Í fyrstu greininni um starf leigubílstjórans var m.a. fjallað um trúnaðinn; hina heilögu skyldu leigubílstjórans gagnvart farþegum og það hvað bílstjórar sjá og heyra í starfi sínu.
„Bílarnir hafa breyst og umferðin líka en farþegarnir og bílstjórarnir hafa ekki tekið ævintýralegum breytingum,“ segir í greininni. Stöldrum aðeins við þetta áður en vikið verður að grátbroslegum uppákomum í daglegum störfum leigubílstjóra landsins.
Með kaskeiti og fluttu tíðindi
Sveinbjörn hét maður og var Tímóteusson. Árið 1927 gerðist hann bílstjóri, leigubílstjóri sjö árum síðar og árið 1982 birtist viðtal við hann í Morgunblaðinu. Hann hafði frá ýmsu að segja enda mundi hann tímana tvenna! Til dæmis þegar þriggja daga ferð var á milli Akureyrar og Borgarness sem og þegar leigubílstjórar þurftu á lengri ferðum að aka yfir óbrúaðar ár á drossíunum sínum!
Þá voru „ökumennirnir það fáir, að við þekktumst innbyrðis, og hraðinn var ekki eins mikill og nú er, og fleiri tækifæri til að spjalla saman,“ sagði Sveinbjörn í viðtalinu en vildi ekki gera mikið úr því hversu mjög var í upphafi litið upp til þeirra sem kunnu að aka bíl. Þó hafi svo verið fyrst í stað; þeir voru frumherjar á sínu sviði, „líkt og flugmenn urðu síðar“, skrifaði blaðamaður.
„Bílstjórar voru fáir og langt í land með að bíllinn yrði almenningseign. Við vorum því meira á ferðinni en aðrir og gátum flutt tíðindi úr fjarlægum sveitum oftar og fljótar en áður hafði verið,“ sagði Sveinbjörn.
Mikið var lagt upp úr að leigubílstjórar væru stéttinni til sóma og óku bílstjórar BSR með kaskeiti á höfði á fyrstu árunum en það lagðist svo af. Hins vegar hefur almenna kurteisin ekki lagst af og gerir vonandi aldrei!
Manni og bíl stolið
Fyrir tæpum sextíu árum brá leigubílstjóra nokkrum verulega þegar hann horfði á eftir bílnum sínum hverfa út í myrkrið. Þetta var í septembermánuði árið 1962. Leigubílstjóri úr Reykjavík hafði ekið fólki á dansleik sem haldinn var í Selfossbíói. Einn farþeginn var verulega slompaður og var bílstjórinn svo vænn að leyfa honum að sofa úr sér vímuna í aftursæti leigubílsins.
Sjálfur sat bílstjórinn inni í bíl hjá félaga sínum og spjölluðu þeir saman í rólegheitum. Segir svo frá í dagblaðinu Mynd: „Sjá þeir allt í einu, að leigubíllinn sprettir úr spori út af bílastæðinu og stefnir í austurátt. Brugðu þeir skjótlega við og hófu eftirför. Á móts við Mjólkurbú Flóamanna komust þeir upp að hlið stolna bílsins, en þá var hraði bílanna 100 km á klst. Ekki þorðu þeir að aka fram fyrir að svo komnu, enda var akstur þjófsins allskrykkjóttur. Skömmu síðar lauk ökuferðinni með því að [stolni] leigubíllinn stefndi út af veginum, og hafnaði úti í mýri, eftir að hafa farið í gegnum girðingu. Staðnæmdist hann 12 m fyrir utan veginn,“ segir þar, en þetta er ekki alveg búið!
„Bílstjórarnir handsömuðu ökuþórinn, sem reyndist vera 16 ára piltur úr Reykjavík. Var hann afhentur lögreglunni hér [á Selfossi] til fyrirgreiðslu. Hafði hann verið á dansleiknum í Selfossbíói.
Farþeginn vaknaði úti í mýri og hafði ekki hugmynd um hina óvæntu bílferð.
Bifreiðin skemmdist furðu lítið, enda er þarna lágt út af veginum.“
Farþegi sem varð stöðugt undarlegri
Því fer fjarri að hægt sé að ráða allt af útliti manna. Geta hinir mestu mannþekkjarar jafnvel staðfest það. Leigubílstjóri hjá Hreyfli sagði árið 1977 blaðamanni Vísis sögu af óútreiknanlegum farþega. Þetta mun hafa verið einhvern tíma upp úr 1950 og hófst sagan þar sem bílstjórinn ók eftir Lækjargötunni:
„Þá veifaði mér mjög vel búinn maður og ég stöðvaði auðvitað bílinn og tók hann uppí. Maðurinn bað mig að keyra sig austur á Selfoss þar sem hann ætlaði sér að hitta eitthvert skyldfólk. Mér leist ekkert ógæfulega á hann, svo ég ók bara beint af stað.
Hann var í þykkum frakka og ég tók eftir því að hann var alltaf að laumast til að súpa á flösku sem hann hafði innan á brjóstinu. Ég fór því að gefa honum nánari gætur og satt best að segja leist mér ekki á blikuna þegar ég varð þess áskynja að hann var alltaf að súpa á tómri flösku.
Ég lét þetta þó afskiptalaust og það var ekki fyrr en upp á Hellisheiði sem mér virkilega brá. Þá bað hann mig um að stöðva bílinn sem ég og gerði. Jafnskjótt og bíllinn stöðvaðist hljóp hann út og fleygði sér niður á fjóra fætur.
Ég sá á eftir honum þar sem hann hringsólaði og borðaði gras og mosa af miklum móð.
Vitaskuld sá ég að ekki var allt með felldu svo ég bað hann um að koma og setjast inn. Hann hegðaði sér ósköp skikkanlega í bílnum, brosti furðulega og ég hélt að hann væri bara að gera grín að mér.
Austur á Selfossi stoppuðum við fyrir framan hús nokkurt og maðurinn fór út. Hann byrjaði á því að henda litlum steinum í glugga á annarri hæð og mannsandlit birtist í glugganum, sem hann virtist þekkja. Andlitið hvarf strax aftur.
Þá brá svo við að maðurinn tók upp stóreflis stein og lét hann vaða í gegnum gluggann.
Ekki leið á löngu þar til lögreglan birtist. Þeir þekktu kappann og komu með mér með hann í bæinn aftur. Þetta var þá maður sem sloppið hafði út af Kleppi og stundaði það að strjúka og taka leigubíla hingað og þangað um landið. Maður getur átt von á ýmsu í þessu starfi,“ sagði bílstjórinn um þessa eftirminnilegu ökuferð.
Kyndugir leigubílstjórar
Það eru þó ekki eingöngu farþegarnir sem geta verið sérstakir. Til eru allnokkrar sögur af kostulegum leigubílstjórum! Byrjum á „trúboðanum“ en fjallað var um hann í Helgarpóstinum sumarið 1983.
Á þeim tíma voru í Keflavík tvær leigubílastöðvar: Aðalstöðin og Ökuleiðir. „Mikill rígur og samkeppni er milli þessara tveggja stöðva en nú virðist önnur þeirra vera komin með fjölbreyttari þjónustu en hin. Á annarri þeirra vinnur nefnilega leigubílstjóri sem gengur undir nafninu „trúboðinn“. Hann tekur að sér að biðja fyrir syndugum sálum og þá ekki síst Ameríkönum á Vellinum en mikil samkeppni er milli stöðvanna um túra á Vellinum og hafa þær báðar stöðvar þar.
Sáluhjálparinn á hjólunum tekur 20 dollara aukalega fyrir bænina.
Þar að auki er hann með söfnunarbauka í bílnum til styrktar börnum í þróunarlöndunum en enginn veit þó með vissu hvert þeir peningar renna.“ Svo mörg voru þau orð í Helgarpóstinum um „trúboðann“. Rámar lesendur í eitthvað þessu líkt? Endilega sendið undirritaðri tölvupóst á malin@bilablogg.is.
Varasamt að vera í spreng
Stundum er það hjartað sem hvetur fólk til dáða og stundum rekur það menn til athafna verði þeim virkilega mál. Hvort tveggja kemur við sögu hér. Óþreyjufullt hjarta og knýjandi þörf mannslíkamans til að létta á sér.
Í marsmánuði árið 1961 ók reykvískur leigubílstjóri manni nokkrum til Selfoss. Það var í það minnsta ætlunin. Eins og fínn maður greiddi farþeginn gjaldið fyrirfram, enda langt ferðalag fyrir höndum, á mælikvarða þess tíma.
Vitna ég hér í frásögn Tímans:
„Var síðan haldið sem leið liggur rakleitt austur yfir fjall, og segir ekki af ferðum þeirra fyrr en á háheiðinni, að bílstjórinn stöðvar þar bílinn í því skyni að ganga erinda sinna þar í hrauninu.
Dvaldist honum mátulega stund, en hugðist þá snúa til bílsins. En þá brá honum í brún því að bíllinn var horfinn og farþeginn einnig.“
Bílstjórinn, sem eðli máls samkvæmt, var töluvert léttari á sér, beið þar til bíl bar að. Fékk hann far til Hveragerðis og því næst far með öðrum til Selfoss. „Þegar á Selfoss kom, sá bílstjórinn bifreið sína óskaddaða úti fyrir Tryggvaskála, en farþegann var hvergi að sjá.
Hann hætti þó ekki fyrr en hann hafði haft upp á farþeganum. Dvaldist hann í bezta yfirlæti hjá vinkonu sinni.
Var fátt um kveðjur hjá þeim, en sættir tókust þó, áður en málið gekk lengra. Gaf farþeginn þá skýringu að honum hefði leiðst biðin á heiðinni. Óþreyja hjartans knúið hann til að hraða svo ferðum sínum, að hann settist sjálfur undir stýri og ók á fund vinu sinnar.“
Hrákablautar hóstagusur og fleira vont
Auðvitað getur komið upp sú staða að menn fái alveg nóg. Líka þolinmóðustu leigubílstjórar. Þá er gott að skrifa bréf. Það gerði leigubílstjóri nokkur árið 1962. Hann skrifaði Velvakanda bréf í stað þess, vonandi, að láta köpuryrði og formælingar dynja á farþegum sínum. Eftirfarandi birtist í Morgunblaðinu vorið 1962:
„Íslendingar eru sagðir kurteisir menn, en ég, sem er leigubílstjóri að atvinnu og hef því tækifæri til að kynnast fleiri frændum mínum en flestar aðrar stéttir, leyfi mér að draga þá fullyrðingu sterklega í efa.
Farþegar mínir þúa mig að fyrra bragði, og haldi menn, að gagnkvæmar þúingar séu vottur um stéttlaust þjóðfélag, frændsemi og vináttu allra stétta, þá mótmæli ég því.
Að segja að „þú“ við ókunnugan mann þýðir ekki það, að farþeginn sé alþýðlegur, heldur einfaldlega að hann sé dóni.
Verra þykir mér þó, þegar fólk hóstar aftan á hálsinn á mér. Nei, lesandi góður þú skalt ekki hlæja, því að það er ekkert spaug að sitja undir stýri og fá hrákablauta hóstagusu í hnakkagrófina.
Ótrúlega margir Íslendingar kunna ekki þá list að setja lófann fyrir munninn eða hósta út um gluggann þegar þeir þurfa að láta loftstrauma leika um kok sér,“ skrifaði leigubílstjórinn. En hann skrifaði víst meira. Það fáum við aldrei að lesa.
Velvakandi skrifaði eftirfarandi undir yfirskriftinni „Illa prenthæft“:
„Bréf bílstjórans var miklu lengra, en með allri virðingu fyrir honum, þá þótti Velvakanda ekki óhætt að birta meira,
því að orðbragðið fór að verða illa prenthæft, svo vægt sé að orði komizt.
Rétt er þó, að sjónarmið hans séu birt, enda hefur Velvakandi svipaða reynslu úr kvikmyndahúsum, þar sem fólk hefur hóstað og ræskt sig og gusað fúlum anda aftan í hálsinn á honum,“ skrifaði Velvakandi til að rökstyðja þá ákvörðun að birta ekki bréf bílstjórans í heild.
Allt er þegar þrennt er
Það stefnir í að greinarnar um „starf leigubílstjórans“ verði þrjár talsins. Í þeirri þriðju og síðustu verður fjallað um ólíkan bakgrunn leigubílstjóra, sveitaböll og skoðanir bílstjóra á bíltegundum! Og ef til vill fleira.
[Fyrst birt veturinn 2021]
Þessu tengt:
Starf leigubílstjórans fyrr og nú: Fyrsti hluti
Starf leigubílstjórans: Þriðji og síðasti hluti
Stórkostleg saga Eddu Björgvins af leigubílstjóra
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein