Ekki er langt síðan konur í Sádi-Arabíu fengu að aka bílum. Í júní árið 2018 öðluðust fyrstu konurnar þar í landi ökuréttindi og þrátt fyrir að stutt sé síðan eru komnar fram á sjónarsviðið akstursíþróttakonur sem ætla sér að ná langt í sportinu! Sádi-Arabía var eina landið í heiminum sem bannaði konum að aka bifreið. Allt þar til 24. júní 2018.
Athygli akstursíþróttafólks hefur síðustu dagana einkum beinst að Formúlu 1 en síðasta keppni fór fram í Jeddah í Sádi-Arabíu. Slík athygli hefur margt í för með sér og vonandi er það jákvæða því neikvæða yfirsterkara. Eitt virkilega jákvætt dæmi er sú athygli sem akstursíþróttakonan Reema Juffali fær þessa dagana en hún er fyrsta sádi-arabíska konan sem þátt tekur í kappakstri.
Þvílík áhrif sem Formúla 1 hefur
Það var mikið gæfuspor fyrir Jeddah að Formúla 1 skyldi fara þar fram um helgina. Það er í það minnsta mat hinnar 29 ára gömlu atvinnuakstursíþróttakonu Reema Juffali. Hún segir að orkan sem fyllti borgina þegar keppnin var haldin í Jeddah, hafi verið einstök og áhrifin af öllu umstanginu í kringum keppnishaldið verið mjög jákvæð.
„Bókstaflega allir, íbúar borgarinnar, vinir mínir og fjölskylda, allir hafa verið svo spenntir. Að alþjóðlegur viðburður á borð við Formúlu 1 skuli fara hér fram, með öllu sem honum fylgir, það kemur einhverju jákvæðu af stað, það er ég viss um,“ sagði þessi ljómandi akstursíþróttakona í samtali við fjölmiðilinn Arab News og er ítarlegt viðtalið við Juffali að finna hér.
Það hlýtur að vera sérstakt að vera á meðal fyrstu kvenna til að aka í samfélagi þar sem slíkt þótti óhugsandi fyrir örfáum árum. Og ekki nóg með það heldur að vera fyrsta konan í Sádi-Arabíu til að keppa í akstursíþróttum.
Hún er ekkert blávatn þessi unga kona. Það get ég sagt ykkur, en það segir sig raunar sjálft.
Fréttakonan Natalie Pinkham tók viðtal við Juffali og birtist það í gær. Viðtalið er ekki langt en það segir margt, enda hefur Juffali mikilvægan boðskap að færa. Hér er myndbandið þar sem þær tvær ræða saman:
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein