Vefstóllinn sem lagði grunninn að smíði milljóna bíla
Fjallað um upphafsár Toyota
Álitlegur fjöldi bíla er framleiddur á hverju ári í heiminum. Stóru „risarnir” bandarísku hafa framleitt gríðarlegan fjölda bíla í áranna rás, en fyrir rúmum þremur áratugum komst japanski bílaframleiðandinn Toyota í hóp þeirra „stóru” þegar Toyotamenn náðu þeim áfanga í september árið 1988 að hafa samtals framleitt meira en sextíu milljónir bíla.
Þar með urðu þeir fjórðu bílaframleiðendurnir í heiminum, á eftir General Motors, Ford og Chrysler, að ná þessari tölu.
Það var hinn 14. september 1988 sem Toyota náði þessum áfanga, nákvæmlega 53 árum og 4 mánuðum eftir að fyrsta frumgerð Toyota, A1-bíllinn, sá dagsins ljós í vefnaðarverksmiðju Toyoda.
Sá sem þetta skrifar átti í fórum sínum grein sem var skrifuð af þessu tilefni í DV Bíla og í dag er ætlunin að endurnýta þessi skrif og greina aðeins frá upphafsárum japanska bílafyrirtækisins sem er svo sannarlega orðið eitt af þeim „stóru“ í bílaheiminum í dag.
Hét Toyoda í upphafi
Jú, þá hét fyrirtækið Toyoda, eftir eigandanum. Því kynnu margir að spyrja hví bílar fyrirtækisins heita í dag Toyota með t í stað d. Á bak við það er skýring sem á sér stoð í japönsku máli.
Toyoda er líkt og Honda og Mazda gamalt og gott bændaheiti á japönsku. Í raun eru þetta heiti á rísökrum og þýða „gjöfuli“, „sá í miðju“ og „sá ysti“.
Á japönsku er Toyoda skrifað með nokkrum japönskum myndleturstáknum en einungis eru notaðar átta „strokur“ þegar nafnið Toyota er ritað.
Átta er heilög tala í Japan, því átta er ritað með tákni sem er eins í laginu og hið heilaga 3.776 metra fjall Fujiyama, sem er á aðaleyjunni, Honshu. Því var valið að breyta nafninu í Toyota því það er af því góða, einkum í viðskiptum, að hafa þá heilögu og heppnu með sér.
Vefstóllinn sem lagði grunninn að stórveldi
Það hefur verið heppni en ekki síður dugnaður sem hefur skilað Toyota upp í það að verða meðal þeirra „stóru“ í bílaheiminum.
Þetta byrjaði allt með því að Sakichi Toyoda fann upp sjálfvirkan vefstól árið 1926 og seldi síðan einkaleyfið til breska fyrirtækisins Platt Brothers fyrir á þeim tíma háa fjárhæð eða 100.000 sterlingspund.
Sonurinn, Kiichiro Toyoda, sem var stjórnarformaður Toyota, notaði mest af þessum peningum til þess að setja á stofn sjálfvirka vefnaðarverksmiðju árið 1933 og árið eftir hóf hann þróun nýrrar 3,4 lítra bílvélar.
Þessi bílvél kom ári seinna í frumgerðinni af A1 og strax árið 1937 var hafist handa við raunverulega bílasmíði. í fyrstu var aðaláherslan lögð á smíði vörubíla sem fóru til hersins því á þessum tíma átti Japan í stríði við Kína og undirbúningurinn fyrir átökin, sem síðar urðu að heimsstyrjöldinni síðari, var kominn í gang.
Smíða bíla um allan heim
Það var fyrst eftir stríðið, og raunar ekki fyrr en 1953, sem bílaframleiðsla komst í fullan gang. Það var svo ekki fyrr en allra síðustu árin sem verulegur skriður komst á framleiðsluna. Síðustu tíu milljónirnar af þessum 60 milljónum voru smíðaðar á síðustu tveimur árunum, áður en sextíu milljóna markinu var náð í september 1988.
Af þessum sextíu milljónum bíla voru 69 af hundraði fólksbílar, vöru og sendibílar voru 31%. Meira en helmingur, alls 56 prósent, fór á heimamarkað í Japan, afgangurinn til útflutnings.
Toyota smíðar einnig mikið af bílum utan Japans. Þeir eiga verksmiðjur víða um lönd, svo sem á Indlandi, í Indónesíu, á Taiwan, í Thailandi, Ástralíu, Kanada, Bandaríkjunum, Perú, Brasilíu og Portúgal. í síðasttalda landinu eiga þeir verksmiðju rétt fyrir utan Lissabon og þar voru settir saman bílar eins og Corolla, Land Cruiser, Hiace, Dyna og Hilux og enn í dag er verið að smíða þar Land Cruiser að því að við best vitum.
Samvinna við aðra bílaframleiðendur
Toyota hefur átt í náinni samvinnu við aðra bílaframleiðendur í áranna rás. Í Bandaríkjunum hafa þeir átt í samvinnu við General Motors og í Þýskalandi við Volkswagen, en þar voru þeir í samstarfi með sameiginlega verksmiðju í Hanover þar sem smíðaðir voru Hilux pallbílar. Nánast allt til þeirrar smíði kom frá Japan.
Með þessu var í raun verið að leggja grunninn að nýrri línu af VW Transporter. Samstarfið milli VW og Toyota stóð frá 1987 til 1997 í Hanover.
Það var á svipaðan hátt sem Toyota hefur átt í samvinnu í löndum eins og Bangladesh, Kenýa, Zambíu, Suður-Afríku, Zimbabwe, Malaysiu, Trinidad, Venesúela, Equador, Uruguay og Nýja-Sjálandi.
Frumgerðin fannst hvergi
Á árinu 1987 héldu þeir hjá Toyota upp á fimmtíu ára afmæli fyrsta bílsins, A1, sem raunar var tilbúinn tveimur árum fyrr. Það kom bara upp eitt vandamál; það fannst hvergi nokkurs staðar eintak af þessum fyrsta bíl sem frá verksmiðjunni kom.
Leitað var logandi ljósi um allan heim að slíkum bíl en allt kom fyrir ekki. Hvergi virtist vera til eitt einasta eintak.
Það næsta sem menn komust þessum bíl var teikning sem notuð var sem veggfóður einhvers staðar í Kína.
Það var þessi eina teikning sem lagði grunninn að endurbyggingu A1. Sett var upp sérstök deild í verksmiðjunni til smíði þessa eina bíls og nam kostnaðurinn um 50 milljónum dollara eða sem svarar til meira en 5,6 milljarða króna á núvirði. Þetta er ótrúleg upphæð, sérstaklega ef haft er í huga að aðeins var smíðaður einn bíll sem í dag stendur á Toyotasafninu í Japan.
Við látum hér staðar numið í frásögninni af upphafsárum Toyota. Síðar komu fram gerðir eins og Toyota Corolla, sem kom fram á sjónarsviðið árið 1966 og átti eftir að leggja enn frekari grunn að því stórveldi sem Toyota er í dag, en Corolla hefur komið í tólf kynslóðum og alls mun framleiðslan nema meira en 50 milljónum bíla á liðlega 55 árum. Við höldum áfram síðar með sögu Toyota á okkar dögum.
Viltu lesa fleiri greinar í svipuðum dúr? Þá eru þessar prýðilegar:
Upphaf Dodge bílanna
Maðurinn á bakvið Chevrolet kom frá Sviss
Bílakóngurinn Steindór átti flesta bíla í einkaeigu á Íslandi
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein