Annan desember árið 1977 var flutningaskipið Blue Belt á leiðinni frá Jeddah í Sádi-Arabíu til hafnarborgarinnar frægu Port Sudan, þegar það sigldi á sker í Rauðahafi, um 45 sjómílur norðan við áfangastaðinn. Farmurinn hvílir enn á hafsbotni: 181 Toyota, varahlutir, traktorar og vörubílar.
Sögusagnir voru einhverjar þess efnis að áhöfnin hafi verið að flytja eitthvað annað í leiðinni; eitthvað ólöglegt frá Sádi-Arabíu, og því hafi verið brugðið á það ráð (óráð) að fara aðra leið en þá sem almennt var farin. Hvað svo sem bjó að baki, vék skipið af leið og enginn virðist vita hvað vakti fyrir stjórnendum skipsins.
Skipið fór af stað
Á umræddu rifi eða skeri, hvíldi 103 metra langt skipsflakið, á um 40 til 90 metra dýpi allt til ársins 2013 þegar það sullaðist fram af rifinu sumardag nokkurn. Sökk það 60 metra til viðbótar. Síðan hefur ekki verið hægt að skoða það, alla vega fæst ekki leyfi til að kafa niður að skipsflakinu en bílakirkjugarðurinn er enn á sama stað, 60 metrum fyrir ofan, en hann er víst mikið breyttur og kraminn eftir að skipið fór „af stað“.
Ástæður þess að flakið sökk enn dýpra, eftir rúm 35 ár á sama stað, má að mati sumra rekja til breytinga á hafstraumum.
Það er kannski ekki alveg rétt að segja að bílarnir séu á hafsbotni, því þeir eru jú á þessu blessaða skeri. En hvenær er botninum náð? Ekki er einu sinni víst að skipsflakið sjálft hafi endanlega náð botninum svo við skulum ekki láta orðalagið trufla okkur. En óbreytt fengist greinin ekki birt í ritrýndu tímariti á borð við Science eða Nature. Svo mikið er víst!
Hvernig sem á það er litið eru bílarnir og magnað lífríkið á rifinu (sem er um tíu kílómetra langt) það sem hefur heillað margan kafarann síðustu áratugina. Þessar furðulegu andstæður: Kóralmyndanir og litskrúðugir fiskar og þörungaþakin fyrrum ökutæki. Sannarlega áhugavert að sjá, getur maður ímyndað sér!
Kóralskreytt Corona-mælaborð
Það tekur hafið ekki sérlega langan tíma að kjamsa á járninu og er það allt löngu horfið. Plast, hins vegar, eins og allir ættu að vita, fer hvergi. Það sem eftir er af Toyota Corona og Hilux þarna á rifinu eru mælaborð, kóralskreytt að sjálfsögðu, grill, stýrishlutar, dekk og sæti.
Hér má sjá þetta í prýðilegu myndbandi sem tekið var áður en skipsflakið pompaði enn neðar:
Annað álíka „óhugnanlegt“:
Bíllinn sem sökk með Titanic
Gleymdu Toyoturnar: Óhreyfðar síðan 1974
Skipið sokkið með hátt í 4000 bíla um borð
Afleit hugmynd að grafa bílinn og geyma í hálfa öld
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein