Dakar rallið fer nú fram í Sádi-Arabíu og í dag (annan keppnisdaginn) var ekin 338 kílómetra leið frá Hail til Al Qaisumah (til að átta sig á „landslaginu“ er best að sjá kort með sérleiðum inni á vefsíðu keppninnar hérna) en annars er hér mynd til glöggvunar:
Það gekk jú á ýmsu á sunnudaginn á fyrstu leið keppninnar. Áttu reynslumestu keppendur í basli með að rata og þegar 70 kílómetrar voru eftir af þeim 333 kílómetrum sem leiðin var, villtust allmargir af leið. Fremur súrt í broti svona „rétt við“ endamarkið þann daginn.
Sjálfur „villtist“ blaðamaðurinn sem þetta skrifar, þ.e. ruglaðist á dögum og því fórst fyrir að fjalla um fyrsta keppnisdaginn. Sem betur fer voru aðrir betur áttaðir og er til dæmis ágæt samantekt um fyrsta formlega keppnisdag 44. Dakar rallsins hér á vef Autosport.
Dagurinn í dag (mánudag) var spennandi, segja þeir sem vel hafa fylgst með, og deila með áhugasömum t.d. á Twitter. Eitthvað var um að stóru nöfnin hefðu lent í klandri á meðan nokkur ungstirni sýndu glimrandi takta.
Staðan í öllum flokkum eftir daginn:
Í mótorhjólaflokki var Joan Barreta fyrstur í dag. Í öðru sæti varð Sam Sunderland sem er með forystuna í flokknum, og Kevin Benavides í því þriðja. ?
Heildarfjöldi keppenda innan flokks: 144.
Í bílaflokki vann Sébastien Loeb (nífaldur heimsmeistari í ralli), næstur kom Al-Attiyah sem leiðir bílaflokkinn, og þriðji var Carlos Sainz.
Heildarfjöldi keppenda innan flokks: 74.
Í flokki fjórhjóla vann Argentínumaðurinn Manuel Andujar, Alexandre Giroud annar og Pablo Copetti þriðji.
Heildarfjöldi keppenda innan flokks: 18
„Lightwight vehicles“ er sameinaður flokkur T3 og T4 og á meðan ég veit ekki hvað hann gæti kallast á íslensku (hugmyndir og ábendingar vel þegnar) verður notast við LW PROTO. Í fyrsta sæti varð Guillaume De Mevius, Francisco Lopez Contardo í öðru sæti og Svíinn Sebastian Eriksson í því þriðja.
Heildarfjöldi keppenda innan flokks: 39.
Í SSV flokki vann Pólverjinn Michal Goczal, Austin Jones varð annar og Rodrigo Luppi De OIiveira sá þriðji.
Heildarfjöldi keppenda innan flokks: 43
Í trukkaflokki raða Rússar sér í fyrstu þrjú sætin: Fyrstur var Andrey Karginov, Dmitry Sotnikov varð annar og Eduard Nikolaev sá þriðji.
Heildarfjöldi keppenda innan flokks: 37
Hinn fámenni opni flokkur samanstendur af tveimur keppendum (alla vega í dag en útlit fyrir að sá þriðji hafi verið skráður en ekki keppt). Þar er Frakkinn Gerard Tramoni á undan Bretanum Andrew Wicklow.
Heildarfjöldi keppenda innan flokks: 2
Ekki var keppt í fornbílaflokki í dag vegna aðstæðna og veðurfarstengdum þáttum.
Þá eru níu keppnisdagar eftir og ekki að ástæðulausu sem sagt er að Dakar rallið sé ein erfiðasta akstursíþróttakeppni í heimi, ef ekki hreinlega sú erfiðasta.
Betur verður farið yfir flokkana í greinum næstu daga. Hér er ágætt myndband þar sem farið er yfir það helsta frá öðrum keppnisdegi Dakar 2022:
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein