Jaguar Land Rover frumsýnir á þriðjudagskvöld, 10. maí kl. 20 að íslenskum tíma, þriðju kynslóð af hinum geysikraftmikla Range Rover Sport og verður kynningunni jafnframt streymt á YouTube rás framleiðandans.
Von er á þessari þriðju kynslóð Range Rover Sport til BL við Hestháls í haust.
Tekinn til kostanna á Íslandi
Á kynningunni verður m.a. frumsýnt nýtt myndskeið sem tekið var á Íslandi sem sýnir hvers er að vænta varðandi afköst, getu og aksturseiginleika nýs Range Rover Sport.
Eins og kunnugt er hafa fyrri kynslóðir Range Rover Sport marga fjöruna sopið í ævintýralegum og ávallt árangursríkum heimsmetstilraunum á borð við akstur á aðeins rúmum 12,5 mínútum upp hina snarbröttu leið á Pikes Peak í Colorado sem er 4,5 km löng með alls 156 kröppum beygjum.
Einnig mætti nefna hraðakstur á 416 hestafla Range Rover Sport upp Tianmen fjallgarðinn í Kína 2018, á leið sem kölluð er Drekaslóð, enda um 99 krappar beygjur að fara uns komið var að lokakaflanum sem voru upp 999 þrep í 45 gráðu halla að Himnahliðinu.
Bíl hafði þá aldrei verið ekið upp þrepin áður. Það verður því spennandi að fylgjast með á YouTube hvaða íslenska ævintýri framleiðandinn hyggst bjóða áhorfendum við frumsýningu þriðju kynslóðar Range Rover Sport sem hefst kl. 20 næstkomandi þriðjudagskvöld, 10. maí.
Umræður um þessa grein