Gætum að réttri hæðarstillingu ökuljósanna
-þegar við drögum eftirvagna – stór hjólhýsi eða hestakerrur
Núna [ath. þetta er grein frá 2020 sem á einnig vel við núna] er að ganga í garð „íslenskt ferðasumar“ og eflaust verða fleiri á ferð um þjóðvegina en síðstu tvö árin – og sennilega margir með vagna í eftirdragi.
Stórt hjólhýsi leggur aukinn þunga á afturenda bílsins og það veldur því að hann sígur með þeim afleiðingum að ökuljósin vísa meira upp og það getur blindað ökumenn sem koma úr gagnstæðri átt.
Á flestum evrópskum og japönskum bílum er lítill snúningsrofi eða „tunnurofi“ með tölunum frá 0 til 5 svo tekið sé dæmi. Því miður vantar svona rofa í suma af stóru bandarísku pallbílana, sem er galli, því þeir eru gjarnan að draga þunga eftirvagna eins og hestakerrur sem valda því að framendinn hækkar og ljósin þar með.
Stillum ljósin þegar eftirvagninn er kominn á kúluna
Þegar eftirvagninn (hjólhýsið) er kominn á dráttarkúluna á bílnum er gott að kveikja ljósin og ganga um það bil 25 til 30 skref fram fyrir bílinn og horfa á ljósin. Ef þau eru of skær þarf að lækka geislann, oftast er nóg að stilla rofann í mælaborðinu á 2, því þá lækkar geislinn og enginn hætta er á að blinda þann sem á móti kemur eða valda á þann hátt óþægindum í umferðinni.
En best er að hafa annan aðila sitjandi í bílnum og láta hann breyta stillingunni þar til að sá sem er að horfa á ljósgeislann er ánægður.
Góða ferð í íslenska ferðasumrinu og komum öll heil heim!
Umræður um þessa grein