Blessaður bílaverkfræðingurinn!
Bifvélavirkjar og allir aðrir sem hafa gert við bíla verða oft gáttaðir á því hvernig bíllinn sem er verið að gera við er hannaður með tilliti til bílaviðgerða. Í kjölfarið hlýtur sá sem hannaði bílinn mikla lofræðu eða hitt þó heldur! Reyndar fer af stað skriða af formælingum, háðsglósum og jafnvel verða til nýyrði sem eru óprenthæf.
Yfirleitt hefst „lofræðan“ þegar skipta á um slithluti eða hluti sem bila frekar oft og það reynist nánast ómögulegt að komast að þeim án þess að rífa hálfan bílinn í sundur.
Bílaverkfræðingar virðast fara versnandi með hverjum áratuginum sem líður. A.m.k. virðast þeir ekki skána miðað við nýlegar niðurstöður úr elgsprófinu. Þyngdarpunkturinn liggur of hátt eða fjöðrunin ekki nógu stíf.
Það er fleira sem betur mætti fara í hönnun nýrra bíla og eitt af því er að finna eitthvað annað en ál sem efni í hús utan um tölvur. Það er ótrúlega algengt að þessi álhús tærist og eyru fyrir boltafestingar brotni.
T.d. eru svokallaðir NOx skynjarar í pústkerfum dísilbíla, þeir eru í raun súrefnisskynjarar sem hafa sína eigin tölvu eða ígildi tölvu sem er í álhúsi undir bílnum.
Þetta þarf yfirleitt að kaupa saman enda skynjarinn og tölvan óaðskiljanleg. En það er mjög algengt að húsið tærist og vatn komist inn í tölvuna. Þetta er ekki ódýrt stykki og er að bila löngu áður en það ætti að gera það og oft í mjög nýlegum bílum.
Ef einhver nennti að leggja í smá vinnu við að finna annað efni í húsið utan um tölvuna, sem tærist ekki svona hratt eða bara alls ekki, myndi viðkomandi spara bílaframleiðandanum stórfé því oft eru bílarnir enn í ábyrgð þegar þetta bilar.
Kannski á þetta sér skýringu og hún er að verkfræðingarnir eru hræddir við að gera mistök sem leiðir til þess að hugurinn lokast og þeir gera bara „örugga“ hluti. Það gæti verið vinnuveitendum þeirra að kenna.
En Elon Musk leyfir sínu starfsfólki t.d. að fylgja eftir sínum verkefnum og gerir sér grein fyrir því að verkefnin enda ekki alltaf sem nothæf lausn.
Þannig getur hans fólk unnið án hræðslu við að gera mistök. Það hefur skilað árangri. Það lærist oft eitthvað nýtt í leiðinni.
Ég held að bílaverkfræðingar nútímans séu lélegar eftirlíkingar af þeim upprunalegu sem þurftu að finna flest upp sjálfir og gátu ekki hermt eftir neinum.
Væri ekki sniðugt ef sá sem hannaði bílinn þyrfti að sýna bifvélavirkjunum hvernig á að gera við hann?
Umræður um þessa grein