Í dag er mikill meirihluti bíla kominn á álfelgur, og þær eru með margvíslegu útliti, með mismörgum pílárum og útflúri. En það eru bara til þess að gera fáir áratugir frá því að þessi breyting varð á. Áður voru flestir bílar bara með stálfelgur, misjafnlega fallegar, og til að gera yfirbragð bílsins fallegra skelltu menn hjólkoppum á felgurnar, ýmist í miðjuna eða yfir alla felguna.
En það var ekki vandalaust að vera með flotta hjólkoppa á bílum á Íslandi hér áður fyrr, því vondir vegir með holum og skorningum urðu til þess að kopparnir vildu fljúga af, og oft mátti sjá glampa á gljáfægða hjólkoppa í vegaköntum þegar farið var í sunnudagsbíltúrinn.
En bíleigendur áttu bjargvætt á þessum árum, en það var Þorvaldur Norðdahl. Eða Valdi Koppasali eins og hann var jafnan nefndur, sem safnaði og seldi hjólkoppa í fjöldamörg ár í litlum skúr við Hólmsá, rétt hjá Geithálsi.
Í viðtali við Vísi árið 2016 segir frá heimsókn til Valda: „Ég byrjaði í hjólkoppunum árið 1962,“ segir Valdi sem gegnum árin hefur bjargað mörgum um ódýra hjólkoppa þegar þeir hafa hrokkið af bílum þeirra. Þar kom fram að hann hafi verið strákur þegar hann byrjaði á þessu, en hann hafði selt koppa í um hálfa öld þegar hann hélt sýningu á nokkrum af helstu djásnunum úr safninu í samvinnu við Krúserklúbbinn í apríl 2016.
Mjög mikið dró úr eftirspurn eftir hjólkoppum þegar framleiðendur byrjuðu að útbúa bíla sína með álfelgum sem enga koppa þarf að setja yfir. Það er því ekki mikið um að vera í viðskiptunum hjá Valda. Hann segist þó enn stússa í koppunum sem skipta mörgum þúsundum í skúrnum hans við Hólmsá.
En hvenær byrjuðu menn að nota hjólkoppa?
Það er hægt að finna fullt af efni um hjólkoppa á vefnum, og hér á eftir fer brot af því efni.
„Fyrir hve löngu síðana myndirðu giska á að hjólkoppurinn hafi verið fundin upp? Fimmtíu árum? Hundrað?“ Þú gætir orðið mjög hissa á því að heyra að fyrstu hjólkopparnir voru notaðir seint á 17. öld. Fyrstu hjólkopparnir eða „hjólhettur“ voru oftast fitu- eða óhreinindatappar, þar sem aðalhlutverk þeirra var að koma í veg fyrir að óhreinindi og fita hefðu áhrif á hjólabúnað, eða að feitin myndi leka út og óhreinka götur, nú eða fatnað þeirra sem gengu hjá. Fyrstu hetturnar eða lokin voru sett beint á miðjuna á hjólinu, sem þá voru úr tré, stáli eða með vírateinum. Bílaframleiðendur byrjuðu ekki með raunverulega hjólkoppa í miklum mæli fyrr en eftir 1920.
Miðjuhettan er upprunnin frá söluaðilum á felgum sem bættu við vörumerkjastimpli tegundar ökutækisins í miðju felgunnar. Snemma á þriðja áratugnum voru nánast allir bílar með smellu á miðhettu á miðju hjólsins. Smellufestingar á slíkum miðjukoppum sem fundin voru upp þá hafa verið að mestu óbreytt allt til dagsins í dag.
Miðjulokin þjónuðu ýmsum tilgangi, einn þeirra var að koma í veg fyrir að rusl kæmist inn og myndi skemma hjólabúnaðinn. Síðan fóru bílaframleiðendur að velta því fyrir sér hvort það gæti verið kostur við að stækka miðjuhettuna til að hylja meira af hjólinu. Bílafyrirtækin Cord Automobile og Hudson Motor Car Company voru með þeim fyrstu að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Cord hannaði sléttan hjólkopp með göt boruð í hliðarnar. Hjólkoppur Hudson var flatur og með brún hálfa leið á milli miðju hjólsins og ytri brúnarinnar.
Þegar stálfelgurnar eins og við þekkjum þær í dag urðu algengar voru þær venjulega málaðar í sama lit og yfirbygging bílsins. Þar af leiðandi voru hjólkopparnir stækkaðir til að fela felgurærnar sem festu felgurnar á bílinn. Sumir bílaframleiðendur buðu upp á krómhring, sem var aukabúnaður, sem festist við ytri brún hjólsins. Þessi valkostur var gríðarlega vinsæll og þróaðist síðar yfir í hjólkoppa nútímans sem hylja alla felguna. Þegar þeir þróuðust, vildi almenningur líka fá skrautlegri hjólkoppa sem ekki aðeins vernduðu felguna, heldur litu flott út.
Grunngerðir bílar voru gjarnan með staðlaðan og sjónrænt leiðinlegan hjólkopp sem oft voru kallaðir „hundadiskar“ vegna þess að þeir líkjast matardiski hunda. Þeir voru einnig nefndir „fátæktarkoppar“, þar sem hæðst var að lágu verði þeirra. Á sama tíma voru bílaframleiðendur að búa bíla sína með „heilum“ koppum með sjónrænt aðlaðandi hönnun sem staðalbúnað á betur búnum gerðum. Frá og með 1960 og áfram þar til fram yfir 1980, fóru framleiðendur að bjóða upp á hjólhlífar úr ryðfríu stáli sem gerðar voru til að líkjast gömlu og dýrari „teinafelgunum“ í gamla daga.
Þessa dagana hefur verið skipt um málm í hjólkoppaiðnaðinum. Nútímabílar nota hjólkoppa úr plasti sem þekja allt hjólið, á meðan betur búnu bílarnir og sportbílarnir bjóða upp á álfelgur með flottum miðjulokum.
(efni frá ýmsum vefsíðum)
[Birtist fyrst í desember 2021]
Fleiri greinar eftir sama höfund þar sem litið er í söguspegilinn:
Gömul og úrelt bílorð
Þegar nælondekkin voru málið
Þá ók blaðamaður inni í húsi og uppi á þaki
Þegar ég átti „blöðruskóda“!
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein