BL frumsýnir rafbílinn MG4
BL við Sævarhöfða frumsýnir nk. laugardag, 5. nóvember, rafbílinn MG4 sem er fimmti rafvæddi fólksbíll framleiðandans í Evrópu síðan merkið var endurvakið í höndum nýrra eigenda fyrir fáeinum árum á Evrópumarkaði.
MG4 er 100% rafknúinn og sérlega vel búinn fimm manna fjölskyldubíl í millistærðarflokki á alveg nýjum undirvagni sem MG þróaði fyrir flatt gólf, aukið rými fyrir ökumann og farþega og enn lægri þyngdarpunkt til að hámarka stöðugleika í akstri.
Í undirvagninum er rafhlaða bílsins, en hún er aðeins 110 mm á hæð sem gerir einnig kleift að auka pláss í farþegarýminu fyrir bæði farangur og farþega.
64 kWh rafhlaða og allt að 450 km drægi
BL býður MG4 í Luxury útfærslu með 64 kWh rafhlöðu sem dregur allt að 450 km. Bíllinn er 201 hestafl og er hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst tæpar 8 sekúndur og hámarkshraði takmarkaður við 160 km/klst.
Góðir aksturseiginleikar
Vegna lágs þyngdarpunkts og 50:50 þyngdardreifingar hefur MG4 sérlega góða aksturseiginleika, ekki síst í kröppum beygjum þar sem örugg stýring og vel hannað fjöðrunarkerfið veitir ökumanni fullkomna stjórn við misjafnar vegaðstæður, ekki síst hálku og rigningu.
Öryggi og þægindi
Meðal öryggisbúnaðar í MG4 má nefna akreinastýringu, sjálfvirka neyðarhemlun, rafdrifna handbremsu, sjálfvirk aðalljós og loftþrýstingsskynjara í 17″ dekkjunum, fjarlægðarskynjarar að aftan, skynvæddur hraðastillir og umferðarteppuhjálp svo nokkuð sé nefnt.
Í farþegarýminu eru m.a. skyggðar rúður, sjálfvirk miðstöð, hæðarstillanlegt ökumannssæti, 6 hátalarar við afþreyingarkerfið, 7″ upplýsingaskjár í mælaborði og 10,25” snertiskjár og að sjálfsögðu tengingar við Android Auto™, Apple Carplay™, Bluetooth, USB tengi fyrir fram- og aftursætisfarþega, 12V tengi og fleira.
Verð og nánari upplýsingar
Verð MG4 Luxury er 4.790.000 kr. Nánari upplýsingar eru að finna á mgmotor.is og hjá söluráðgjöfum BL við Sævarhöfða.
Umræður um þessa grein