25 ára gamall fékk hann heldur betur að kynnast þeim viðbjóði sem einelti er. Kanadamaðurinn Nicholas Latifi hefur síðustu tvö árin notið tilverunnar sem ökumaður í Formúlu 1. Þar til fyrir tíu dögum. Þá breyttist allt.
Latifi er ökumaðurinn sem ók á brautarvegginn á 52 hring í síðasta kappakstri tímabilsins sem fram fór í Abu Dhabi þann 12. desember síðastliðinn. Áreksturinn varð þegar aðeins 6 hringir voru eftir og í framhaldi af því umturnaðist keppnin. Fyrir þá sem ekki þekkja til málsins þá er það helsta rakið í grein sem lesa má hér. En í það minnsta upphófst við áreksturinn atburðarás sem að lokum skilaði Hollendingnum Max Verstappen heimsmeistaratitli.
Fjarstæðukennd vitleysa á vitleysu ofan
Margir fundu sig knúna til að tjá sig um „hlut“ Latifis í þessu öllu saman , rétt eins og hann hafi ætlað að dúndra á vegg, setja sjálfan sig og aðra í hættu, ekki ljújka keppni o.f.frv.
Með öðrum orðum: Fáránlegt að benda á hann sem sökudólg.
?
Ofan á þá vitleysu bættist sú næsta. Sú var öllu alvarlegri.
Morðhótanir og rafrænt ógeð
Í fyrradag birti Latifi dálítinn pistil þar sem hann vekur máls á samfélagsmeini sem nær til hins stóra vefsamfélags. Þ.e. alls heimsins. Vitna ég nú beint í pistil Latifis (í þýðingu undirritaðrar):
„Vísvitandi hef haldið mig til hlés á samfélagsmiðlum að undanförnu, meðan vindinn lægir eftir atburði síðustu keppni. Mikið hefur verið gert úr stöðunni sem kom upp eftir áreksturinn í Abu Dhabi.
Skilaboð í þúsundatali hafa borist á þeim samfélagsmiðlum sem ég nota – bæði persónulega til mín sem og þar sem þau eru sýnileg öllum. Flest hafa skilaboðin verið uppbyggileg og hvetjandi, en það hefur líka verið töluvert um haturspósta og svívirðingar,“ skrifaði Latifi.
Vissulega var þetta erfið staða sem þarna var skyndilega komin upp og þurfti ökumaðurinn kanadíski að hugsa sig vandlega um: Átti hann að láta sem ekkert væri og vonast til að allt yrði eins og áður? Eða átti hann að svara þessum skilaboðum og taka slaginn á þeim stóra vígvelli sem samfélagsmiðlar geta því miður orðið að í tilfellum á borð við þetta?
„Þetta er ekki formleg yfirlýsing af minni hálfu, heldur bara ég að skrifa niður það sem hefur leitað á huga minn undanfarna daga. Kannski það verði öðrum hvatning eða hjálp á einhvern hátt eða skapi umræður og umræðugrundvöll um neteinelti og rafrænt ofbeldi og þær hrikalegu afleiðingar og áhrif sem það getur haft á fólk.
Það, að nota samfélagsmiðla sem vettvang til að ráðast á einhvern með haturspósti, svívirðingum, hótunum um ofbeldi og jafnvel morðhótunum er hrikalegt – og það er einmitt það sem ég vil vekja athygli á,“ skrifar Latifi, en það er nákvæmlega það sem gerðist í hans tilviki.
Hugrekki eða tepruskapur?
Hver holskeflan af annarri reið yfir Latifi og hans nánustu af gegndarlausu ógeði. Það er nú mín skoðun að með því að opna sig og vekja máls á þessu gapandi holræsi sem samfélagsmeinið einelti er, sýnir Latifi mikinn styrk og síðast en ekki síst: Hugrekki.
Eflaust eru hörðustu ræktendur eineltismannætuplöntunnar á þeirri skoðun að Latifi sé nú bara tepra og ræfill að hafa orð á þessu. Samt er áhugavert að sjaldnast segja gerendur nákvæmlega þetta:
„Hvað, þolir maðurinn ekki smá einelti?“
eða
„Voðalega er hann viðkvæmur. Þetta var nú bara morðhótun.“
Aftur að innihaldi pistilsins og raunar alla leið til Abu Dhabi, til þeirrar stundar er köflótta flaggið féll. Á því augnabliki hugsaði Latifi með sér að eitthvað færi nú að krauma á samfélagsmiðlunum.
„Það, að strax skyldi leiftri bregða fyrir í hugskoti mínu sem sagði mér að best væri að eyða Instagram og Twitter úr farsímanum mínum, alla vega í nokkra daga, segir allt sem segja þarf um hversu grimmir netheimar geta verið.
Hatrið, heiftin, svívirðingarnar og hótanirnar sem í kjölfarið fylgdu; allt þetta kom mér ekki beinlínis í opna skjöldu, því þetta er nú hinn blákaldi veruleiki í þeim heimi sem maður býr í. Það hefur alveg verið fjallað um mig á neikvæðum nótum á netinu og ég held að íþróttafólk sem keppir á alþjóðavettvangi sé meðvitað um að það sé undir smásjánni og þetta einfaldlega fylgir því stundum.“
Er þá ekki gott að eiga marga aðdáendur?
Maður veit það nú vel að íþróttafólk, einkum og sér í lagi fótboltafólk og keppendur í Formúlu 1 sem teljast til áhorfendavænni íþrótta, er í þeirri stöðu að fólk hefur skoðanir á flestu sem það gerir – utan vallar og innnan. Sjáum hvað Latifi segir um þetta:
„Eins og við höfum margoft séð, aftur og aftur, í öllum íþróttagreinum, þá þarf aðeins eitt atvik á óheppilegu augnabliki, til þess að allt fari gjörsamlega úr skorðum og kalli fram það versta hjá þeim hópi fólks sem flokkast til svokallaðra „aðdáenda“ íþróttarinnar. Það sem stuðaði mig var þetta heiftarlega ofbeldi, svívirðingar og morðhótanir sem ég fékk.“
Hann minnist á það í pistlinum að hann hafi beðið liðið sitt afsökunar á því að hafa ekki lokið keppninni, en það hafi hann gert strax að henni lokinni. „Ég hafði enga stjórn á því sem gerðist eftir það.“
Eins og fjallað var um í grein sem lesa má hér þá baðst Latifi afsökunar á því uppþoti sem árekstur hans skapaði og var það strax daginn eftir keppni og hefur hann, sem fyrr segir, haldið sig fjarri sviðsljósinu síðan þá.
„Fólk má auðvitað hafa sínar skoðanir, en að nota þær skoðanir til að tendra hatursbál og kynda undir svívirðingar og hótanir um ofbeldi, ekki aðeins í minn garð, heldur líka minna nánustu, það segir mér að þetta fólk geti ekki talist til sannra aðdáenda íþróttarinnar.
Sem betur fer er ég með þykkan skráp og harður af mér; ég hef verið í þessu nógu lengi til að leiða almenna neikvæðni og skítkast hjá mér. En ég veit það mætavel, eins og margir aðrir, að neikvæð athugasemd virðist alltaf vekja meiri athygli en þær jákvæðu.
Þykki skrápurinn er hluti af þeirri brynju sem íþróttafólk getur þurft að klæðast en margar athugasemdanna og skilaboð sem ég fékk í liðinni viku fóru langt út fyrir öll mörk. Enginn ætti að leyfa slíkum óhroða frá fámennum hópi skilgreina hver hann sjálfur er.“
Þetta var og er langur pistill hjá Latifi. En í honum er margt gott sem undirrituð telur eiga brýnt erindi, ekki bara til þeirra sem fylgjast með Formúlu 1, heldur flestra sem virkir eru á samfélagsmiðlum. Tek ég undir orð Kanadamannsins margorða og spaka, Nicholas Latifis: „Við verðum að taka á þessu í stað þess að láta sem ekkert sé. Svona hegðun á netinu er óásættanleg og hana þarf að uppræta.“
Ég tek líka undir góðar kveðjur hans í lokin og óska lesendum gleðilegra jóla og hvet fólk til að standa saman og byggja upp í stað þess að sundra og brjóta niður.
Góðar stundir.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein