Yugo litli fer til Ameríku
Þið munið hann Yugo. Lítill, ljótur og lét ekki mikið mikið yfir sér. Jú, þetta er bíll sem margir muna eflaust eftir þrátt fyrir að hann hafi kannski ekki náð fótfestu hér á landi á blómaskeiði sínu.
Kommúnistaríkið Júgóslavía mátti muna sinn fífil fegri. Arfleifð Yugo nær allt aftur til ársins 1850 en ég veit ekki um neitt kommúnistaríki sem hefur getað framleitt bíla upp á eigin spýtur fyrr en kannski Kína núna.
Eftir síðari heimsstyrjöld réði Joseph Tito lögum og lofum. Hann ákvað að lýðræði væri ofmetið og einræði væri það besta fyrir fólkið.
Ólíkt öðrum kommúnistaríkjum voru þeir þó óháðir Sovétríkjunum.
Það var metnaður hverrar þjóðar að standa undir sínu eigin hagkerfi og á tuttugustu öldinni urðu bílar að nauðsynjavöru.
Júgóslavar stofnuðu fyrirtæki að nafni Zastava um miðja nítjándu öldina en aðalframleiðslan þá var vopn.
Það var síðan ekki fyrr en um 1950 sem Zastava fór að framleiða bíla en það var gert eftir að starfsmenn verksmiðjunnar fengu að kjósa um hvort ekki ætti að skella sér í bílaframleiðslu.
Gömul hönnun frá Fiat
Eins og öll austantjaldslöndin þurfti Zastava aðstoð við framleiðslu bifreiða og leituðu þeir til nágranna sinna á Ítalíu. Það var að sjálfsögðu Fiat.
Samkomulag náðist á milli fyrirtækjanna um framleiðslu á Fiat 1100, 1400 og Campagnola sem var jeppi.
Fljótlega færðu þeir sig yfir í framleiðslu á Fiat 600 og nefndu hann Zastava 750 en hann var einfaldlega með 750 cc vél. Aðalviðskiptavinir Zastava voru skoðanabræður bakvið járntjaldið, þar á meðal Pólland.
Salan fór verulega hægt af stað og var um 5.000 bílar að meðaltali á ári.
Það var ekki fyrr en í lok sjöunda áratugarins að markaðurinn áttaði sig á því að það var flott að eiga Zastava 750 en þá var framleiðslan komin í um 50.000 bíla.
Ljótari gerð af Fiat 128
Árið 1971 kom Zastava 101 sem var í rauninni bara Fiat 128 með örlítu breyttu lagi. Bíllinn þótti svo sem ekki flottur og var heldur ekki vandaður ef út í það er farið en sett var stærri vél í gripinn þar sem 750 cc vélin úr Zastava 750 þótti heldur of lítil. Sú var þó ekki nema 1100 cc að stærð. Hann náði þó að vinna í Tour of Rally árið 1973. Rétt dugði út keppnina!
Árið 1975 þótti Zastava 750 vera orðinn ansi þreyttur enda byggður á bíl sem Fiat hannaði tuttugu árum áður. Það var þá sem Yugo litli kemur til sögunnar og var hann kynntur árið 1978, byggður á Fiat eins og Zastava var von og vísa og kallaður Zastava 102.
Yugo var ljótari og verr smíðaður en flestir aðrir bílar. Fyrst boðinn með tveimur vélarstærðum 848 cc og 1.100cc en sú minni dró bílinn vart áfram svo henni var hent. Hins vegar var 1.100 vélin of dýr fyrir bílinn og var því sett í hann 900 cc vél úr Fiat 127.
Hvað kom til að Yugo fór til Bandaríkjanna?
Það var síðan frumkvöðull frá Bandaríkjunum að nafni Malcolm Bricklin sem var að leita að Vespum til að flytja inn til Bandaríkjanna.
Þar sá Bricklin bráðsniðugan bíl sem bar nafnið Subaru.
Subaruinn var svo lítill að hann gat fallið undir reglugerðir í Bandaríkjunum sem bifhjól eða lítill eða fjórhjól (landbúnaðartæki). Þar með hóf Subaru innreið sína í Ameríku.
Bricklin var síðan á milli viðskipta og var að leita sér að ódýrum litlum bíl til að flytja inn til Bandaríkjanna.
Það var þá sem hann rakst á Yugo litla. Hvorki hann né teymið hans vissu nokkuð um Júgóslavíu og því síður bílinn Yugo.
Karlinn ferðaðist til Júgóslavíu og til Zastava verksmiðjunnar. Þar brá honum heldur betur í brún. Starfsemin var ansi frumstæð. Starfsmenn sváfu í nýjum óafhentum bílum í verksmiðjunni.
En Bricklin ákvað að flytja Yugo 55 til Ameríku og selja í skipsförmum. Bíllinn var náttúrulega bara djók en var þó með stærri vélinni (1.100 cc) sem gaf um 55 hestöfl – enda hét bíllinn einfaldlega Yugo 55.
Betra að framleiða með tapi en að hafa ekkert að gera
Bíllinn var ódýr enda var 30-faldur munur á launum starfsmanna í bílaframleiðslu í Bandaríkjunum og Júgóslavíu. Að sjálfsögðu stóð hann í þeirri trú að hann gæti selt bílinn fyrir lítið og samt grætt.
Farið var í bandarískar reglugerðir með Júgóslövunum, settur var búnaður eins og ljós í toppinn á farþegarýminu og bílasprauturum Zastava verksmiðjanna var hent á námskeið í meðhöndlun metalikk-lakks.
Svo var farið í heljarinnar auglýsingaherferð í Bandaríkjunum. Ókostunum var snúið upp í kosti. Ekkert tölvudrasl sem leiddi til vandræða í bilanagreiningu, framdekkið var undir húddinu sem myndi draga úr höggi við árekstur og svo væru lyklar að bílnum sem stungið væri í læsingar til að opna hann, þannig að engin hætta væri á að læsa lyklana inni í bílnum.
Almenningur hló en auglýsingarnar virkuðu
Auglýsingaherferðin gekk út á að Yugo væri hagkvæmur sem annar bíll á heimili eða fyrir þá tekjuminni sem væru að kaupa sinn fyrsta bíl. Verðið var ekki nema 3.990 dollarar fyrir eintakið. Það væri nálægt 2 milljónum króna í dag.
Eftirspurnin þaut upp á örskömmum tíma! Segið svo að auglýsingaherferðir virki ekki. Um 100 þúsund kvikindi voru forpöntuð og margir voru til í að greiða slatta af dollurum til að komast framar í biðröðina. Júgóslavarnir hófu að vinna á þrískiptum vöktum allan sólarhringinn.
Einn bíll var framleiddur á hverjum 10 mínútum.
Enginn græddi en samt var framleitt
Yugoinn var of dýr, jafnvel þótt hann kostaði lítið. Enginn græddi, hvorki framleiðandinn, söluaðilar né viðskiptavinurinn. Söluhæsta árið í Bandaríkjunum voru rétt undir 50.000 bílar framleiddir. Þetta var árið 1987. Ekki lengra síðan!
Júgóslavía hrundi í grimmu stríði á tíunda áratugnum. Þar með var sögu Yugo litla eins og við þekkjum hann lokið. Að lokum keypti Fiat rústir verksmiðjunnar í gömlu Júgóslavíu og hefur framleitt Fiat þar frá árinu 2012.
?Myndir: Fengnar að láni af vefnum í sagnfræðilegum tilgangi.
[Greinin birtist fyrst í nóvember 2021]?
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein