Að reykspóla, spóla eða ekki að spóla það er spurningin
Á mínum bílaáhuga uppvaxtarárum var mikill áhugi hjá mér og mörgum öðrum á því að reykspóla eða taka burnout eins og það var stundum kallað. Seinna varð drift eða drifting vinsælt. En það snýst m.a. líka um það að láta dekkin spóla.
Hvoru tveggja er ofboðslega gaman en ég hef frétt að lögreglunni sé ekki skemmt. En þetta snýst ekki um að gleðja lögregluna heldur snýst þetta um að snúa hjólum og skemmta sér og öðrum.
Þetta er ekki umhverfisvænt sport, það fylgir þessu hávaði og reykur. Ég mæli ekki með þessu þótt þetta sé gaman.
Þeir sem hafa prófað þessa iðju kannast líklega við að hefðbundið mismunadrif þolir ekki þessa meðferð.
Það sem gerist inni í mismundrifinu er að það hitnar svo mikið að olían sýður þegar annað hjólið snýst en hitt ekki eða mjög lítið.
Þá er járn í járn, ósmurt og glóandi heitt sem veldur því að pinninn eða krossinn sem mismunahjólin snúast á þornar og spænist niður en þá verður los á mismunadrifshjólunum og að endingu getur drifið brotnað ef það er ekki gert við það. Athugið það að spóla á hálku getur líka eyðilagt drifið.
Strax á fjórða áratug síðustu aldar var farið að hanna driflæsingar í bíla sem gerðu það að verkum að hjólin snérust á sama eða svipuðum hraða. Þetta var gert fyrir kappaksturbíla sem voru það kraftmiklir að þeir komust líklega illa áfram því þeir spóluðu á öðru afturdekkinu enda voru flestir bílar með afturhjóladrifi í þá daga.
Á áttunda áratugnum á Íslandi var ekki auðvelt að verða sér út um driflæsingar í þá kraftmiklu Amerísku bíla sem voru algengir hér og voru kallaðir ýmist muscle cars (yfirleitt bílar sem komu kraftmiklir frá verksmiðju) eða hot rods (þegar það var eitthvað búið að hressa upp á mótorinn eftir að bíllinn yfirgaf verksmiðjuna).
En landinn kunni að redda sér. Sumir nefnilega rafsuðu mismunadrifið (settu stundum jafnvel bolta á milli mismunadrifshjólanna sem þeir suðu fasta við þau). Þetta var kallað í gríni ESAB læsing í höfuðið á Sænsku fyrirtæki sem framleiddi rafsuðuvélar og suðupinna en pinnasuða var eina formið af rafsuðu sem var í boði þá.
ESAB læsingin læsti drifinu 100%. Það virðist sniðugt ef þú ætlar að koma þínum kraftmikla aftuhjóladrifna bíl áfram á beinum kafla. En að öllu öðru leyti er þetta mjög slæm lausn eða jafnvel engin lausn. Kíkjum aðeins á skilgreininguna á mismunadrifi: “öxultengi sem dregur úr eða eykur hraða; samstæða fjögurra keilulaga tannhjóla með 45° sniði sem gera það kleift að láta drifin hjól snúast með mismunandi hraða, t.d. í bíl þegar beygt er; fundið upp í lok 18. aldar og algengt í hvers kyns vélbúnaði”.
Sem sagt hjólin þurfa að snúast með mismunandi hraða þegar beygt er en það glatast þegar það er búið að sjóða mismunadrifið fast. Sem þýðir að afturhjóladrifinn bíll spólar alltaf á öðru dekkinu þegar beygt er. Framhjóladrifinn bíll er ókeyrandi með mismunadrifið fast.
Annað atriði sem skiptir máli í þessu er að kamburinn í drifinu er jafnvægisstilltur (tekið efni úr bakhliðinni með því að bora holur í hann) því það má ekki vera kast á honum. En þegar það er búið að sjóða í drifið er búið að eyðileggja jafnvægið í því og þá verður kast á því.
Best er að sjálfsögðu að vera með driflæsingu (eins og þeir sem eru í mótorsporti þar sem það hjálpar vita). Driflæsingar eða Limited Slip Differential, skammstafað eins og alræmt ofskynjunarlyf LSD, er hægt að fá í flestar bifreiðar sem “þurfa” driflæsingar. Það eru til nokkrar mismunandi útfærslur. Margir sportbílar og jeppar koma með driflæsingum sem staðalbúnaði.
Svo eru mjög margir bílar með Electronic Stability Program, ESP eða einhverju hliðstæðu sem staðalbúnaði en það kemur m.a. í veg fyrir spól.
Tölvustýrðar sjálfskiptingar hafa árum saman verið með tökkum sem skipta um á milli forrita í tölvunni þ.e. S fyrir sport sem tekur ákveðnar á og skiptir seinna um gír en venjulega og * sem er fyrir snjó eða ís eða einfaldlega hálku en þá tekur sjálfskipingin mjúklega á hjólunum til að minnka hættuna á því að þau spóli.
Enn nýrri útfærsla sem ég kannast við úr mínum bíl er að þar er takki sem ég get snúið til að breyta stillingum í sjálfskiptingunni og ESP eftir því hvert undirlagið er eða slökkva á “kerfinu”. Allt gert til að auka veggrip við mismunandi aðstæður. En Sport stillingin er á sér hnappi.
Ónefndur ökumaður (sem er ég) lenti í skrítnu atviki síðastliðinn vetur sem tengist efni greinarinnar. Þannig var að það kyngdi niður snjó á frekar skömmum tíma sem var allt í lagi því bíllinn var á heilsársdekkjum og með þeim búnaði sem líst er í málsgreininni hér fyrir ofan.
Ökutúrinn byrjaði vel því bíllinn komst ágætlega áfram þrátt fyrir djúpann snjó og það var alltaf hægt að skella á snjó stillingunni ef það var hætta á að bíllin festist.
Við einn verslunar- og þjónustukjarna voru nokkrir bílar fastir í snjó svo það var farið út að hjálpa. Sest aftur í bílinn, sett í snjóstillinguna og af stað. En það var eitthvað skrítið því bíllinn var orðinn frekar viljugur til að spóla. En hann komst áfram 20 metra og svo var hann fastur! Í þann mund er einn hjálpsamur maður kom að ýta bílnum blasti við bílstjóranum S í mælaborðinu!
Það sem hafði gerst er að hundurinn sem var með í bílnum hafði stigið á Sport takkann og sú stilling hefur greinilega forgang fram yfir allar aðrar stillingar. Þannig að það var snarlega ýtt á takkann, svo bíllinn var þá í snjó/hálku stillingunni, það var sett í bakkgír og maðurinn sem hjálpaði við að ýta bílnum hafði ekkert fyrir því. Lærdómurinn er því að það er best að gæta að því í hvaða stillingu bíllinn er hverju sinni.
Umræður um þessa grein