Áttu hraðskreiðan bíl? Nei, þú átt sófa!
[Ath. frétt frá febrúar 2021] Bugatti Chiron, Koenigsegg Agera RS og SSC Tuatara eru líka sófar! A.m.k. í samanburði við umfjöllunarefni greinarinnar. Hraðskreiðir eru þeir en samanlagður hámarkshraði þessara þriggja bíla nær ekki hraðanum á því tæki sem ég ætla að fjalla um hér. Það vantar reyndar nokkuð upp á það.
Ég kynni til sögunnar Bloodhound LSR sem hét áður Bloodhound SSC. Þetta tryllitæki er hannað til að slá hraðamet á landi sem Thrust SSC á síðan 1997 og við höfum áður fjallað um en það má lesa um hann hér.
Rétt er að geta þess að SSC er skammstöfun á SuperSonic Car en í tilfelli Tuatuara er það Shelby SuperCars. Skammstöfunin LSR stendur fyrir Land Speed Record.
Til að rjúfa hljóðmúrinn í þurru lofti við 20°C þarf að ferðast á 1.234 km/klst eða 343 m/sek. Það er áætlað að Blóðhundurinn geti náð allt að 1.609 km/klst hraða en það er sko ekki hægt! Metið er 1.227,985 km/klst svo það á ekki að bæta það neitt lítið.
Andy Green orrustuflugmaður úr konunglega breska flughernum RAF mun líka stýra þessu örvarlagaða farartæki eins og Thrust SSC þegar hraðametið var slegið 1997.
Það þarf væntanlega ekki að taka fram að nánast allt er sérhannað í Bloodhound með þeirri undantekningu að aðalhreyfillinn er Eurojet EJ200 þotuhreyfill samskonar og er í Eurofighter orrustuþotum (þær eru útbúnar 2. stk.). Þessi dugar til að koma Blóðhundinum í 1101 km/klst. Það hefur verið prófað og að sögn virkaði það frekar auðvelt fyrir tækið að ná þeim hraða.
Verkefnið er í tveimur hlutum, fyrst að slá fyrra met með því að koma Blóðhundinum í 1.287 km/klst en það á að gera á næsta ári og svo að ná að koma honum í útreiknaðann hámarkshraða sem er eins og áður sagði 1.609 km/klst en hann er sérstaklega hannaður fyrir það.
Áður en hraðametið verður slegið þá þarf að bæta við eldflaug! Þar með fer Blóðhundurinn úr því að vera vængjalaus orrustuþota yfir í að vera hálfgert geimfar. Vonum bara að hann takist ekki á loft.
Eldflaugin frá Nammo https://www.nammo.com/ er hönnuð í Noregi. Hún gengur fyrir samanþjöppuðu vetnisperoxíði (H2O2) sem notað er sem oxari (oxidiser). Vetnisperoxíðinu er dælt með háum þrýstingi í gegnum silfur vírnet sem virkar eins og hvarfi og klýfur það svo það verður að 600°C gufu og súrefni.
Gufunni og súrefninu er veitt í gegnum stút til að mynda þrýstikraft. Svo Blóðhundurinn verður eiginlega gufuknúinn! Það er því enginn bruni í eldflauginni og engin mengun sem kemur frá henni.
Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu en það má gera á heimasíðu verkefnisins.
Bloodhound LSR verkefnið er til sölu síðan í janúar 2021 en árans vírusinn hefur sett strik í reikning verkefnisins. Áhugasamir kaupendur geta haft beint samband við forstjóra og eiganda Bloodhound LSR, Ian Warhurst: ian.warhurst@graftonlsr.com
Umræður um þessa grein