Eflaust hafa margir orðið spenntir þegar fréttist að hinn magnaði WRC rallýkappi, Sébastien Loeb, hafi verið við prófanir á Ford Puma M-sport Hybrid 2022 á Spáni og í Monte Carlo. Vona margir að hann ætli að keppa í WRC á næsta ári.
Nei, svo gott er það nú ekki. Eða hvað? Hann hefur raunar haft öðrum hnöppum að hneppa upp á síðkastið, eins og maður segir.
Sébastien Loeb og aðstoðarökumaðurinn Daniel Elena, eru margfaldir heimsmeistarar í rallakstri (9 sinnum hafa þeir orðið heimsmeistarar) en fyrsta titlinn unnu þeir árið 2004.
Loeb, sem er orðinn 47 ára, hefur að undanförnu einbeitt sér að undirbúningi fyrir Dakar rallið á næsta ári. Þeir Loeb og Nani Roma hafa á þessu ári keppt í Extreme E og Dakar fyrir BRX-liðið en urðu að sleppa keppninni í Abu Dhabi fyrr í þessum mánuði eftir að eldur kom upp í einum af bílum liðsins (BRX). Nánar um það hér.
Hvað viðkemur WRC þá hefur Loeb ekki gefið skýrt svar um hvort hann hafi í hyggju að snúa aftur á næsta tímabili. Hann hefur nú samt verið að prófa þennan nýja WRC-bíl, eins og sést t.d. í myndbandinu hér fyrir neðan.
Tímamótaákvörðun opinberuð í dag
Í dag greindu þeir félagar, Sébastien Loeb og Daniel Elena, frá því að Elena væri formlega hættur að keppa. Þeir Loeb og Elena hafa keppt saman síðan árið 1998 með einstökum árangri, eins og fyrr segir.
Haft er eftir Elena á vef WRC í dag að nú séu tímamót hjá honum. „Hér tekur annar kafli við. Ég þarf að einbeita mér að öðru. Ég verð fimmtugur á næsta ári og ég get eiginlega bara hugsað um eitt í einu. Það mun Anais [eiginkona hans] kvitta fyrir manna fyrst,“ sagði Elena sem ætlar að gefa fjölskyldunni allan sinn tíma. Jú, og auðvitað munu þeir Loeb halda áfram að rækta vináttuna og hlúa að henni.
Hvað með Loeb?
Það er nú það. Þó svo að Elena sé hættur þátttöku í WRC þarf það sama ekki að gilda um Loeb. Hann hefur áður gefið í skyn að sú ákvörðun velti alfarið á Elena. En nú er staðan breytt og aðspurður segir Loeb:
„Þessa ákvörðun tókum við í sameiningu. Við ræddum málin fram og aftur því ég mun sennilega keppa í ralli á næstu árum en við þurfum ekki endilega að keppa saman,“ var haft eftir honum á vef WRC.
Sem sagt: Allt opið og hann heldur kannski áfram að prófa Ford Puma M-sport árgerð 2022? Já, hann er klókur karlinn og kann að byggja upp og viðhalda spennunni hjá sínu fólki.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein