Lewis Hamilton var heldur betur maður helgarinnar í Formúla 1. Keppnin fór fram í São Paulo í Brasilíu og gekk ýmislegt á. Nú virðast ný gögn komin fram um atvik þegar Hamilton (Mercedes-AMG Petronas) reyndi að fara framúr Max Verstappen (Red Bull) á 48. hring keppninnar. Mercedes hefur óskað eftir rannsókn á atvikinu.
Þeir sem fylgdust með Formúlu 1 á sunnudaginn vita hversu stjarnfræðilega spennandi keppnin var en þar sigraði Lewis Hamilton með mögnuðum akstri eftir að hafa á einni helgi fengið samtals 25 sæta refsingu.
Rannsókn takk
Í tilkynningu frá Mercedes, sem birt var í dag, kemur fram að liðið hafi formlega óskað eftir að atvikið, sem átti sér stað í 4. beygju 48. hrings, verði endurskoðað í ljósi nýrra gagna sem gætu varpað nýju ljósi á atvikið.
Í umræddri beygju ætlaði Hamilton framúr Verstappen en það tókst ekki og nánast snertust bílar þeirra, eða þannig leit það út í sjónvarpstækinu hér í Hafnarfirðinum.
Eru margir á því að þarna hafi Verstappen vísvitandi leikið ljótan leik til að hindra framúraksturinn og hafa miklar umræður spunnist um það. Var hann á gráu svæði fyrir eins og fram kemur m.a. hér .
Og nú hefur nefndin sem skráði atvikið niður en rannsakaði ekki nánar, hafið rannsókn sem fyrr segir.
Hamilton náði forystunni á og „stakk“ Verstappen af á 59. hring og sigraði. Nú er stóra spurningin sú hvort Verstappen og Red Bull hafi brotið reglur o.s.frv.
Baulað á ökumann rauða nautsins
Ekki eru sérlega margar vikur síðan Max Verstappen var valinn vinsælasti keppandi Formúlu 1 en það fór lítið fyrir þeim „vinsældum“ eftir keppni sunnudagsins í Brasilíu. Þegar Red Bull karlinn hann Verstappen steig upp á verðlaunapallinn og tók við bikarnum fyrir annað sætið var hreinlega baulað á hann.
Hér má sjá atvikið og svo þegar Hamilton sveif loks fallega fram úr Verstappen. Meðfylgjandi er hins vegar annað sjónarhorn, upptaka innan úr bíl Verstappens, sem birtist á YouTube í dag:
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein