Þriðja bremsuljósið: Af hverju og hvenær?
Man maður vel hversu fúlt það þótti á sínum tíma að eiga bíl sem á „vantaði“ þriðja bremsuljósið. Sem barni fannst mér þetta svo falleg viðbót og eitthvað svo hrikalega töff. Í dag hugsa ég sjaldnar um þriðja bremsuljósið sem sjálfsagt þykir að hafa á bílum. En hvenær og hvers vegna kom það þriðja?
Ekki skraut heldur viðvörunarþríhyrningur
Þetta þriðja ljós er í raun og veru til komið vegna sálfræðitilrauna. Nú, það hljómar ekki svo vel. Ekki nema því fylgi saga. Sagan er sú að John nokkur Voevodsky vildi kanna hvort mögulega mætti lækka slysatíðni í umferðinni með litlum aukahlut.
Þetta var árið 1974 og aukahluturinn var vissulega bremsuljós sem fest var á miðja afturrúðu bíls.
Þegar bílstjóri bremsaði blasti rauður „þríhyrningur“ við þeim sem fyrir aftan ók og sýndu þessar tilraunir sála að ökumenn hægðu frekar á sér þegar þriðja ljósið var komið.
Tilraunir í San Francisco
Þessu litla ljósi var komið fyrir á sínum stað í 343 leigubílum í San Francisco og svo voru hinir 160, sem eftir voru í flotanum bara eins og áður, með sín tvö bremsuljós.
Án þess að nánar sé farið út í framkvæmd tilraunarinnar þá kom í ljós eftir tíu mánaða athugun að þeir bílar sem höfðu þriðja ljósið voru með mun færri tjón á bílum sínum aftanverðum (klesst aftan á bíla þeirra) eða 60.6% færri „kless“ en þeir í viðmiðunarhópnum. Færri slösuðust og og viðgerðarkostnaður snarlækkaði líka.
Nokkru síðar endurtók umferðaröryggisapparatið í Vesturheimi tilraun Voevodskys, og þá með mun fleiri þátttakendum. Í framhaldinu varð þriðja bremsuljósið skylda (í Bandaríkjunum) í framleiðslu fólksbíla 1986 og á stærri bílum 1994.
Hér er áhugavert og frekar skemmtilegt myndband um bremsuljósin og þróunina:
Forsíðumynd/YouTube
Þessu tengt:
Sjálfvirku öryggisbeltin: Hvað klikkaði?
Þegar umferðarljósin komu til Íslands
„Samlokuljós“ – hvað var það?
„Pop-up“ framljósin: Það besta og það versta
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein