Hverjir búa til kappakstursbrautirnar? Nær væri að spyrja „hver“, því einungis fjórir menn eru samþykktir af FIA sem brautarhönnuðir og þar af einn sem hanna má brautir fyrir Formúlu 1.
Í grein sem birtist hér á síðunni í morgun var minnst á að hönnuður Yas Marina brautarinnar í Abu Dhabi, sem keppt er á í Formúlu 1, væri maður að nafni Hermann Tilke.
Það er ekki úr vegi að fræðast ögn um þann mann en hann hefur sannarlega gert eitt og annað í brautarmálum fyrir Formúlu 1 og aðrar akstursíþróttir um heim allan. Hvaða náungi er þetta eiginlega?
Enginn sófasportisti
Það hlýtur að vera æskilegt að maður sem hannar slíkar brautir sé ekki einhver sófasportisti sem ekkert veit um akstursíþróttir, heldur einhver sem hefur aðeins ekið eftir slíkum brautum. Það er ekki nauðsynlegt en það er alla vega ekki verra.
Þjóðverjinn Hermann Tilke hefur einmitt mikla reynslu af akstursíþróttum því sjálfur hefur hann keppt sem ökumaður í nokkrum akstursíþróttagreinum.
Má þar nefna kappakstur ýmiss konar á Nürburgring; VLN endurance racing og 24 Hours Nürburgring.
Hann er byggingaverkfræðingur að mennt og sérhæfir sig í samgöngu- og umferðarþáttum verkfræðinnar. Ofan á það hefur hann menntun í arkitektúr, véla- og rafmagnsverkfræði og svo er hann hundaklippari. Grín! Hann er ekki hundaklippari, en svakalega væri það samt fyndið ofan á allt hitt. Afsakið öll!
Einn af fjórum í heiminum
Þeir eru ekki margir sem hafa þá menntun sem þarf til þess ábyrgðarmikla starfs sem hönnun kappakstursbrauta er. Það er eitt að hanna golfvöll á réttan hátt en að hanna kappakstursbraut getur kostað mannslíf, ef ekki er allt 100%. Það er nú stóri munurinn í stórfurðulegum samanburði undirritaðrar á hönnun golfvalla og kappakstursbrauta.
Tilke er einn af fjórum hönnuðum sem fengið hafa viðurkenningu FIA (alþjóðaakstursíþróttasambandsins) til hönnunar á kappakstursbrautum. En hann er samt sá eini sem „má“ hanna brautir fyrir Formúlu 1, samkvæmt því sem fram kemur í þessari grein í blaðinu The Guardian. Það gæti reyndar hafa breyst því þessi grein sem hér er vísað í er frá 2009. Höfum þann fyrirvara á.
En það breytir því ekki að Hermann Tilke er karlinn sem hannaði brautirnar og er fyrirtæki Tilkes ??fremst allra í heiminum þegar kemur að hönnun kappakstursbrauta.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein