Eru sjálfstæð leiðsögutæki í bílum úrelt?
- Stutta svarið er nei – skoðum það nánar
Fyrir allnokkru fjölluðum við um bílamyndavélar (Dash Cam) hér á vefnum og fengum í kjölfarið nokkrar spurningar. Meðal þeirra voru spurningar um leiðsögutæki í bílum, hvort þau væru orðin úrelt vegna þess að æ fleiri bílar koma með slíkan búnað innbyggðan í skjá bílsins.
Við tókum málið til skoðunar – og stutta svarið er NEI! Í mörgum tilfellum kemur þessi búnaður sér vel og verður farið yfir það nánar hér á eftir.
Við erum búin að „prufukeyra“ eitt slíkt tæki um nokkurn tíma, Garmin Drivesmart 66 MT- Travellers Edition, með nýlega uppfærðu Íslandskorti, og reynslan er góð.
Ágætt Íslandskort
Strax við fyrstu sýn kemur það á óvart hversu Íslandskortið í tækinu er gott og það sýnir vel gatnakerfi og næsta umhverfi með örnefnum.
Helstu kostir:
Sýnir alltaf réttan raunhraða. Hraðinn sem ekið er á er sýndur í ramma neðst til vinstri á skjánum. Þar fyrir ofan er leyfður ökuhraði á viðkomandi götu sýndur inni í rauðum hring.
Lætur vita ef ekið er yfir leyfilegum hraða. Þegar það gerist breytist liturinn á sýnda hraðanum þannig að grunnlitur í reitnum verður rauður. Tækið lætur einnig vita með hljóðmerki þegar þetta gerist, og er hægt að velja hvort viðvörunin kemur strax eða til dæmis þegar hraðinn fer nokkra kílómetra yfir leyfðan hraða.
Varar við þegar hraði er takmarkaður fram undan. Íslandskortið í tækinu er með skilgreindum hraða á öllum vegum, og um leið og bíllinn nálgast til dæmis íbúðahverfi með 30 km hámarkshraða, þá lætur tækið vita að þetta er fram undan.
Vel hægt að nota snjallsímann og kort Google
Nú er það svo að hægt er að nota nær alla snjallsíma til að veita okkur svona leiðsögn og margir bílar eru með skjá sem hægt er að tengja við símann og varpa þannig leiðsögninni á skjáinn.
Við höfum prófað þetta bæði hér innanlands og erlendis, og þetta virkar ágætlega. Kortin eru að vísu ekki alveg eins nákvæm, en leiðsögnin virkar.
Tækið veit betur
Leiðsögutækið frá Garmin hefur hins vegar þann kost að vera nákvæmara, og vara betur við þeim svæðum þar sem hraði hefur verið lækkaður, því þar sem hraði var áður leyfður 50 km/klst, er hann nú jafnvel 40 km/klst eða 30 km/klst. Leiðsögutækið aðstoðar ökumenn við þeim vansa að vera teknir fyrir of hraðan akstur á slíkum svæðum, til dæmis þar sem hraði er takmarkaður við 30 km/klst.
Þetta er mikilvægt vegna þess að ef ökumaður lendir í því að aka á því sem nemur tvöföldum þeim hraða sem er leyfður, til dæmis 30 km/kst þá hækka sektir verulega og heimilt er að svipta ökumann ökuréttindum í 3 mánuði til viðbótar.
Það hefði betur borgað sig fyrir ökumanninn að vera með búnað sem hefði varað hann við að hann væri að aka allt of hratt á þessu tiltekna svæði.
Góð leiðsögn
Við höfum líka reynt tækið til að veita okkur leiðsögn, og þar virkar það vel, en skoðum þá aðgerð betur síðar.
En niðurstaðan eftir nokkurra vikna prófun er að Garmin-tækið virkar vel, veitir mér sem eldri ökumanni gott aðhald og varar við ef ekið er of hratt, sem skiptir miklu máli. Nokkuð sem allir ökumenn hafa gott af!
Umræður um þessa grein