Það þarf ekkert endilega bílpróf til að keppa í torfæru. Í það minnsta ekki þessari gerð torfæru. Um helgina fór fram keppni hjá Bílaklúbbi Akureyrar þar sem fjarstýrðir trukkar tókust á. Þeir byrja nefnilega ungir í mótorsportinu á Akureyri og árangurinn eftir því.
RC-deildin innan Bílaklúbbs Akureyrar er tiltölulega ný deild og er henni tilheyrir fólk á öllum aldri þó svo að yngstu ökumennirnir séu þar mest áberandi. RC-bílar geta verið af hinum ýmsu gerðum en það kemur kannski ekki á óvart að torfærutrukkarnir séu aðalmálið í þessum landsfjórðungi.
35 keppendur
Oftast hefur RC-keppnin verið haldin daginn fyrir stóru torfærukeppnina á Akureyri en í ár var þetta með öðru sniði:
„Við höfum verið að keyra torfærukeppnir yfirleitt daginn fyrir torfæru á stóru bílunum og síðan höfum við verið að keyra crawl, sem eru þrautabrautir, á þessum bílum,“ segir Valdimar Geir Valdimarsson (Valdi) hjá Bílaklúbbi Akureyrar. Hugmyndin er að tengja RC-torfærukeppnirnar við stóru torfærukeppnirnar um allt land, og væri frábært ef sú hefð kæmist á, að mati undirritaðrar.
Keppt var í tveimur flokkum og voru keppendur 35 talsins.
Í þetta skiptið voru brautirnar innanhúss og virðist það hafa komið nokkuð vel út. „Við vorum með brautir inni á Glerártorgi, í gamla Rúmfatalagers-bilinu og var þetta gert í samvinnu við búðina Hobby og Sport sem selur til dæmis svona bíla,“ segir Valdi.
Bensínbílarnir víkja fyrir rafbílum
Orkuskipti virðast ganga hraðar fyrir sig í fjarstýrða bílaflotanum heldur en fólksbílaflota landans. „Þessir bílar eru í misjöfnum stærðaflokkum og þá rafmangsbílar. Bensínbílarnir eru næstum alveg dottnir út,“ segir Valdi.
Sigurvegarar í keppni helgarinnar voru þeir Elmar Leó Aðalsteinsson og Ingimar Skjóldal. Elmar Leó í flokki 1/24 og Ingimar í flokki 1/10.
Þetta verður sko eitthvað!
Bílaklúbbur Akureyrar er mjög öflugur klúbbur og alltaf eitthvað sniðugt að gerast innan hinna ýmsu deilda hans. Klúbburinn var stofnaður árið 1974 og er eitt elsta akstursíþróttafélag landsins. Akstursíþróttasvæðið sem klúbburinn hefur til umráða er alveg frábært en þar er (fyrir utan sjálft félagsheimilið) ökugerði og keppnissvæði.
Á keppnissvæðinu fara m.a. fram götuspyrnur, sandspyrnur, torfærukeppnir, auto-x og go-kart. Jú, og ekki má gleyma að minnast á hina nýju kvartmílubraut sem var tekin í notkun þann 18. júní 2021. Í sumar bætist ný rallycrossbraut við.
Til stendur að útbúa sérstakt svæði fyrir RC-bílana: „Það verður í Lundinum, svokölluðum, fyrir þá crawl og upp við pittinn á torfærusvæðinu. Þar verður torfæran á RC-bílunum,“ segir Valdi að lokum og verður gaman að fylgjast með því.
Hér er stórgott myndband frá keppninni árið 2020 en heiðurinn af myndbandinu á Jakob Cecil, sá mikli meistari.
Þessu tengt:
Íslandsmeistari í torfæru setur öðruvísi heimsmet
Tveggja ára „ökufantur“ á Akureyri ´71
Laddi auglýsir torfæruna
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein