Aldrei hafa áhorfendur Formúlu 1 vitað eins vel og í ár um hvað gerist „á bak við tjöldin“ í Formúlu 1. Keppnisstjórinn Michael Masi kom því í kring fyrr á þessu ári að samtöl milli keppnisstjórnar og liðanna heyrðust í sjónvarpsútsendingum. Var það glappaskot hjá karli? Sér hann eftir því núna að hafa gert vinnulag FIA opinbert?
Hann var tiltölulega fljótur að yfirgefa aksturíþróttasvæðið í Abu Dhabi í gærkvöld að síðustu keppni tímabilsins lokinni. Hver þá? Jú, mikið rétt: Michael Masi, keppnisstjóri Formúlu 1.
Michael Masi tók við sem keppnisstjóri Formúlu 1 árið 2019 eftir að Charlie Whiting (sem hélt utan um keppnishald í F1 frá 1988) varð bráðkvaddur í marsmánuði það sama ár.
Of mikil innsýn í vinnuferli FIA?
Masi var, sem fyrr segir, sá sem taldi best að leyfa áhorfendum að hlýða á samskipti keppnisstjórnar og stjórnenda liðanna í Formúlu 1 en áður gátu áhorfendur sjónvarpsútsendinga Formúlu 1 aðeins heyrt það sem fór ökumanni og tengilið hans í millum. Þetta breyttist í maí síðastliðnum.
Síðustu keppnir hafa „látið“ Masi líta út eins og spilltan geðþóttaákvarðanapésa þar sem hann virðist blakta eins og lauf í vindi í skoðunum sínum annars vegar og afstöðu til reglna hins vegar. Í keppninni í Jeddah, þann 5. desember sl., mátti skilja það sem svo að hann ætti í samningaviðræðum við liðin um refsingu ökumanna.
Í keppninni í gær var margt sem minnti einna helst á farsa á tungumáli manni framandi, þó svo að orðin væru kunnugleg. Það var þegar Masi sagði eitt, meinti annað og skipti svo um skoðun. Er það virkilega svona sem FIA (Alþjóðaaksturíþróttasambandið) vill að fólk á þess vegum leysi störf sín af hendi? Eða er einn bjöllusauður í áhrifastöðu búinn að koma óorði á FIA?
Enda varð allt vitlaust og hugsanlega þarf nýr heimsmeistari, Max Verstappen, að skila bikarnum og það sem verra væri; heimsmeistaratitlinum. Hann á sannarlega allt gott skilið, rétt eins og aðrir keppendur í Formúlu 1:
Það kallast heiðarleg keppni þar sem sömu reglur gilda fyrir alla keppendur.
Svo botnaði Masi botninn endanlega, að því er mörgum virðist, eftir að fyrstu keppendur komu í mark, með dónalegri athugasemd í samskiptum við Toto Wolff (liðsstjóra Mercedes) gegnum radíóið og athugasemdina má heyra hér:
Komið er inn á náskyld mál í myndbandinu hér fyrir neðan en það er komið frá The Race, vefmiðli sem undirrituð telur býsna góðan og óvilhallan í umfjöllun um akstursíþróttir og ýmsu sem þeim tengjast.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein