„Gamla greinin“ frá því fyrir 30 árum:
Þegar sá „þreytti” fékk upplyftingu
– útkoman var gerbreyttur bíll með betri aksturseiginleika
Við ætlum að birta öðru hvoru „gamlar greinar“ úr safni blaðamanna Bílbloggs, og í dag „hoppuðum við 30 ár aftur í tímann, eða til laugardagsins 5. desember 1992, en þá fjölluðum við um jeppabreytingar. Á þessum tíma var töluvert til á landinu af Cherokee-jeppum frá Jeep, en þessi gerð var framleidd lítið breytt á árunum 1984 til 1996, og ein meginbreytingin var í vélarhúsinu, í upphafi var um að ræða 4 strokka 2,5 lítra vél, vo kom 2,8 lítra V6 og loks kom enn aflmeiri 4,0 lítra 6 strokka vél.
En til að setja okkur inn í þennan heim fyrir þremur áratugum skulum við kíkja betur á greinina sem var skrifuð þá:
Margir jeppaeigendur hafa án efa óskað þess að bíllinn þeirra hefði verið hærri þegar ekinn hefur verið ógreiðfær vegarslóði eða ekið í snjó að vetri til. Mörgum hefur vaxið í augum að láta hækka jeppann sinn og talið slíkt vera fyrir þá sem storma til fjalla jafnt að vetri sem sumri.
Það er hins vegar mun minna mál en margir halda að „lyfta” jeppa þannig að hann breytist úr dæmigerðum „slyddujeppa” í alvörujeppa. Við fylgdum einum slíkum eftir í breytingu hjá Bílabúð Benna á dögunum og árangurinn var sá að aksturseiginleikar urðu betri en fyrir breytinguna.
Margir jeppaeigendur þekkja vel þá staðreynd að veghæð skiptir miklu máli í akstri við erfiðar aðstæður, hvort sem er í snjó eða á grófum og ógreiðfærum vegarslóðum.
Mikill fjöldi þeirra jeppa, sem eru í umferð hér á landi, er ekki með það mikla veghæð að þeir séu í raun „torfærutæki” heldur miklu frekar bílar sem bjóða upp á aukið öryggi í snjó og á ógreiðfærum vegum og eru í raun aðeins stórir fólksbílar.
Sumir hafa gefið þessum jeppum viðurnefni eins og „slyddujeppar” eða „malbiksjeppar”.
Þeir sem stunda fjallaferðir, einkum að vetrarlagi, hafa gripið til ýmissa ráða til að gera bíla sína betur búna til að takast á við slíkar aðstæður, hækkað þá upp og sett undir þá miklu stærri dekk, auk þess sem drifhæð er breytt og jafnvel bætt við millikassa til að nýta aflið enn betur.
Það er aðeins lítill hluti jeppaeigenda sem stundar slíkar óbyggðaferðir en hinir gætu samt hugsað sér að fá aðeins meiri veghæð svo að bílinn sé betur búinn til að takast á við snjóskafla og aðrar hindranir.
Meðal þeirra jeppa, sem sameina vel kosti fólksbíls og jeppa, er Jeep Cherokee.
Eins og þeir bílar koma frá verksmiðju falla þeir vel undir hugtakið „slyddujeppi” því veghæð þeirra er ekki meiri en svo að auðvelt er að setja þá fasta í snjóskafli eða reka sig í stein á fjallaslóða.
Upphækkun er lítið mál
En það er auðvelt mál að endurbæta Cherokee-jeppa þannig að hann geti tekist á við ófærð og vonda vegi án þess að þurfa að setjast á kviðinn.
Til þess að skoða þetta betur fengum við Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna í lið með okkur og var ákveðið að fylgja eftir einum bíl í slíkri breytingu til að geta gefið betri mynd af því sem þarf að gera til að breyta honum í „raunverulegan jeppa“.
„Í raun er um að ræða þrjá kosti þegar á að hækka upp Cherokee-jeppa,“ segir Benni. „Minnsta hækkunin lyftir bílnum um eina tommu, eða tvo og hálfan sentímetra. Þá eru settir upphækkunarklossar bæði að framan og aftan, nýir samsláttarpúðar að aftan og nýir demparar.
Næsti valkostur lyftir bílnum um tvær og hálfa tommu, eða sem svarar rúmlega sex sentímetrum. Þá eru settir nýir og lengri fjaðragormar að framan og bætt við einu fjaðrablaði að aftan, auk upphækkunarklossa og samsláttarpúða og nýrra dempara á öll hjól.
Þriðji kosturinn er að hækka bílinn um fjórar tommur en slík hækkun kallar á sérskoðun hjá Bifreiðaskoðun. Fyrri tveir valkostirnir bæta í raun aksturseiginleika bílsins eins og raunin varð á í bílnum sem við fylgdum eftir í breytingu hjá Bílabúð Benna. Minni hækkanirnar á bílnum kallar aðeins á breytingarskoðun í fyrsta sinn eftir breytinguna.
Fyrsti kosturinn leyfir 30-31 tommu dekk og er frekar ætlaður bílum af árgöngunum 1984 til 1987 en þessir bílar eru með minni vél.
Annar valkosturinn leyfir 30-32 tommu dekk en 4,0 lítra vélin í nýrri Cherokee-jeppunum er það aflmikil að bíllinn þolir vel svo stór dekk.
Bil beggja
Bíllinn, sem við fylgdum eftir í breytingu hjá Bílabúð Benna, er sjálfskiptur Cherokee, árgerð 1986, með 2,8 lítra V6-vél. Þessi vél er ekki svo aflmikil að hún þoli stærri dekk en 31 tommu en nokkrir þessara bíla komu hingað til lands á sínum tíma á 30 tommu dekkjum. Flestir eru þó á mun minni dekkjum eða 215/75R15.
Ákveðið var að hækka bílinn um tvær og hálfa tommu þótt ekki væri ætlunin að setja meira en 31 tommu dekk undir hann. Með því yrði hann hærri á velli og veghæðin mjög góð.
Í stað þess að setja nýja og lengri Rancho-fjaðragorma að framan var ákveðið að nota gömlu gormana áfram en setja þess í stað tvo upphækkunarklossa ofan við gorminn vegna þess að V6-vélin er svo miklu léttari að gormarnir hefðu orðið of stífir vegna þess að þeir eru miðaðir við 4,0 lítra vélina í nýrri bílunum.
Þetta gaf sömu hækkun og nýir gormar hefðu gefið en í staðinn hélst sama mýkt í fjöðrun.
Að aftan var bætt við einu fjaðrablaði frá Rancho til að „hressa hana við“. Hægt er að velja um þrjá styrkleika af þessum viðbótarblöðum og var það mýksta valið til að gera bílinn ekki of stífan.
Þá var settur upphækkunarklossi, nýir samsláttarpúðar og að sjálfsögðu nýjar fjaðraklemmur.
Í raun er um að ræða fjóra kosti í upphækkun á bílnum að aftan. Í fyrsta lagi koma nýjar fjaðrir sem hækka bílinn um tvær og hálfa tommu og þá er ekki þörf á upphækkunarklossa. Í öðru lagi má bæta við blaði í fjaðrirnar sem fyrir eru í bílnum sem þýðir minni hækkun.
Í þriðja lagi er hægt að setja klossa undir fjaðrirnar og loks er það fjórði kosturinn sem er að setja bæði blað og klossa ef fjaðrirnar eru „slappar“.
Nýir höggdeyfar gera gæfumuninn
Það sem gerði hins vegar gæfumuninn í þessari „læknisaðgerð” á bílnum var tilkoma þrýstikældra Rancho RS5000 dempara á öll fjögur hjól.
Það var ótrúlegt hve miklu þeir breyttu um aksturseiginleika bílsins sem urðu miklu betri eftir breytinguna en fyrir.
Ný dekk og felgur
Þegar búið var að hækka bílinn var ekki lengur við hæfi að hafa hann á „gömlu 30 tommu túttunum”. Því var ákveðið að setja undir hann amerísk 31 tommu Ah-Terrain T/A dekk frá BFGoodrich, sem eru sérlega mjúk og hljóðlát alhliða jeppadekk, og til að gefa bílnum enn glæstara yfirbragð voru dekkin sett á American Racing álfelgur sem eru plasthúðaðar þannig að mjög auðvelt er að halda þeim hreinum.
Með öllu þessu var bíllinn svo mikið breyttur að í raun var ekki að sjá að þetta væri sami „þreytti” bíllinn og fór inn á gólf um morguninn.
Einn viðstaddra sagði líka þegar bílnum var ekið út af verkstæðinu eftir breytinguna: „Það þarf greinilega ekki að fara á bílasölu til að eignast nýjan bíl.“
Aksturseiginieikarnir eru líka miklu betri, bæði vegna stífari fjöðrunar að aftan og líka nýju demparanna sem greinilega gera gæfumuninn í breytingu sem þessari.
Eftir að hafa fylgt þessum bíl eftir í breytingu hjá Bílabúð Benna er greinilegt að það er mun minna mál en margir halda að hækka jeppa á borð við Cherokee þannig að hann breytist úr „slyddujeppa” í reistan og glæsilegan alvörujeppa.
Með því að hækka bílinn eins og lýst var hér að framan sleppa menn við sérskoðun hjá Bifreiðaskoðun en jeppar, sem búið er að hækka meira, verða að fara í gegnum slíka skoðun þar eð aksturseiginleikar þeirra breytast frá því sem framleiðandinn gerði ráð fyrir við hönnun bílsins.
Átti mörg góð ár
Bíllinn sem fjallað var um í greininni hér að ofan fyrir 30 árum átti mörg góð ár eftir sem heimilisbíll hjá blaðamanni Bílabloggs.
Fór í allmargar góðar fjallaferðir og marga ógreiðfæra slóða.
Hugsanlega hefur þetta kallað fram minningar hjá sumum sem áttu „breytta“ jeppa á þessum árum, en breyttur tíðarandi hefur orðið til þess að svona breytingar eru ekki eins algengar í dag, sem er miður að mati margra aðdáenda jeppa og fjallaferð.
Umræður um þessa grein