NÚNA þurfa allir ökumenn að KVEIKJA á öllum LJÓSUM!
- Ný umferðarlög
- Ökumönnum er skylt að hafa öll ökuljós kveikt
- Margir ökumenn nýrra bíla eru ólöglegir við akstur sökum ljósaskorts
Margir nýir bílar eru búnir ljósum sem kvikna þegar bíllinn er ræstur og í fyrstu má halda að um sé að ræða ökuljós en sú er ekki raunin. Víða má sjá í umferðinni ökumenn nýrra bíla sem gera sér ekki grein fyrir þessu og aka um með takmörkuð ljós og eru jafnvel ljóslausir að aftan.
Þessi ljós sem kvikna sjálfkrafa á nýjum og nýlegum bílum eru yfirleitt ófullnægjandi til aksturs þar sem ekki er um að ræða ökuljós og því verða ökumenn sjálfir að sjá til þess að öll „ökuljósin“ séu kveikt.
Dagljós í Evrópu en ökuljós hér á landi!
Þessi ljósabúnaður kallast dagljós og er leyfður á Evrópska efnahagssvæðinu og af þeim sökum er heimilt að flytja slíkar bifreiðar inn til Íslands. Það gegnir hins vegar öðru máli um notkun þessa búnaðar hér á landi. Hér er ljósaskylda – allan sólarhringinn og allan ársins hring – og því þarf ökumaður að gæta þess að ökuljósin, ekki stöðuljósin, séu kveikt meðan á akstri stendur. Ljósskynjari þessa dagljósabúnaðar kveikir annars ekki á ökuljósunum fyrr en það rökkvar en utan þess tíma er bara kveikt á ígildi stöðuljósa að framan og í einhverjum tilfellum eru engin ljós kveikt að aftan.
Sumir hafa brugðið á það ráð að setja svart límband yfir ljósskynjara bílsins þannig að tölvan skynji aðstæður þannig að það sé myrkur og að hún kveiki því á ökuljósunum strax og bíllinn er settur í gang.
Margir bílar eru með þannig ljósastillingu að þótt skilið sé við ljósin kveikt þegar drepið er á bílnum þá slokknar sjálfkrafa á þeim þegar drepið er á eða farið er út úr honum.
Síðan kviknar aftur á ljósunum sjálfkrafa þegar bíllinn er settur í gang. Þetta er til dæmis á mínum 11 ára gamla Subaru, og er eflaust á mörgum öðrum bílum.
Bílaleigubílar áhyggjuefni
Ljósabúnaður bifreiða í dag er orðinn töluvert fjölbreyttari en áður en það er alfarið á ábyrgð ökumanna að hann sé rétt notaður. Þetta á líka við um ökumenn bílaleigubíla sem eru sumir hverjir óvanir að aka með ljósin kveikt og á erlendum vefsíðum má gjarnan sjá hvernig þeir geta slökkt þessi svokölluðu dagljós á bílunum sínum.
Það er örugglega misjafnt hversu vel ferðamenn eru upplýstir um notkun ökuljósa í umferðinni hér á landi og næsta víst er að það fer örugglega fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum útlendinganna.
Sá sem þetta skrifar þarf oft að aka Vesturlandsveginn, og núna í síðustu ökuferðinni voru sjö bílar ljóslausir að aftan, fimm bílar vandlega merkir bílaleigum og tveir Nissan Leaf rafbílar. Það sem mér þótti skondið að næsti bíll á undan mér við Grafarholtið var lögreglubíll og bíllinn fyrir framan hann var annar af þessum Nissan rafbílum og án ljósa að aftan. Þarna hefði þurft að sekta viðkomandi fyrir ljósleysið að aftan.
Þetta segir okkur hinum í umferðinni að ljósanotkunin er langt frá því í lagi. Það hefur flogið í hugann að hugsanlega hefði þurft að setja eina reglugerð samfara þessum nýju umferðarlögum: Að allir bílaleigubílar skuli vera búnir fullum dagljósabúnaði, ljós bæði að framan og aftan og að ekki sé unnt að aka bílnum án þess að þessi búnaður sé virkur!
Ekki hefur okkur tekist að finna upplýsingar um hvaða viðurlögum á að beita ef ljósanotkun er ekki rétt og samkvæmt umferðarlögum, en munum uppfæra það þegar það kemur í ljós. Eina sem er að finna á vef Samgöngustofu er sektarákvæði vegna þess að ljós eru ekki kveikt – eða „Ökuljós eigi tendruð þegar birta er ófullnægjandi“ og þar er sektarupphæðin kr. 20.000, en ekkert minnst á ljósaskylduna samkvæmt nýju umferðarlögunum.
Umræður um þessa grein