Það er ekki að spyrja að íslensku akstursíþróttafólki! Okkar bestu rallýkappar, þeir Gunnar Karl Jóhannesson og Ísak Guðjónsson, ætla að keppa í Cambrian rallinu í Norður-Wales í lok næsta mánaðar.
Gunnar Karl og Ísak eru tvöfaldir Íslandsmeistarar í ralli og hafa sýnt og sannað að þeir eru frábær áhöfn sem hefur náð einstökum árangri og þeir ætla sér að ná enn lengra.
Bíðum nú aðeins hæg! Hvernig væri að kynna þessa ungu menn fyrir þeim sem ekki fylgjast stöðugt með íslenska rallinu?
Gunnar Karl
Ökumaðurinn Gunnar Karl er yngri en gamli BMW-inn minn en það er kannski ekki besta viðmiðið. Sjáum til, hann er nýorðinn 25 ára. Það er að segja Gunnar Karl. Höldum fornbílnum fyrir utan þetta.
Hann hefur keppt í akstursíþróttum frá árinu 2011 en þá, 15 ára gamall, keppti hann í rallýcross og náði prýðilegum árangri.
Sautján ára aldri þurfa ökumenn að hafa náð til að mega keppa í ralli (aðstoðarökumenn mega keppa árið sem þeir verða fimmtán) og Gunnar Karl brunaði af stað um leið og hann hafði aldur til. Hann hefur keppt margsinnis í Bretlandi og varla misst úr keppni hér heima þrátt fyrir að hafa verið búsettur erlendis um skeið.
Ísak
Ísak Guðjónsson er einn reynslumesti aðstoðarökumaður Íslandssögunnar og margfaldur meistari. Hann er einhverjum árum eldri en Gunnar Karl, kvæntur og fjögurra barna faðir. Reyndar keppti Ísak fyrst í ralli nokkrum árum áður en Gunnar Karl fæddist, eða árið 1993. Ísak hefur keppt erlendis og sem fyrr segir, náð frábærum árangri.
Blaðamaður sér að það væri óðs manns æði að ætla að stikla á stóru í ferli þessa manna því þeir hafa gert svo ævintýralega margt að það kallar á aðra umfjöllun eða hreinlega útgáfu heillar bókar. Þess vegna látum við þetta gott heita hvað kynningu á þeim tveimur snertir.
Þeir félagar keppa á Mitsubishi Lancer Evolution X, sama bíl og rallkappinn Daníel Sigurðsson keppti á í Bretlandi á sínum tíma en Graham Quick smíðaði bílinn. Gunnar Karl hefur keppt á þessum bíl í nokkur ár.
28 áhafnir eru skráðar til keppni í sama flokki og þeir Gunnar Karl og Ísak í Cambrian rallinu. Síðast keppti Gunnar Karl í Cambrian rallinu árið 2018 og minnist þess sem eins strembnasta ralls sem hann hefur keppt í utan landssteinanna.
Erfitt en spennandi rall
Bílablogg mun fylgjast vel með rallinu þegar þar að kemur en að sjálfsögðu er undirbúningur hafinn hjá þeim Gunnari Karli og Ísaki. Jú, og spennan magnast.
„Ég er ekkert smá spenntur fyrir því að fara aftur til Bretlands að keppa, og í fyrsta skiptið finnst mér ég vera með talsverða reynslu,“ segir Gunnar Karl í samtali við blaðamann Bílabloggs.
„Ég hef keppt áður í þessu ralli, hef búið í bænum þar sem rallið er haldið og ég er mjög vanur bílnum og Ísaki í kóarasætinu. Þess vegna er ég fullur af sjálfsöryggi fyrir þessa keppni. Ég geri mér samt grein fyrir því að þetta mun ekki verða auðvelt. Það er létt að vera of öruggur með sjálfan sig eftir velgengnina hjá okkur í keppnum hérna heima,“ segir hann en það er nauðsynlegt að vera meðvitaður um styrkleika sína sem og veikleika.
„Þetta er þó allt annað level, en ég held að reynslan sem ég hef náð að byggja upp á ferlinum muni hjálpa mér að takast á við þær áskoranir sem framundan eru og gera það besta með það sem við höfum,“ segir ökumaðurinn Gunnar Karl Jóhannesson.
„Getum keyrt mjög hratt og gefum ekkert eftir“
„Ég er mjög spenntur að takast á við þá bestu í Bretlandi. Þetta er eitthvað sem við höfum stefnt að frá því í fyrra en vegna Covid varð ekkert af því. Ég hef keppt á einhverjum þessum leiðum en það er langt um liðið,“ segir Ísak.
Hér á landi er farið í leiðarskoðun fyrir rall en þannig verður það ekki fyrir Cambrian rallið.
„Við fáum ekki að leiðarskoða og því reiðum við okkur á video og leiðarnótur sem keppnishaldarar útvega okkur. Þetta fá keppendur viku fyrir rallið og gefst okkur tími til að undirbúa okkur eins vel og völ er á. Ferjuleiðir eru frekar langar í þessu ralli og það getur verið mjög krefjandi að rata og villast ekki. Við fàum nákvæma leiðarbók sem við verðum að fylgja í einu og öllu! Tímakortin eru flóknari svo og allt það sem tengist service og fleiru,“ útskýrir Ísak.
Nokkuð er þetta frábrugðið því sem við þekkjum hér heima hvað umgjörð og fleira varðar en þeir Ísak og Gunnar Karl munu örugglega ekki eiga í vandræðum með að rifja upp hvernig er að keppa á erlendri grundu.
„Ég er fullur bjartsýni og ég veit að við getum keyrt mjög hratt og gefum ekkert eftir,“ segir Ísak Guðjónsson og látum þau orð vera lokaorðin í bili en á næstu vikum fjöllum við betur um rallið, sögu þess, undirbúninginn og skoðum betur hverjir keppa við þá Gunnar Karl og Ísak í Norður-Wales í lok október.
Einnig má benda á vefsíðuna www.gunnarkarlrallydriver.com þar sem helstu fréttir, myndir og fleira um kappana er að finna.
Leyfum einu „in-car“ myndbandi frá því í sumar að fljóta hér með en þarna aka Gunnar Karl og Ísak upp á hálendið um Mælifellsdal:
Umræður um þessa grein