Það er dálítið sérstakt að lið í Formúlu 1 sé sagt „á fleygiferð“ áður en keppnistímabilið er í raun hafið en þannig er það nú samt hjá Aston Martin-liðinu. Í fyrsta lagi ætlar það sér að verða fyrst keppnisliða til að kynna nýjan bíl, og í öðru lagi var það rétt áðan að kynna nýjan liðsstjóra. Liðsstjóra sem kemur úr mótorsportheimi BMW.
Þann 22. febrúar næstkomandi (22.02.22) verður bíll liðsins fyrir keppnistímabilið 2022 afhjúpaður í beinu vefstreymi. Bíllinn, AMR22, eins og hann nefnist, segja Aston Martin-menn að sé svakalega fínn og mesta fínerí sem þeir hafa gert. Skárra væri það nú ef menn gerðu ekki betur en áður! Ekki væri töff að tefla fram einhverju hálfgildingshræi. Jæja. Nóg um það!
Svo er það hann Mike: Mike Krack hefur frá árinu 2014 verið yfir akstursíþróttasviði BMW á heimsvísu, en það er býsna stórt. Má þar meðal annars nefna lið BMW í Formula E, GT og IMSA (sem til stendur að víkka út enn frekar með LMDh formúlu IMSA & WEC og þ.m.t. Le Mans 24 Hours). Þar áður var hann hjá Porsche og einnig McLaren svona í hjáverkum
Mike kemur í stað Otmars Szafnauer en hann hætti sem liðsstjóri fyrir rúmri viku og lesa má um þau kaflaskil hér.
Virðist peppaður náungi
Mike er enginn nýgræðingur í heimi Formúlu 1, þó svo að nafnið hringi kannski ekki bjöllum. Hann hefur nefnilega komið víða við. Vitna ég beint í orð hans sjálfs sem lesa má á síðu liðsins:
?
„Ég hef unnið við akstursíþróttir í rúm 20 ár, og starfaði með Seb Vettel í Formúlu 1 árin 2006 og 2007 þegar ég var tæknimaður hjá BMW-Sauber og hann var prófunarökumaður liðsins. Ég ber mikla virðingu fyrir hæfni Vettels og hraða og það verður frábært að vinna með honum aftur. Lance stroll er líka virkilega hraður og hæfileikaríkur ökumaður […],“ segir hann en svo peppar hann næstum yfir sig í næstu setningu:
„Ég hef alltaf verið heillaður af liðinu. Það er fullt af hæfileikafólki og alvöru kappakstursökumönnum. Það er einmitt þessi kappakstursmenning og keppnisgildi sem verða að vera til staðar til þess að ná árangri í akstursíþróttum. Það veit ég og nýju kollegar mínir í Aston Martin Cognizant Formula One™ liðinu vitað það líka. Við munum leggja gríðarlega hart að okkur. Við viljum sigra. Og saman munum við gera það.“
Já, það eru stór orð og verður áhugavert að fylgjast með liðinu á komandi tímabili. Sjá hvort það peppist til sigurs!
?
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein