Fyrir tæpum 93 árum, eða þann 3. júlí árið 1928, gerðist nokkuð ótrúlegt. Þ.e. á þess tíma mælikvarða: Maður nokkur ók bifreið frá Borgarnesi til Akureyrar. Þessi maður var sjálfur símstöðvarstjórinn í Borgarnesi og hét Þorkell Teitsson. Bifreiðin sem hann ók var Ford T, árgerð 1926, og var hún í eigu Ólafs Sigurðssonar úr Reykholtsdal.
Með Þorkeli í för voru hjón úr Borgarnesi, þau Ragnheiður Ólafsdóttir og Jón Guðmundsson. Stórstúkuþing var haldið á Akureyri og því var förinni heitið þangað. Segir svo í Heimskringlu þann 8. ágúst 1928: „Valdi hann [Þorkell] þann kost, að reyna hvort eigi væri hægt að komast alla leið til Akureyrar í bifreið.“
Blönduós-Akureyri: 15 klukkustundir
Leiðin frá Borgarnesi til Blönduóss gekk vel og fátt sem kom ferðalöngunum á óvart á þeim sjö tímum sem tók að aka þann legg. Stöldruðu þau við á Blönduósi áður en haldið var út í „óvissuna“: „Voru nú aðal tofærurnar eftir, Vatnsskarð, Öxnadalsheiði. Ferðin til Akureyrar tók frá Blönduósi 15 klst.
Fékk Þorkell tvo menn sér til hjálpar, til þess að komast upp á stóra Vatnsskarð, og aftur aðra tvo menn í Norðurárdalnum, sér til hjálpar, til þess að komast upp á Öxnadalsheiði.
Eftir 12 tíma voru þeir komnir að Bakkaseli í Öxnadal og á þremur tímum var ekið þaðan til Akureyrar,“ segir í Heimskringlu.
Aukinn áhugi á vegabótum
Þannig var nú fyrsta ferðin á bifreið yfir Öxnadalsheiðina. Vakti hún að vonum athygli og augljóst að í Vesturheimi þótti þetta líka merkilegt. „Á Þorkell Teitsson þakkir skilið fyrir að hafa lagt í þessa ferð. Mun ferð hans auka mjög áhuga manna fyrir vegabótum á þessu svæði. Þegar þessi leið hefir eitt sinn verið farin í bifreið, kunna menn því illa að bíða eftir því, að almennar bílsamgöngur komist á á þessum kafla.
Vegalengdin frá Borgarnesi til Akureyrar er 327 kílómetrar,“ segir í Heimskringlu (og virðist textinn fenginn úr Morgunblaðinu, sem vitnað er í hér að neðan).
Vegamálastjóri varð hissa
Morgunblaðið greindi fyrst frá þessum stórmerka áfanga í íslenskri samgöngusögu stuttu eftir ferð Þorkels, Ragnheiðar og Jóns. Blaðamaður greindi vegamálastjóra frá: „Morgunblaðið átti í gærkvöld tal við Geir G. Zoëga vegamálastjóra og sagði honum frá ferð þessari. Þótti honum þetta góð tíðindi, en dálítið ótrúlegt að bíll kæmist leikandi yfir Öxnadalsheiði,“ segir í Morgunblaðinu.
Til þess eru nú blaðamennirnir, að flytja fréttir, en þó hefði mátt ætla að sjálfur vegamálastjóri hefði fengið veður af þessum merka áfanga fyrr og jafnvel eftir öðrum leiðum. En hvað um það! Til skila komst það!
Segir í sömu frétt að yfir Holtavörðuheiði „fara bílar svo til daglega. Og vegir hafa verið þar lagaðir alla leið frá Grænumýrartungu gegn um Húnavatnssýslu að Bólstaðarhlíð, að til þess er ætlast að bílfært sjé þá leið sumarlangt. Yfir Stóra-Vatnsskarð fór einn lítill Citroën-bíll fyrir nokkrum dögum.“
Brýr, vegleysur og hinn alræmdi Giljareitur
Árið 1928 höfðu allar ár í Skagafirði verið brúaðar. „En vegleysa er á spotta norðanvert við Norðurá, við sporð Öxnadalsheiðar. Og eins er vegurinn í hinum alræmda Giljareit á Öxnadalsheiði eigi gerður með bílferðir fyrir augum,“ segir í Morgunblaðinu í fyrrnefndri grein.
Þá var Grjótá á Öxnadalsheiði óbrúuð og sömu sögu var að segja af Öxnadalsá.
„Vegurinn um Öxnadalinn telur vegamálastjóri að vera muni að jafnaði bílfær. Vantar enn vandaða brú á Bægisá. En akbrautin inn Þelamörk frá Akureyri nær nú því sem næst að Bægisá, og verður bygð steinbrú á hana, er þar að kemur. Opnast þá bílfær vegur frá Akureyri inn Öxnadal.“
Fáeinum vikum eftir ferðir Þorkels (hann ók nefnilega til baka líka þrátt fyrir að hafa í upphafi gert ráð fyrir að fara sjóleiðina suður) var haft eftir honum í Morgunblaðinu að tiltölulega lítið þyrfti við vegina að gera til að mögulegt væri að halda stöðugum bílferðum milli Borgarness og Akureyrar:
„Verst var í Norðurárdalnum í Skagafirði, því ómögulegt var að komast á brúna, og vegurinn í Giljareitnum á Öxnadalsheiði þyrfti að vera ½ – 1 meter breiðari. En lagfæringar þær, sem hann áleit að nauðsynlega þyrfti að gera til þess að hægt væri að komast leiðar sinnar í bíl þessa leið að sumarlagi, sýndist honum ekki miklar.“
Vegamálastjóri ekki lengur hissa
Vegamálastjóri sinnti starfi sínu vel og tveimur árum síðar, sumarið 1930, höfðu vegirnir inn Norðurárdal í Skagafirði og á Öxnadalsheiði verið bættir til muna og þóttu vel færir bifreiðum.
Ekki nóg með það því í Giljareitnum og Klifinu á Öxnadalsheiði hafði vegurinn verið breikkaður til muna og því ekki nándar nærri eins vemmilegur og hann var tveimur árum fyrr.
Árið 1930 voru bílar á Íslandi rétt rúmlega 1.400 talsins. Þar af voru fólks- og hópbílar 584. Íbúar á Akureyri voru 4.350 í árslok 1930. Í Borgarnesi voru þeir 432 og á landinu öllu tæplega 109.000.
Það þarf ekki mikið hugarflug til að sjá hversu mögnuð þessi samgöngubót hefur verið.
Að lokum er rétt að nefna að símstöðvarstjórinn og ökumaðurinn þrautgóði, Þorkell Teitsson, fór víðsvegar um landið eftir þetta afrek og var brautryðjandi í orðsins fyllstu merkingu.
Hann var augljóslega málefnalegur því vegamálastjóri lét verkin tala í samræmi við álit og umsagnir Þorkels.
Þorkell lést árið 1949 en hver veit nema greint verði frá frekari afrekum hans í torfærum og samgöngumálum hér síðar ef áhugi er fyrir nánari umfjöllun. Hikið ekki við að láta álit ykkar í ljós á Facebook-síðu Bílabloggs eða með því að senda greinarhöfundi tölvupóst á netfangið malin@bilablogg.is.
Hafðir þú gaman af þessari grein? Þá gætir þú haft áhuga á:
Þegar Ölfusárbrúin brast
Ekið á gargönum eftir ropvatni – Laxness og bílar
1965: Svíinn, glymskrattinn og Landrover-inn
Sannleikurinn um Bjössa á mjólkurbílnum
„Gullfaxi með nýstárlegan farm“
[Greinin birtist fyrst 5. apríl 2021]
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein