Sigfús Bjarnason og upphaf Heklu
Hekla 90 ára á næsta ári og 70 ára afmæli umboðs Volkswagen á Íslandi eftir nokkra daga
Á dögunum birtust myndir af því þegar byrjað var að rífa elstu húsin á „Heklureitnum“ við Laugaveginn, og senn fer áratugasögu fyrirtækisins að ljúka á þessum stað og Hekla mun flytja á nýjan stað í Garðabænum.
Við höfum áður fjallað um nokkra af áhrifamönnum í bílgreininni í upphafi bílaldar, en núna er röðin komin að upphafi Heklu og eins að stofnandanum, Sigfúsi Bjarnasyni, og stiklað á stóru um upphafið.
Sigfús Bergmann Bjarnason kom úr fátæklegu umhverfi í Núpsdalstungu þar sem hann fæddist 4. maí 1913.
Sigfús kom ungur að árum, nýbúinn með lærdóm sinn við Reykjaskóla í Hrútafirði, fyrst suður til Reykjavíkur, ekki auðugur af veraldarfé en því meir af krafti og dugnaði. Þá var það margt sem hann vildi og ætlaði að gera.
Fljótlega hóf hann nám, bæði í bókhaldi og tungmálum, en jafnframt því byrjaði hann að vinna við fiskvinnslu hjá Kveldúlfi. Með honum var meðal annarra ungur maður utan af landi, sem átti eftir að stofna með honum heildverslunina Heklu h.f., en það var Magnús Víglundsson, síðar stórkaupmaður. Þessir tveir menn höfðu báðir óbilandi trú á framtíðinni og sínum dugnaði, þó skotsilfrið væri af skornum skammti.
Hekla stofnuð 1933
Þeir Sigfús og Magnús stofnuðu heildverslunina Heklu árið 1933 og fyrstu viðskiptin voru innflutningur á ávöxtum frá Spáni.
Þeir félagar slitu samvinnunni árið 1940 og upp frá því hófst frekari uppbygging Heklu undir stjórn Sigfúsar.
Næsta skref Sigfúsar var að stofna Raftækjaverslun Heklu, sem rekin var upp frá því í fjöldamörg ár og var umsvifamikil í innflutning og sölu raftækja og heimilistækja.
En í framhaldinu var stofnað til fjölda viðskiptasambanda á komandi árum, þar á meðal Kenwood og Caterpillar
P.Stefánsson kemur til sögunnar
Árið 1952 verður Sigfús framkvæmdastjóri og aðaleigandi P. Stefánsson h.f. og stefnir með því inn í verslun með bíla og tengd viðskipti.
Þetta fyrirtæki hafði verið áberandi í bílgreininni um árabil í Reykjavík, bæði í bílaviðgerðum og innflutningi bíla.
Land Rover kemur til Íslands
Strax árið 1951, þegar Land Rover-jeppinn sló í gegn í Evrópu hóf Heildverslunin Hekla innflutning á honum. Síðan þá hafa verið fluttir inn mörg þúsund Land Rover bílar og nokkrir þeirra eru enn í fullu fjöri.
Á þessum tíma þurfti leyfi til innflutnings og kaupa á bílum og í frétt í Morgunblaðinu laugardaginn 26. maí 1951 segir:
Þrjú þúsund. sóttu um 115 jeppa – þeir ensku voru eftirsóttastir
„Nefnd sú er hafði með höndum úthlutun þeirra jeppabíla, sem Fjárhagsráð gaf leyfi fyrir, hefur fyrir nokkru lokið störfum. — Ráðið gaf leyfi fyrir 115 bílum, en um þá bárust 3000 umsóknir.
Af þessum 115 jeppum verða rúmlega 90 Land-Rover, en þeir eru framleiddir í Bretlandi.
Umboðsmenn Land-Rover hér, Heildverslunin Hekla, skýrði blaðamönnum frá þessu i gær. Fyrsti bíllinn er nú kominn til landsins og var blaðamönnum sýndur bíllinn i gærdag.
Af þeim 115 jeppabílum sem Fjárhagsráð gaf leyfi til innflutnings á, fara alls um 60 til bænda, þar af 60 Land-Rover. Hinir fara til búnaðarsambanda, lækna, yfirsetukvenna og presta.
Heildverslunin Hekla gerir sér vonir um, að bílarnir verði allir konmir hingað til lands fyrir júlílok. Verksmiðjan telur sig geta afgreitt síðustu bílana til afskipunar um 15. júlí næstkomandi. Að sjálfsögðu er undir skipsferðum komið, hvort takast megi að hafa lokið innflutningi þeirra fyrir þann tíma, en að sjálfsögðu mun það verða kappkostað.
Land-Roverinn verður fluttur inn með blæjuhúsi og kostar þá um 27.500 kr., en auk þess er sérstakur krókur á bílnum fyrir ýmiskonar landbúnaðarvélar, svo og varahjól og með sætum fyrir tvo hjá bílstjóra. Verksmiðjan framleiðir sérstök hús úr aluminíumblöndu, en Fjárhagsráð sá sér ekki fært að veita leyfi fyrir þessum húsum. — Hins vegar mun verða hægt að flytja þau inn fyrir bátagjaldeyri og kosta þá um 3.700 krónur.
Frá því að fyrsti Land-Roverinn var fluttur hingað til lands, eru nú liðin hálft þriðja ár. — hafa umboðsmenn kappkostað að kynna bændum og búnaðarfélögum bílinn. Nokkrar breytingar hafa að vísu orðið á honum síðan, t. d. er framhjóladrifið ekki lengur í beinu sambandi við vélina, eins og það var í fyrstu bílunum, en í öllum aðalatriðum er hann þó eins. Reynslan hefur að sjálfsögðu gert ýmsar kröfur til batnaðar svo sem vænta mátti“.
Þetta er hluti fréttar í Morgunblaðinu þann 26. maí 1951
Sérstaklega átti Land Roverinn fylgi að fagna til sveita og þar notaður til margs konar flutninga. Sem dæmi um slíkt var að sumir bændur kölluðu bílana eftir því hve mörgum kindum var hægt að skjóta í geymslurýmið að aftan.
Hekla byrjar innflutning á Volkswagen
Í kjölfar loka heimstyrjaldarinnar komst mikið rót á bílainnflutning hér á landi, sumar tegundir hurfu og nýjar komu í staðinn.
Meðal þeirra tegunda sem komu nýjar inn var „bjallan“ frá Volkswagen.
Vegna annarra viðskiptasambanda við Þýskaland fylgdust þeir Sigfús Bjarnason forstjóri Heklu og Árni Gestsson aðstoðarframkvæmdastjóri vel með því sem Volkswagen var að gera, og í framhaldinu mun Árni hafa haft samband við VW og sóttist eftir því að fá umboðið fyrir Ísland.
Þetta bar árangur og í desember 1952 var undirritaður umboðssamningur milli Heklu og VW. Eftir nokkra daga er því 70 ára „afmæli“ umboðs VW á Íslandi, en kaupendur fengu fyrstu bílana afhenta árið eftir.
Það væri hægt að segja margar sögur frá þessum upphafsárum Volkswagen á Íslandi, því ég átti þess kost að vinna um tíma með Finnboga Eyjólfssyni, sem hóf ferilinn sinn sem bifvélavirki hjá Sigfúsi og var síðar verkstæðisformaður og síðar blaðafulltrúi Heklu, en hann sagði margar góðar sögur frá þessum árum.
Sigfús Bjarnason féll frá á besta aldri, aðeins 54 ára gamall, árið 1967, en synir hans, Ingimundur, Sverrir og Sigfús yngri tóku við keflinu og ráku fyrirtækið af miklum myndarskap í fjölda ára.
Ingimundur hvarf til annara verka, varð meðal annars sendiherra, en Sverrir og Sigfús héldu áfram uns þeir seldu fyrirtækið árið 2002.
Minnisstæður maður
Sigfús Bjarnason var maður sem allir tóku eftir hvar sem hann fór. Ég man vel eftir Sigfúsi Bjarnasyni, og hitti hann alloft þegar ég var strákur. Móðurafi minn, Árni G. Eylands var í góðu vinfengi við Sigfús og ekki síður Árna Getsson aðstoðarframkvæmdastjóra Heklu, vegna innflutnings á tækjum til landbúnaðar frá Noregi.
Ég man að mér brá þegar ég hitti Sigfús í fyrsta sinn, haustið 1955. Við afi vorum komnir á skrifstofuna hjá Sigfúsi, og vorum að bíða eftir honum, þega snögglega var sagt aftan við mig: Hvað heitir þú ungi maður? Og röddin var þannig að mér brá!
En það kom fljótt í ljós að þetta var vænsti kall og þeir afi og Sigfús voru fljótt komnir á fulla ferð í umræður um landbúnaðartæki, og Sigfús var að velta fyrir sér hvort hann ætti að fá sér nýjustu Bröyt-gröfuna, sem við afi höfðum skoðað í Noregi um sumarið, en hann hafði hug á að nota hana á jörð sinni norður á Þingeyrum. Og heimsóknirnar til Sigfúsar urðu nokkrar í viðbót, þar á meðal einu sinni að Þingeyrum á leiðinni til Hóla í Hjaltadal eitt árið.
En málin þróuðust þannig að Árni Getsson hætti í Heklu og stofnaði sitt eigið fyrirtæki Glóbus og þangað fluttust landbúnaðartækin með honum, svo ferðirnar til Sigfúsar urðu ekki fleiri.
„Þeir fiska sem róa“
Sigfús Bjarnason vissi alla tíð vel að það þurfti að vinna vel til að ná árangri, og var orðatiltækið „þeir fiska sem róa“ hugleikið, svo mjög að þegar ég starfaði hjá fyrirtækinu um síðustu aldamót mátti sjá útskornar fjalir með þessu orðatiltæki uppi á vegg.
(heimildir minningargreinar um Sigfús Bjarnason, fréttir í blöðum og fleira)
Umræður um þessa grein