Bílakóngurinn sem átti flesta bíla í einkaeigu á Íslandi
Fyrir nokkru var hús rifið í vesturbæ Reykjavíkur sem átti merkan þátt í „bílasögu“ landsins, þótt fáir í dag muni eftir húsinu í þessu hlutverki.
Steindór Einarsson, sem kallaður var bílakóngur Íslands, reisti húsið sem verkstæði og bílageymslu á sínum tíma en hann rak stóra bílastöð í fjölda ára. Eftir að hann hætti starfsemi var ýmiss konar verslunarrekstur í húsinu.
Meðal annars JL-Byggingarvörur á meðan JL veldið var og hét við Hringbrautina.
Þá var fyrsta verslun Byko í Vesturbænum þar til húsa um árabil þar til hún var flutt í Örfirisey.
Þá var farið að kenna reitinn við þá verslun. Eftir það var matvöruverslun Víðis þar um tíma en eftir að hún hvarf af sjónarsviðinu voru gömlu Steindórshúsin að mestu ónotuð.
Fyrstu stórtónleikar á Íslandi
Þótt þau væru notuð sem viðgerðarstöð og geymslu fyrir bíla Steindórs þá komu þau aðeins við menningarsögu þjóðarinnar. Það varð með þeim hætti að þar voru haldnir fyrstu stórtónleikarnir á Íslandi sem fóru fram mánudaginn 18. desember 1939.
Hljómsveit, kór og einsöngvarar fluttu kórverkið Sköpunina eftir austurríska tónskáldið Franz Joseph Haydn undir stjórn Páls Ísólfssonar tónskálds og dómorganista. Þá var enginn salur í Reykjavík sem rúmaði heilan kór og stóra hljómsveit ásamt áheyrendum.
Minningarskjöldur var um langa hríð á húsinu til minningar um þennan merka atburð í tónlistarsögu Reykjavíkur (og landsins).
Fyrsta bifreiðastöðin stofnuð
Árið 1913 urðu merk tímamót í samgöngusögu landsins. Tveir Vestur-Íslendingar tóku sér fyrir hendur að kynna fyrir landsmönnum ný samgöngutæki, bílana, sem áttu brátt eftir að verða aðalfarartæki landsmanna.
Haustið 1913 var stofnuð fyrsta bifreiðastöð landsins með tveimur bifreiðum af gerðinni Ford T. Hlaut bifreiðastöðin nafnið Bifreiðafélag Reykjavíkur.
Árið 1914 fjölgaði bílum stöðvarinnar um fjóra. Þá er vitað að þeir seldu sætið í ferð upp að Elliðaám fyrir 1 krónu og 25 aura.
Síðla árs 1914 leið rekstur þessarar fyrstu leigubílastöðvar undir lok og eignir hennar voru seldar. Ástæða þess var fyrst og fremst skortur á bensíni þar sem fyrri heimsstyrjöldin hafði þá nýlega brotist út.
Reynt var að endurreisa Bifreiðafélag Reykjavíkur 1915 og var nafni þess breytt í Bifreiðafélag 1915 en sagan endurtók sig, Bifreiðafélagið 1915 var leyst upp árið 1917 vegna skorts á varahlutum og öðrum rekstrarvörum vegna heimsstyrjaldarinnar.
Fleiri menn en þeir sem stóðu að Bifreiðafélagi Reykjavíkur hugðu gott til atvinnurekstrar með hinum nýju samgöngutækjum; bifreiðum. Nokkrir menn, sem eignuðust bíla á árunum upp úr 1913, héldu þeim úti til fólks- og vöruflutninga, ýmist með föstum ferðum ellegar auglýstu í blöðum að þeir hefðu bíla til ráðstöfunar.
Fátítt var að fólk notaði þessa þjónustu á þann hátt sem nú tíðkast um leigubíla, þ.e. til þess að komast á milli staða innanbæjar, heldur voru bílarnir fyrst og fremst hafðir til skemmtiferða. Var þá gjarnan ekið út fyrir bæinn eftir því sem vegir leyfðu. Einnig var nokkuð um sjúkraflutninga.
Steindór Einarsson kemur til sögunnar
En stórtækastur í þessum efnum var Steindór H. Einarsson. Steindór eignaðist fyrsta bílinn sinn árið 1915 og var það Ford T. Réði hann til sín bílstjóra, Harald Jónsson og auglýsti meðal annars í Vísi í september að fólksflutningabifreið væri ávallt til leigu hjá Steindóri Einarssyni.
Vísaði Steindór á heimasíma sinn í Ráðagerði við Sellandsstíg þar sem nú heitir Sólvallagata.
Áður en Steindór Einarsson hóf rekstur bifreiða hafði hann meðal annars fengist við að flytja fólk og varning á vélbáti milli skips og lands í Reykjavíkurhöfn, en þá voru ekki nein hafnarmannvirki sem stærri skip gátu lagst að og lágu skipin því á ytri höfninni. Mikil hafnargerð hófst hins vegar í Reykjavík 1913 og sá Steindór þá fram á, að innan fárra ára myndi draga verulega úr þessum flutningum.
Því var það að Steindór ákvað að söðla um og snúa sér að fólksflutningum með bifreiðum, enda gerði hann sér grein fyrir hinum miklu möguleikum sem fólgnir voru í þeirri atvinnugrein.
Strax mikil umsvif
Steindór hafði snemma mikil umsvif. Í Bifreiðaskrá Reykjavíkur 1918 kemur fram að hann átti þá átta bifreiðar, fjórar af hvorri tegundinni, Ford og Overland. Og tveimur árum síðar, voru bifreiðar hans orðnar alls 11, allar nýjar eða nýlegar.
Bifreiðastöð Steindórs
Sem fyrr getur hóf Steindór Einarsson rekstur bifreiða 1915 en stofnaði Bifreiðastöð Steindórs 1918.
Fyrsta afgreiðsla hennar var í þröngri kompu eða öllu heldur skáp undir stiga í aðalinngangi Hótel Íslands.
Haustið 1919 flutti Steindór starfsemi sína á planið sem við hann var kennt lengi en heitir Ingólfstorg í dag. Þar var rekin bifreiðastöð allt til ársins 1986. Steindór féll frá 1966 en synir hans héldu áfram rekstrinum allt til ársins 1982.
Átti flesta bíla í einkaeigu á sínum tíma
Þegar Steindór Einarsson varð 75 ára skrifaði Guðni Jónsson afmælisgrein um hann í Morgunblaðinu og segir þar meðal annars:
Steindór Einarsson var fljótur að sjá hvað klukkan sló. Hann sá hilla undir nýja framtíð í samgöngumálum landsmanna, bifreiðar þjóta sveita og héraða á milli, svo langt sem vegir náðu, með fólk og farangur á margfalt skemmri tíma en áður hafði þekkst.
Og hér fann hinn hagsýni athafnamaður verkefni við sitt hæfi.
Þegar á næsta ári, 1914, stofnaði hann hér í Reykjavík fyrstu bifreiðastöð landsins með þremur bílum. Það var upphafið að hinni þjóðkunnu „Bifreiðastöð Steindórs” og jafnframt upphafið að hinu eiginlega ævistarfi stofnandans í þágu íslenskra samgöngumála.
Fyrirtækið óx síðan hröðum skrefum í höndum hans, svo að í lok kreppuáranna skömmu fyrir síðari heimsstyrjöldina, er talið að hann hafi átt 70 bíla, stærri og smærri, til fólksflutninga auk hins mikla bifreiðaverkstæðis, sem tilheyrði fyrirtækinu.
Frá því um 1930 mun stöðin að jafnaði hafa haft um 35—40 fólksbíla tiltæka í innanbæjarakstur eða í fámennar leiguferðir, auk hinna stóru áætlunarbíla, sem hafa nú orðið sæti fyrir allt að 50 manns. Þess eru engin dæmi hér á landi, að svo margar bifreiðar hafi verið í eigu eins manns, og annars staðar munu þess fá dæmi, jafnvel með stórþjóðum.
Samtímis þjónustu við samborgara sína hér í bæ lagði Steindór þegar frá upphafi áherslu á að koma upp föstum áætlunarferðum til ýmissa staða fjær og nær. í mörg ár hafði hann áætlunarferðir milli Akureyrar og Reykjavíkur, til Víkur í Mýrdal, milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Allt frá 1924 hefir hann haft fastar áætlunarferðir á leiðinni Reykjavík — Hveragerði —Selfoss — Eyrarbakki — Stokkseyri og hefir verið sérleyfishafi á þeirri leið síðan 1935; einnig hefir hann í mörg ár verið sérleyfishafi á leiðinni Reykjavík —Keflavík — Sandgerði.
Þetta eru hvort tveggja mjög fjölfarnar leiðir, og vissulega í mörg horn að líta til þess að fullnægja slíkri þjónustu við almenning með þeim hætti, að enginn þurfi að kvarta.
Fyrstur til að setja talstöðvar í leigubíla
Upp úr 1930 kom hann sér upp stóru bifreiðaverkstæði vestur undir Selsvör, eins og rakið var í upphafi greinarinnar, og starfrækti það um lang árabil, enda var þekktur fyrir að leggja áherslu á, að allt sem bílaútgerð hans heyrði til, væri í góðu lagi.
Hann varð og fyrstur til þess hérlendis að setja talstöðvar í bíla, sem eru hið mesta hagræði.
Steindór Einarsson lést 22. nóvember 1966.
(byggt á ýmsum greinum, þar á meðal sögu Bifreiðastjórafélagsins Frama, afmælisgrein um Steindór Einarsson 75 ára og ýmsum blaðagreinum.)
Umræður um þessa grein