Fyrsta umferðaróhappið í sögu bílsins?
Fyrsti bíllinn?
Nicolas-Joseph Cugnot var franskur uppfinningamaður sem fæddist á 18. öld. Það sem hann er sennilega þekktastur fyrir er að hafa fundið upp gufuknúinn vagn sem kallaður var “Fardier à vapeur” sem eftir því sem ég kemst næst þýðir gufuvagn. Það var árið 1769 sem hann smíðaði fyrsta gufuvagninn fyrir Franska herinn en hann var höfuðsmaður í hernum og vagninn var ætlaður til að flytja mjög þungann búnað eins og fallbyssur. Næsta ár smíðaði hann enn stærri vagn sem gat flutt 4 tonn og 4 farþega að sögn. Þetta var í raun fyrsti bíllinn eða sjálfrennireiðin eins og sumir hefðu kallað það. Hér er hægt að skoða myndir af þessu athyglisverða farartæki.
Góðir akstureiginleikar og þægindi er það síðasta sem manni dettur í hug varðandi gufuvagnana hans Cugnot.
Einhver teiknaði fyrsta bílslysið í sögunni
En komum okkur að efninu. 1804 var skráð atvik sem hafði gerst 33 árum áður eða 1771. Þar var á ferðinni Cugnot á gufuvagninum sínum þeim sem var smíðaður 1770. Það er ekki alveg á hreinu hvað gerðist en vagninn braut múrsteins eða hlaðinn steinvegg eða endaði inni í garði í París eða braut jafnvel vegg á vopnabúri Parísarborgar. En sögur segja að Cugnot hafi verið handtekinn og dæmdur fyrir vítaverðann akstur. Ef þetta er allt satt og rétt þá smíðaði Cugnot fyrsta vélknúna bílinn, lenti í fyrsta bílslysinu og var fyrsti ökumaðurinn til að vera dæmdur fyrir gáleysislegann akstur. Þetta toppar sennilega enginn!
Hvað sem má um allt þetta segja þá voru gufuvagnarnir hans Cugnot líklega fyrstu vörubílarnir.
Umræður um þessa grein