Dýrasti botnlangi Íslandssögunnar?
Í roki og rigningu snemma í sumar tók undirrituð þá gölnu ákvörðun að aka „hina leiðina“ suður frá Súgandafirði. Á fornbíl.
Fornbíllinn breyttist tiltölulega skjótt í forarbíl, svo mikil var drullan á leiðinni yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði. Algjör skelfing. Ákaflega fín drullan kom sér fyrir alls staðar. Og ekki orð um það meir!

Alla jafna ekur maður yfir Þröskulda, Steingrímsfjarðarheiði og um Djúpið til að komast á þann sælureit sem Suðureyri við Súgandafjörð er. Sé sú leið ekki farin er ekki um annað að ræða en að aka suðurfirðina, þ.e. Bjarkalundur, Flókalundur, Dynjandisheiði og loks hin eftirminnilega Hrafnseyrarheiði.
Vegurinn um heiðina er nefnilega afar grófur malarvegur og krappar beygjurnar í gríðarlegum halla ekkert grín. Auk þess er ekki gefið að fært sé yfir heiðina að vetri til. Fjallvegur þessi er talinn einn þeirra hættulegustu á landinu.
Nú getum við sleppt Hrafnseyrarheiðinni því með Dýrafjarðargöngunum heyrir hún fortíðinni til á þessari leið. Kílómetrunum fækkar ekki svo orð sé á gerandi en Vestfjarðarvegur styttist um 27,4 km. Fegurðin felst hins vegar í því að tíminn sem þessi ringulreið tekur styttist um hátt í klukkustund og líf og limir vegfarenda ekki í eins mikilli hættu.
Kaffi og kökur seinna
Dýrafjarðargöng eru afskaplega flott. Þau eru nýtískuleg, vel upplýst, led-lýsing í vegköntum og brunavarnir úthugsaðar. Göngin eru 5,6 km löng, malbikuð og með steyptum upphækkuðum öxlum. Í þeim eru tíu útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Inni í göngunum eru fjögur steypt tæknirými og tvö fjarskiptahús utan ganga.
Göngin voru formlega opnuð í dag en það var gert með heldur óhefðbundnu sniði á óvenjulegum tímum. Samgönguráðherra opnaði göngin símleiðis.

Alla jafna er boðið upp á kaffi og kökur við slíkan stórviðburð sem vígsla umferðarmannvirkja er en það verður að bíða betri tíma vegna sóttvarnaráðstafana.
Mokaði heiðina í 46 ár
Fyrstir allra til að aka um göngin eftir formlega opnun voru nemendur úr grunnskóla Þingeyrar og með þeim í för var Gunnar Gísli Sigurðsson frá Ketilseyri en hann hefur mokað Hrafnseyrarheiði í 46 ár.
Sem fyrr segir er vandlega hugað að brunavörnum í göngunum. Slökkvilið Ísafjarðarbæjar er nú að taka í notkun fjóra nýja slökkvibíla og þar af er einn sérútbúinn til að sinna björgunarstörfum í göngunum.

Að því er fram kom í greinargóðri umfjöllun um málið í Morgunblaðinu er bíllinn með myndavélabúnað og hitamyndavél þannig að hægt er að aka inn í göng þótt í þeim sé reykur.
Bíllinn er búinn slökkvikerfi sem kallast One-seven og slökkvibyssu að framan og er með loftbanka fyrir fimm reykköfunartæki. Verður sá bíll staðsettur á Ísafirði en annar svipaður á Þingeyri.
Fjórðu göngin á svæðinu
Dýrafjarðargöng eru fjórðu göngin á því svæði sem tilheyra umdæmi Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar. Bolungarvíkurgöng eru 5,4 km löng og voru þau opnuð árið 2010, Vestfjarðagöngin eru næstlengstu göng landsins, 9,1 km og voru opnuð 1996 og síðast en ekki síst ber að nefna fyrstu göngin á Íslandi en það eru göngin um Arnardalshamar sem eru frá 1949. Þau eru ekki löng, aðeins 30 metrar en opnuðu fyrir samgöngur á milli Súðavíkur og Ísafjarðar.
Nú er komið að því að skýra fyrirsögnina. Dýrasti botnlangi Íslandssögunnar? Staðan í samgöngumálum á Vestfjörðum er nú sú að með tilkomu ganganna er orðið greiðfært frá Ísafirði í Arnarfjörð. Þar taka hindranir við sem fyrr; Dynjandisheiði er fyrsta hindrunin og æði oft lokuð yfir vetrartímann. Því má með sanni segja að Dýrafjarðargöng séu dýrasti botnlangi Íslandssögunnar, enn sem komið er.
Stórt skref
Dýrafjarðargöngin eru vissulega stórt skref í samgöngumálum Vestfjarða. Nýir vegir um Teigsskóg og Dynjandisheiði eru líka í bígerð og munu eflaust færa Vestfirði enn nær nútímanum og þá einkum sunnanverða Vestfirði.

Til hamingju með göngin Vestfirðingar sem og allir Íslendingar!
Texti: Malín Brand
Myndir: Haukur Már Harðarson og Malín Brand
Umræður um þessa grein