Mazda 929 söluhæsti bíllinn 1975
Ég man eftir henni. Tveir slíkir fjölskyldubílar voru í eigu foreldra minna og allavega einn í eigu föðurbróður míns. Þetta voru geggjaðir bílar. Fyrsta minningin af Mazda hjá mér var þegar ég fékk að fara með föður mínum að sækja splunkunýjan Mazda 616, hvítan að lit í Mazda umboðið Bílaborg sem var að Hverfisgötu 76. Þetta var árið 1972.
Segja má um föður minn að hann hafi haft mikinn bílaáhuga. Löngu áður en ég kom til sögunnar í fjölskyldunni hafði hann haft að markmiði að eiga „góðan“ bíl sem ekki þyrfti að gera við. Því var skipt um bíl með stuttu og jöfnu millibili.
Næsta minning er frá 1973 en þá eignaðist fjölskyldan enn og aftur splunkunýjan Mazda 929 brúnan að lit. Bílaborg var með standsetningu í bakhúsi við Ármúla 7. Þar var haldin bílasýning þar sem fest voru kaup á þessum eðalbíl.
Það var einfaldlega gengið frá kaupunum á staðnum, bíllinn pantaður á sýningunni og sölumaðurinn skrifaði bara niður nafnið á pabba, litinn á bílnum og dyrafjölda á lítinn miða.
Innrétting og allur frágangur í þessum bílum var til fyrirmyndar og sætin úr þrælflottu flauelsefni. Í standsetningunni týndust lyklar bílsins og því tafðist afhending bílsins um nokkrar vikur. Fjölskyldan bjó í göngufæri við Ármúla og ég man eftir að hafa heimsótt þá í standsetningunni á nánast hverjum virkum degi til að skoða bílinn og finna í honum lyktina.
Í Lesbók Morgunblaðsins frá árinu 1974 segir Gísli Sigurðsson í grein um reynsluakstur á 3 dyra Mazda 929 hardtop:
„En engar rósir eru án þyrna og kemur þá að því sem ég tel, að miður hafi heppnazt. Ekki vil ég segja, að ytra útlitið sé ljótt, en mér finnst að svona skemmtilegur bíll hefði átt betra útlit skilið. Það er svo sem hvorki fugl né fiskur, en talsvert mið virðast teiknararnir hafa tekið af þeim smábílum, sem amerísku verksmiðjurnar framleiða í útibúum sínum í Evrópu“.
Japanskir bílar voru á þessum árum að ryðja sér til rúms á mörkuðum og hafði Mazda slegið í gegn í Bandaríkjunum með Wankel mótorum í bílum sínum þar en áhuginn þvarr í olíukreppunni á áttunda áratugnum.
Mazda 929 var þægilegur bíll. Gott að sitja í honum og menn töluðu um hversu þægilegt var að aka bílnum. Í lýsingu á 1974 módelinu á Mazda 929 stendur að undir lægsta punkt séu 17,5 cm., 110 hestafla vél og þyngdin um 1035 kg. með afturhjóladrifi.
Andlitslyfting 1976
Árið 1976 fékk bíllinn andlitslyftingu og var meðal annars grillinu breytt og fjöðrun endurbætt. Þá var bíllinn með sjálfstæðri fjöðrun að framan og demparar voru færðir út en fjaðradempun að aftan. Um þetta leiti voru bílar að koma með radial dekkjum sem þótti mikil bylting. Í radial dekkjum er barðinn heill en ekki með hliðum og toppstykki. Ekki þótti mönnum eins gott að aka á slíkum hjólbörðum á malarvegum.
Árið 1976 hafði bílaumboðið Bílaborg flutt sig um set upp í Borgartún 29. Þar fékk fjölskyldan afhentan spánnýja fjögurra dyra Mözdu 929 græna að lit. Sætin með sömu flauelsáferðinni og græn að lit ásamt allri innréttingu bílsins. Seint gleymist mér það að ég var í vist á Flateyri sumarið 1976 og foreldrar mínir komu til mín í heimsókn. Á Ísafirði var farið í kaffi til ættingja og þá vildi ekki betur til en að lyklarnir læstust inní í Mözdunni og hún í gangi. Fljótt var brugðist við og hringt var suður til Reykjavíkur þar sem aukalyklar voru snarlega settir í umslag og brunað með þá út á Reykjavíkurflugvöll.
Þar vildi svo til að Fokker vél Flugfélagsins var að fara vestur á Ísafjörð og voru aukalyklarnir komnir í hendur föður míns um klukkutíma eftir að aðallyklarnir læstust inni í bifreiðinni.
Í áðurnefndri grein segir Gísli Sigurðsson meðal annars:
„Plast getur vissulega átt rétt á sér á einstaka hlutum, en hitt er svo ef til vill vafasamara, þegar farið er að nota plast til að líkja eftir harðviði í brezkum yfirstéttarbílum. Stýrið í Mazda 929 er úr slíkum dáindisviði og mælarnir í mælaborðinu eru innfelldir í hnotu – úr plasti.“
Gildismat breytist í takti við nýjustu strauma bæði í tækni og tísku. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þessi texti var skrifaður en notkun á plasti í bílaiðnaði hefur margfaldast síðan á áttunda áratugnum ef svo má að orði komast.
Segir svo ekkert af næstu 929 fyrr en árið 1978 en þá keypti föðurbróðir minn Mazda 929L eða Legato. Sá bíll var talsvert breyttur frá fyrri módelum, stærri og mun meiri bíll. Mazda 929L var framleiddur frá 1977 til 1981 en kom þá aftur í nýrri og gjörbreyttri útgáfu. Mazda 929 Legato var kubblaga bíll en afskaplega virðulegur og sérlega flottur að innan með plussáklæði á sætum. Hann var talsvert stærri en forverinn.
Ökukennari á sportbíl
Árið 1982 fór undirritaður í ökunám. Í gamla daga var venja að fjölskyldan hefði nokkurskonar „hirð-ökukennara“ og okkar fjölskylda hafði einn slíkan. Guðmundur G. Pétursson ökukennari var þessi maður í okkar fjölskyldu. Hann kenndi á Mazda 929 hardtop, einum flottasta bílnum á götunni á þessum árum.
Mazda 929 Cosmo var þessi bíll kallaður í Evrópu og naut mikilla vinsælda. Bíllinn var eins og úr framtíðinni hvað hönnun varðar.
Mælaborðið var eins og maður ímyndaði sér að væri í geimskutlu og sætin sérlega nýtískuleg og áklæðið úr mjúku plussi. Kennslubifreiðin sem ég lærði á var hins vegar ekki með vökvastýri og man ég sérstaklega eftir því hve þungur bíllinn var í stýri.
Eins og lesa má á greinum bílagagnrýnenda á áttunda áratugnum voru bílar eins og Mazda að sanna sig á markaðnum og menn báru þá saman við sambærilega bíla frá Evrópu og Bandaríkjunum. Japanir hafa sýnt og sannað að gæði bílaframleiðslu þeirra hefur staðist tímans tönn og náð yfirhönd á mörgum sviðum á undanförnum áratugum.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein