Hyundai Tucson PHEV hlýtur góðar viðtökur
Vöxtur í bílasölu hélt áfram í maí, annan mánuðinn í röð hér á landi borið saman við fyrra ár. Nam aukningin í mánuðinum rúmum 140,6% á markaðnum í heild og 229% hjá BL, þar sem 341 fólks- og sendibíll af merkjum fyrirtækisins var nýskráður, þar af 145 nýorkubílar.
Var hlutdeild fyrirtækisins á markaðnum í maí 23,3% auk þess sem fyrirtækið var stærst á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði með 23,7% hlutdeild.
Tucson – Leaf – Duster
Hyundai var lang söluhæsta merki BL í maí með alls 107 nýskráningar og er ánægjulegt hve tengiltvinnjepplingurinn Tucson PHEV hlýtur góðar viðtökur viðskiptavina en alls nýskráði BL 25 slíka til einstaklinga og fyrirtækja í mánuðinum auk þess sem um tvö hundruð aðilar hafa látið taka frá fyrir sig bíl úr næstu sendingu. Bíllinn var kynntur í lok maí.
Næst söluhæstur var Nissan með 65 nýskráða þar sem Leaf var með 20 skráningar. Fast á hæla Nissan kom svo Dacia Duster með 50 nýskráningar, þar af 49 til bílaleiga landsins sem tekið hafa við sér af krafti að undanförnu til að mæta ört vaxandi fjölda ferðamanna sem streyma nú á ný til landsins.
Bílaleigurnar tekið hressilega við sér
Alls voru 777 bílaleigubílar nýskráðir í maí sem er 1.095% aukning frá sama mánuði 2020 og af þeim voru 178 af flestum merkjum sem BL hefur umboð fyrir. Í heild hafa 1.397 bílaleigubílar verið nýskráðir það sem af er ári og af þeim eru 353 af merkjum frá BL.
23,3% aukning orðið í bílakaupum landsmanna
Þess má að lokum geta að 4.709 fólks- og sendibílar voru nýskráðir fyrstu fimm mánuði ársins sem er 23,2% aukning frá sama tímabili 2020. Af þeim voru 1.096 af merkjum sem BL hefur umboð fyrir, eða 23,3%.
Umræður um þessa grein