Frumsýning á fjórum stöðum
Maður getur víst ekki verið á mörgum stöðum á sama tíma en það getur Toyota Corolla Cross aftur á móti. Það eru nefnilega komin eintök til landsins og á morgun, laugardag, verður þessi nýjasti meðlimur Corolla-fjölskyldunnar til sýnis og reynsluaksturs á fjórum stöðum á landinu.
Hér er fréttatilkynning frá Toyota:
„Corolla Cross verður frumsýnd á laugardag [12. nóvember] hjá viðurkenndum söluaðilum Toyota í Kauptúni [Garðabæ], Reykjanesbæ, á Selfossi og Akureyri. Sýningarsalir opna klukkan 12 og þar verður vel tekið á móti gestum sem geta skoðað þessa nýjustu viðbót við Corolla línuna og reynsluekið bílnum.
Þessa bíls hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu enda hentar hann vel við íslenskar aðstæður. Með tilkomu Corolla Cross er úrval sportjeppa hjá Toyota orðið mjög fjölbreytt en fyrir eru Yaris Cross, RAV4 og Highlander. Corolla Cross sameinar kosti rúmgóðs fjölskyldubíls og sportjeppa.
Farangursrýmið er 433 lítrar og stækkar í 1337 lítra þegar aftursætin eru felld niður. Hann er ríkulega búinn með 2.0 lítra vél, 197 hestöfl og aðeins 7,5 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km hraða.
Þessi nýjasta Corolla verður fáanleg í þremur útfærslum, Active, Active + og Luxury og kostar framhjóladrifin frá 6.590.000 kr. Fjórhjóladrifin kostar frá 6.990.000 kr.“
Þannig hljóðaði sú tilkynning og hér er hlekkur á síðu Toyota.
Umræður um þessa grein