Alltaf er hægt að læra eitthvað nýtt. Hefur þú heyrt um bíllyklatrixið? Hvernig láta má ferskt loft leika um bílinn án þess að starta eða svo mikið sem svissa á?
Ég hnaut um myndband inni á YouTube þar sem fullyrt var að opna (og loka) mætti gluggum bílsins með fjarstýringunni (bíllykli) – svo framarlega sem rúðurnar eru rafdrifnar og fjarstýringin í lagi.
Það sem þarf að gera til að opna er einfaldlega að halda „opna“ takkanum niðri í stutta stund og svo er það „loka“ takkinn (eða hvað þetta nú heitir) til að loka aftur.
Njah, hugsaði ég þegar ég sá voða fínan Audi í myndbandinu. Þetta ætti kannski við um nýja bíla en ekki 15 ára gamlan Land Rover Flottheit II. Svo við sonur gerðum tilraun og hér fyrir neðan er sönnun þess að þetta virkar.
Ef þetta er eitthvað sem flestir vita þá má segja að það hafi verið vel varðveitt opinbert leyndarmál. Hvað um það! Þetta er gott trix í snarkandi sumarhitanum!
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein