Nagladekkin undan 15.apríl!
Þegar við lítum á dagatalið þá sjáum við að 15 apríl er í þessari viku [greinin er frá aprílmánuði 2021]. Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur bíleigendur? Jú – þá segir reglugerðin okkur að þá sé nagladekkjatímabili vetrarins lokið, hið minnsta hér hjá okkur á suðvesturhorni landsins.
Samkvæmt reglugerð eru nagladekk bönnuð frá 15. apríl til 31. október nema aðstæður gefi tilefni til annars.
Vissulega geta aðstæður á öðrum landsvæðum, einkum á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi verið þannig að vetrarfærð er enn á fjallvegum og þá er heimilt að nota allan varnarbúnað til öryggis ef þurfa þykir við aksturinn.
Auknar kröfur um mynstursdýpt hjólbarða
Á vef Samgöngustofu má lesa eftirfarandi um mynstursdýpt hjólbarða, en gerðar hafa verið auknar kröfur um mynstursdýpt hjólbarða. Er það í samræmi við reglugerð nr.736/2014:
Nú þurfa hjólbarðar bifreiða að hafa að lágmarki 3,0 mm mynstursdýpt yfir vetrartímann (1. nóvember – 14. apríl) en það er sama tímabil og heimilt er að aka á negldum hjólbörðum.
Á því tímabili þarf mynstursdýpt hjólbarða bifreiða til neyðaraksturs að vera að minnsta kosti 4,0 mm.
Yfir sumartímann (15. apríl – 31. október) þurfa hjólbarðar bifreiða að hafa að lágmarki 1,6 mm mynstursdýpt en bifreiðar til neyðaraksturs að minnsta kosti 2,0 mm.
Þessar breytingar voru alfarið gerðar í þágu aukins umferðaröryggis og með hliðsjón af þeim reglum sem gilda annars staðar á Norðurlöndum þar sem akstursskilyrði að vetrarlagi eru svipuð okkar. Við undirbúning þessara breytinga var haft fullt samráð við til dæmis lögreglu, tryggingafélög og rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Með aukinni mynstursdýpt mun veggrip hjólbarðanna aukast og hemlunarvegalengd styttast. Þess er vænst að breytingarnar muni fækka þeim bílum sem þurfa á aðstoð að halda við minnstu breytingar á færð og jafnframt stuðla að fækkun umferðarslysa.
Skoðum dekkin okkar vel
Sumir eiga sumardekkin tilbúin á felgum í bílskúrnum. Þeir geta skipt hvenær sem er og veðurspáin næstu daga gerir ráð fyrir hlýnandi veðri og því er engin ástæða að draga dekkjaskiptin.
En hér skiptir líka miklu máli að skoða sumardekkin vel, að þau séu ekki misslitin, og í góðu lagi. Gallað dekk getur reynst hættulegt í umferðinni.
Aðrir eiga sumardekkin í geymslu hjá hjólbarðaverkstæði, og verða að treysta því að starfsmenn verkstæðisins skoði dekkin og setji þau aðeins undir ef þau eru í lagi og með næga mynstursdýpt.
Umræður um þessa grein