Haustrigningar og vatnsrásir í malbiki
Umhleypingar í veðri á þessum árstíma geta verið ökumönnum hættulegar. Snögg veðraskipti, sér í lagir miklar haustrigningar geta skapað hættu í umferðinni, sér í lagi þar sem slitrásir hafa skapast í slitnu malbiki.
Í rigningatíð safnast vatn í þessar slitrásir, sem geta valdið því að ökumenn missa stjórn á bílnum, jafnvel bara í andartak, sem er samt nóg til þess að bíllinn „fljóti upp“ og rási til hliðar.
Ástand dekkjana á bílnum skipti miklu máli við þessar aðstæður, því sé bíllinn á mjög slitnum dekkjum er miklu líklegra að þetta gerist. Margir bíleigendur freistast til að „keyra gömlu sumardekkin út“ því það er stutt í það að leyfilegt sé að skipta yfir á vetrardekkin. Því grófari sem dekkin eru því minni hætta er á því að bíllinn nái að fljóta í vatninu sem safnast hefur fyrir í vatnsrásinni í malbikinu.
En það þarf ekki gamlan bíl né slitin dekk til þess að þetta gerist! Um liðna helgi var splunkunýr rafbíll í reynsluakstri hér hjá Bílabloggi. Þegar bílnum var ekið eftir Vesturlandsveginum í dágóðri rigningu var komið að svona slitrásum í malbikinu.
Og bíllinn náði að „fljóta“ eitt andartak, þótt hann væri á nánast ókeyrðum sumardekkjum. Það kann að hafa spilað hér inn í að þessi bíll er með drif á afturhjólunum, en umfangsmiklar prófanir hjá dekkjaframleiðendum hafa leitt í ljós að framdrifnir bíla grípa betur í malbikið við svona veðuraðstæður.
Tölur frá tryggingafélögum styðja þessa staðreynd
„Töluverð hætta er á að ökumenn geti misst stjórn á bílum sínum ef þeir aka í vatnsrásum í malbiki. Sér í lagi er hættan mikil ef ekið er á slitnum dekkjum. Kannanir VÍS sýna að það sé algengt, sér í lagi á tjónabílum sem koma inn til félagsins. Bílar geta flotið upp og ökumaður lítið ráðið við ökutækið”.
„Mikilvægt er því að haga akstri miðað við aðstæður með því að forðast að aka í vatnsrásunum og draga úr hraða ökutækis. Svo mátti lesa á vef VÍS fyrir nokkrum árum, og þetta á við enn í dag.
Meiri hætta ef hitastigið fellur
Þá er rétt að benda á að enn meiri hætta getur skapast við akstur í vatnsveðri ef hitastigið fellur og færist nær frostmarki. Þá verða þessar vatnsrásir enn hættulegri, því vatn og raki situr lengur á malbikinu við rásirnar og mynda svell sem getur verið enn hættulegra.
Umræður um þessa grein