Maður hefur nú velt því fyrir sér hvernig standi eiginlega á því að sumir fái yfirleitt að aka bifreið og það úti í umferðinni. Ökumenn sem gefa í þegar þeir sjá börn og aka í polla gagngert til að gusa yfir gangandi vegfarendur. Þarf ekki að tuska þetta lið til? Hrauna yfir það?
Fyllist maður ítrekað slíkri gremju og heift þá er kannski ráð að líta aðeins í eigin barm og skoða hvort maður glími við „ökubræði“ eða „road rage“. En það er nú eitthvað sem reiðispekúlantar hafa yndi af að kryfja til mergjar. Ég veit ekki símanúmerið hjá þeim.
Eitt veit ég þó og það er að stundum er hægt að koma auga á spaugilega hlið á þessu, innan marka auðvitað, og hér eru nokkrar sögur sem eru ekki úr eigin sarpi heldur annarra. Þannig að eins og svo oft áður þá er „ég“ í sögunum sem hér verða sagðar, ekki ég sjálf og amman í sögunum ekki amma mín, o.s.frv. Gott að hafa það bara á hreinu!
Byrjum á ömmu gömlu!
Enginn abbast upp á ömmu
Fyrrverandi kærasta mín, hún Darcey blessunin, hafði marga ókosti og ósiðirnir voru ekki fáir. Var þar einna hvimleiðastur sá ósiður hennar að leggja í sérmerkt stæði fyrir hreyfihamlaða. Í fjölda ára komst hún upp með þetta en svo kom nú að því að karma fann á henni botnstykkið.
Dag nokkurn þegar hún var nýbúin að smella bílnum í sérmerkt stæði, vatt maður sér að henni. Já, svona köggull; risavaxinn náungi alveg hreint. Mín fyrrverandi var nú ekki lengi að leggja saman tvo og tvo. Og fá út fimm: Hún hélt að gaurinn ætlaði að bjóða henni út. En nei, onei!
Maðurinn var bálillur vegna þess að hún hafði tekið stæðið sem amma hans þurfti að nota. Nú gat ferðaþjónustubíllinn (amma mannsins var í hjólastól) hvergi lagt og það var Darcey að kenna.
Nú kann maður að halda að rumurinn hafi bara orðað þetta pent og sagt þetta allt með „inniröddinni“ en þannig var það alls ekki. Ég meina ALLS EKKI! Hann öskraði með „úti-í-óbyggðum-röddinni“ og þegar hann hafði þrumað klöppuðu allir þeir sem á bílastæðinu voru og sennilega í næsta nágrenni líka því vel heyrðist í þeim stóra.
Svínið og þér munuð nautið fá (yfir yður…)
Það er ekki fallegt að svína fyrir einhvern í umferðinni, en við getum eflaust verið sammála um að stundum er það hreinlega óhjákvæmilegt. Eða er það ekki?
Jæja, ég svínaði fyrir bíl og ökumaður þess bíls var, svona eftir á að hyggja, dálítið spes.
Á akstri eftir hraðbrautinni áttaði mig skyndilega á að ég var nánast kominn að afreininni sem ég ætlaði að brúka og fátt annað í stöðunni, að mínu mati, en að skutlast yfir tvær akreinar til að ná þesssu. Sem ég og gerði.
Við þessar hundakúnstir allar svínaði ég fyrir einhvern Subaru og varð bílstjórinn greinilega eitthvað foj út í mig. Hann elti mig og gaf allt í botn þar til hann var kominn fram fyrir mig.
Þá henti hann heilli máltíð frá Arby´s út um gluggann þannig að allt fór á framrúðuna á mínum bíl.
Krullufranskar, nautaloka, piparrótarsósa og já, bara allt heila gúmmelaðið fékk ég. Allt kom þetta fljúgandi og lenti á framrúðunni.
Þegar ökubræði er annars vegar fer lítið fyrir fegurðinni
Ég hreint út sagt þoli ekki að sjá konur mála sig á sama tíma og þær aka bíl; þetta virðist bara svo hættulegt!
Fyrir nokkrum dögum, á leiðinni í vinnuna, sá ég konu í næsta bíl setja á sig „eyliner“ þar sem við vorum stopp á rauðu ljósi! Þarna small eitthvað, eða öllu heldur brast, í höfðinu á mér og óttinn vék fyrir gríðarlegri reiði.
Ákvað ég að taka mynd af henni og birta svo myndina í grúppu bæjarfélagsins.
„Já, þetta yrði mátulegt á hana,“ hugsaði ég með mér og mundaði símann til að taka mynd.
En adrenalínið virðist hafa gert mig heldur skjálfhentan og gekk þetta ekki betur en svo að ég missti farsímann ofan í kaffibollann og sullaðist kaffið yfir lærin á mér. Í vandræðunum missti ég af græna ljósinu og var þá aldeilis flautað á mig.
Ætli fari ekki best á því að ég líti aðeins í eigin barm og hætti að skipta mér af annarra manna málum!
Lof mér að kynna: Bleyju sonarins
Ekki botna ég neitt í ökumönnum sem ekki gefa öðrum séns í umferðinni. Nema hvað, um daginn sá ég hvar kona með nokkra krakka aftur í, gerði tilraunir til að komast inn á akreinina sem ég var á en gaurinn fyrir framan mig ætlaði sko ekki að hleypa henni.
Eflaust fór adrenalínframleiðsla konunnar á fullt, enda lítið eftir af aðreininni sem hún þurfti að komast af. Hún gaf því allt í botn og komst loks inn á akreinina.
Það næsta sem gerist er að konan fleygir einhverju út úr bílnum; einhverju sem lendir á framrúðunni á bíl mannsins sem ekki vildi hleypa henni… og þetta „eitthvað“ var yfirfull bleyja.
Sá ég að rúðuþurrkurnar náðu að skófla mestu af innihaldinu af framrúðunni, eða alla vega mjaka því örlítið til, svo ekki hlaust slys af, en varla hefur verið ánægjulegt að þrífa bílinn eftir þessa „ofankomu“ en ekki er við hæfi að kalla þetta „himnasendingu“.
Þessi ágæta umfjöllun hófst á ömmu svo það er viðeigandi að ljúka umfjölluninni á afa. Eða einhverjum sem ekur eins og mjög rólegur afi.
Hafið ykkur bara hæg
Ég ek hægt. Og hvað með það? Þeir sem aka hægt eru öruggari bílstjórar en þeir sem aka hratt, alla vega er það mín kenning að svo sé. Jújú, ég verð var við að ekki eru allir sammála mér. Satt best að segja felst sönnunin einkum í því hversu mjög aðrir bílstjórar flauta á mig úti í umferðinni.
En ég læt það nú ekki raska ró minni og beiti ákveðinni tækni sem klikkar ekki: Í stað þess að aka hraðar þegar flautað er á mig, hægi ég ferðina enn frekar. Því meira sem þeir flauta, því hægar ek ég, alveg þar til lágmarkshraða er náð og þeirri ferð held ég svo lengi sem þörf er á.
Það besta við þetta allt saman er, að sama hversu brjálaðir hinir verða út í mig þá er ekki séns að þeir geti sigað löggunni á mig.
Þannig var nú það! Akið varlega: Ekki of hægt og ekki of hratt. Þetta er ekki dagurinn til að leyfa ökubræðinni að gjósa upp innra með manni.
Ljósmyndir: Unsplash.com
Þessu skylt eða jafnvel fjarskylt:
Einkenni lélegra bílstjóra
Verstu ósiðir ökumanna
BMWagnstjórar þeir verstu?
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein