spyrnustýringu, sem afleiðing af aukinni notkun flókinna rafeindakerfa í bílum okkar.
Sem dæmi byrjuðu framleiðendur eins og Mercedes-Benz og BMW að bjóða spyrnustýringu á hágæða S-Class og 7 seríunni, en þróaðist smám saman í ódýrari gerðir og til annarra framleiðenda.
Hvernig virkar spyrnustýring?
Grunntilgangur spyrnustýringar er að greina hvenær dekk missa grip, sem veldur því að hjólið snýst og vinnur síðan til að stöðva eða hægja á snúningshraðanum.
Ef ABS-skynjararnir greina að hjól snýst, mun aksturstölva bílsins minnka átakið frá vélinni í augnablik til að hjólið hægi á sér og þannig næst gripið aftur.
Hægt er að vera með spyrnustýringu á fram-, aftur- eða fjórhjóladrifnu ökutæki og meginreglan er sú sama, sama hvaða hjól fær drifkraft frá vélinni.
Í sumum bílum getur þetta næstum virkað eins og það sé smá hik í aflinu frá vélinni, eða jafnvel eins og vélin hafi þróað gagntruflun, en almennt séð eru nútíma- spyrnustýringarkerfi orðin svo háþróuð að íhlutun þeirra er oft ekki greind í akstrinum.
Auk gripstýringar hafa flestir nýir bílar einnig rafrænt stöðugleikastjórnunarkerfi (oft kallað ESP eða ESC) sem tekur spyrnustýringuna einu stigi lengra með því að beita hemlunum örskot á hjólið sem snýst hraðar en hin.
Sum kerfi geta einnig beint afli vélarinnar á þau hjól sem hafa mest grip.
Hvernig veit ég hvort kerfið virkar?
Eins og með mörg öryggiskerfi er kerfi spyrnustýringar með viðvörunarljós í mælaborði sem mun kvikna stuttlega við gangsetningu til að sýna að kerfið sé virkt.
Ef ljósið heldur áfram að loga og slokknar ekki þegar vélin er komin í gang, bendir það til bilunar í kerfinu og það þarf að athuga á þjónustuverkstæði bílsins.
Ef viðvörunarljósið logar stuttlega við akstur er kerfið í virkri notkun og vinnur að því að koma í veg fyrir að hjól sé að spóla.
Líklegast er að spyrnustýringin sé að vinna þegar ekið er við slæmar aðstæður – svo sem mikla rigningu, snjó eða hálku – eða það getur líka bent til olíubleytu á yfirborði vegarins eða að lausamöl sé á yfirborðinu undir dekkjum. Byrji kerfið að grípa inn oftar gæti þetta líka verið merki um of slitin dekk.
Ætti einhvern tímann að slökkva á spyrnustýringu?
Almennt er ekki mælt með því að slökkva á spyrnustýringu við venjulegan akstur á vegum – það skiptir ekki máli hversu góður ökumaður þú ert, spyrnustýringarkerfið getur komið í veg fyrir að ökumaður missi stjórn á bílnum. Kerfið bregst mun skjótar við en ökumenn gera alla jafna undir stýri.
Hins vegar eru nokkrar aðstæður þar sem ráðlegt er að slökkva á kerfinu. Ef þú keyrir á snjó eða ís eða í mikilli drullu þá verður takmarkað grip á dekkjunum og við þessar aðstæður getur verið æskilegt að láta hjólin spóla til að reyna að ná gripi.
Ef kerfi spyrnustýringar heldur áfram að greina „spól“ hjól við þessar aðstæður mun það halda áfram að minnka aflið frá vélinni sem mun ekki hjálpa til við að gefa bílnum skriðþunga.
Svo ef verið er að aka í drullu, snjó eða ís má íhuga að slökkva á kerfinu, finnist ökumanni bíllinn vera að festast.
Alla jafna er í bílnum rofi merktur með einhverju eins og ASR, TSC, ESC eða ESP, fer eftir framleiðanda bílsins, en á sumum ökutækjum mun þetta vera í einhverri af valmyndunum í upplýsingakerfi bílsins.
(Greinin er byggð á hugmynd á hjálparsíðum vefs Auto Express)
Umræður um þessa grein