Rosalie litla
Citroën bifreiðar hafa í gegnum tíðina skrifað sig á spjöld sögunnar. Ekki einatt er það sérstætt útlitið heldur hefur tækniþróun franska bílaframleiðandans verið í fararbroddi í gegnum árin.
Citroën Petite Rosalie (Rosalie litla) er bíll sem á sér sérstæða sögu og setti athyglisvert heimsmet árið 1933 sem enn er óslegið. Metið var sett á Montlhéry kappakstursbrautinni þann 15. mars 1933.
Markmiðið var að setja nýtt akstursmet í langkeyrslu þar sem tíminn var ekki aðalbreytan í dæminu.
Straumlínulagaður búkur Rosalie litlu var megingrundvöllur þess að hún náði ásættanlegum hraða fyrir slíka keppni. Eftir nokkra hnökra á brautinni vegna Grand Prix keppna sem haldnar voru á sömu akstursbraut á meðan heimsmets-aksturinn fór fram, veifaði André Citroën keppnisflagginu og stöðvaði þar með akstur Rosalie þann 27. júlí 1933.
Rosalie litla hafði ekið 300 þúsund kílómetra (186.411,36 mílur) á 134 dögum á meðalhraða um 93 kílómetra á klukkustund. Hún hafði slegið 106 heimsmet og 191 önnur alþjóðleg met.
Þar með hafði franski bílaframleiðandinn Citroën náð þeim merka árangri með Rosalie litlu að stíga fyrstu skrefin í kappaksturskeppnum. Áður hafði André Citroën reyndar komið að uppákomum eins og akstri yfir Sahara árið 1922 og hinu fræga Croisiére Noire árið 1924 og Croisiére Jaune árið 1931.
Þó þetta hafi ekki beinlínis verið keppnir urðu þær til að gefa tóninn fyrir Paris-Dakar rallið, sem bæði Peugeot og Citroën hafa unnið nokkrum sinnum.
Citroën Petite Rosalie varð til vegna samstarfs Citroën við fyrirtækið Yacco oils sem þeir skiptu við með olíur á bíla sína. Olíufyrirtækið Yacco hafði ávallt verið í fremstu röð í tækniþróun og hafði verið viðloðandi margar aksturskeppnir þegar það gekk til samstarfs við Citroën og takast á við þá áskorun að setja ný akstursmet.
Rosalie litla var í grunninn af gerðinni Citroën 8CV.
Við undirbúning keppninnar var eitt slíkt boddý tekið af handahófi úr framleiðslulínu Citroën og sent til César Marchand sem var aðalökuþór Citroën á þessum árum. Þar var boddíið sérstaklega undirbúið fyrir aksturskeppnina. Í byrjun mars 1933 var Rosalie litla tilbúin í slaginn.
Þann 15. mars kl. nákvæmlega 15.29, ók Rosalie litla af stað á brautinni í Montlhéry. Númerið 8 varð fljótlega gælunafn Rosalie litlu. Fimm tímatökumenn fylgdust vel með öllum undirbúningi.
Eftir met Rosalie litlu og Rosalie II bauð André Citroën hverjum þeim framleiðanda, sem gæti slegið met bílsins, eina milljón franka sem var mikið fé á þeim tíma. Eftir árangur fimmtu kynslóðar Rosalie litlu bauð André hvorki meira né minna en 3 milljónir franka hverjum þeim sem slegið gæti met þessa litlu snöggu bíla. Enginn reyndi einu sinni að slá þessi met.
Umræður um þessa grein