Fyrsti alvöru NASCAR-kraftabíllinn
Fyrir skömmu var birt grein um NASCAR-hetjuna Tim Flock og apann Jocky Flocko sem var „aðstoðarökumaður“ í nokkrum keppnum í apríl og maí 1953.
Á þessum árum ók Tim á Hudson Hornet sem var yfirburðabíll í NASCAR á árunum eftir 1950. Hudsoninn hafði lágan þyngdarpunkt og stóra 308 kúbika sex strokka sleggju sem landaði fjölmörgum sigrum.
En þrátt fyrir velgengni í helgarkeppnum gekk salan ekki vel á virkum dögum, því útlit Hudson-bílanna átti daga sína að rekja aftur til 1948, sem dugði skammt á tímum hraðra útlitsbreytinga eftir 1950, svo ekki sé talað um vélbúnaðinn, því að á nýjum áratug varð V8-vélin nær allsráðandi.
Hudson-fyrirtækið var því komið í fjárhagskröggur árið 1953 og sameinaðist Nash-fyrirtækinu í American Motors Corporation eða AMC. Nýjar bílgerðir voru kynntar árið 1955 með V8-vélum, en því miður voru aksturseiginleikar þessara bíla ekki upp á marga fiska og því neyddust Tim Flock og félagar hans til að róa á önnur mið. Lausnin var hins vegar ekki langt undan, því að í Detroit hafði sá bíll litið dagsins ljós sem margir telja fyrsta kraftabíl sögunnar.
Chrysler 300 var með minnstu Chrysler-yfirbygginguna, grill af viðhafnarbílnum Imperial og með stærstu fáanlegu vélina; hina 300 hestafla, 331 kúbika (5,4 lítra) V8 Firepower með Hemi-heddi og tveimur 4ra hólfa blöndungum.
Nafn bílsins var einfaldlega dregið af hestaflatölunni, en slíkt afl var harla fátítt um miðjan sjötta áratuginn.
Buick Roadmaster var t.d. 236 hestöfl, sem þótti meira en nóg. Hér var nýr tónn sleginn í bílaframleiðslu, sem margir hafa reyndar tengt við Pontiac GTO frá 1964, en hann fólst í því að setja stærstu fáanlegu vélina ofan í meðalstóran bíl og skapa þannig öflugan götubíl. Keppnisliðin í NASCAR-kappakstrinum voru fljót að sjá möguleikana sem fylgdu þessum nýja bíl og var hann kominn á brautirnar sumarið 1955 og landaði fjölmörgum sigrum, enda einn fárra bíla sem komst yfir 200 km hraðamúrinn.
Eitt þessara liða var í eigu Carl Kiekhaefer sem einnig átti hið þekkta Mercury-utanborðsmótorafyrirtæki. Fjárfesti hann í slatta af hvítum 300-bílum og réð til sín nokkra NASCAR-bílstjóra sem áður höfðu ekið á Hudson-bílum. Tók liðið þátt í keppnum ársins 1955 og aftur 1956 með nýrri gerð 300-bílsins. Þrátt fyrir mikið afl þóttu þessir bílar nokkuð þungir og eyðslufrekir, en slíkt kallar á mörg tefjandi eldsneytisstopp.
Engu að síður var mörgum sigrum landað á þessum tveimur áður, en Tim Flock yfirgaf Kiekhaefer-liðið hins vegar í fússi árið 1956 og settist undir stýri á nýjum Ford.
Nokkrar heimildarmyndir hafa varðveist frá NASCAR-keppnum þessara ára, en þeirra best er án efa litmynd sem Purolator-íhlutafyrirtækið lét gera af Darlington-kappakstrinum árið 1956, en hún sýnir undirbúning keppninnar og þá þolraun sem lögð var á bílana á þeim 500 hringjum sem eknir voru, svo ekki sé minnst á öll óhöppin. Talið er að ein svona keppni hafi verið álíka slítandi fyrir einn keppnisbíl og 40.000 km akstur venjulegs heimilisbíls.
Hér má sjá heimildarmyndina í heild sinni:
Tim Flock landaði mörgum sigrum á Hudson-bíl sínum númer 91 á árunum 1952 til 1954, en þegar 300-bíllinn frá Chrysler birtist árið 1955 snéri hann sér að þessum fyrsta alvöru kraftabíl sögunnar.
Vélin í hinum kraftmikla 300-bíl var sú öflugasta sem sést hafði í fjöldaframleiddum bíl árið 1955, en eins og nafnið bendir til var hún 300 hestöfl. Rúmtak Hemi-vélarinnar var 331 kúbik (5,4 lítrar) og tveir 4ra hólfa blöndungar sáu til þess að eldsneytið kæmist hratt og örugglega inn í brunahólfin átta.
Chrysler 300 vakti verðskuldaða athygli þegar hann var kynntur til leiks vorið 1955 og dró að sér venjulega bílamenn jafnt sem NASCAR-kappaksturshetjur. Framleiðslan var þó ekki nema rétt rúmlega 1700 eintök fyrsta árið sem gerir þennan brautryðjanda að einstökum safngrip í dag.
Einungis fjöldaframleiddir bílar voru gjaldgengir í NASCAR-kappakstrinum og því var Chrysler 300 eins og himnasending fyrir nokkur vel stæð keppnislið sem brátt náðu yfirburðastöðu í kappökstrum sumarið 1955, m.a. á hinni frægu Daytona-braut.
Bílar Kiekhaefer-liðsins báru höfuð og herðar yfir marga keppinauta sína og hér má sjá tvo þeirra þjóta framhjá tveimur GM-bílum á Daytona-ströndinni; Buick og Oldsmobile, en ökumenn þeirra virðast hreinlega hafa missa alla stjórn á akstrinum.
Chrysler-fyrirtækið notaði góðan NASCAR-árangur óspart í kynningum á ´56 árgerðinni sem nefnd var 300-B. Og til að gera gott ennþá betra var aflið aukið í 355 hestöfl.
Það voru ekki bara bílaframleiðendur sem nutu góðs af frábærum árangri einstakra keppnisliða í NASCAR, því margir módelbílaframleiðendur hófu framleiðslu á eftirlíkingum þessara bíla, ungum áhugamönnum til mikillar ánægju.
Umræður um þessa grein