Það hlaut að koma að því: Að framtíð og fortíð hittust á miðri leið! Það gerðist í dag á Samgönguminjasafninu Ystafelli þegar DMC DeLorean kom á safnið ásamt fríðu föruneyti. Eigandinn, Stefán Örn Stefánsson, kom með bílinn góða í flutningabíl að Ystafelli og þar mun bíllinn vera innan um aðra góða og merka bíla.
Bíllinn sá er eini sinnar tegundar á landinu og var fluttur inn árið 1998. Árgerðin er 1981 eins og undirrituð sem, eins og bíllinn, telst forngripur en er þó ekki komin á safn. Ekki enn.
Að sögn Sverris Ingólfssonar, hins mikla meistara sem heldur utan um þetta einstaka safn, er bíllinn þó ekki eign safnsins en hversu lengi DeLorean verður norðan heiða er ekki ljóst.
En vonandi um ókomna framtíð í anda þessa bíls.
Meira um safnið má lesa hér og svo má auðvitað fara að Ystafelli sem ævintýri út af fyrir sig.
Meðfylgjandi ljósmyndir eru birtar með góðfúslegu leyfi Samgönguminjasafnsins.
Umræður um þessa grein