Mick Jagger var að flýta sér
Á þessum degi árið 1964 var söngvari hljómsveitarinnar Rolling Stones, Mick Jagger, að flýta sér svo hrikalega að hann var tekinn fyrir of hraðan akstur. Þá kom í ljós að hann var á ótryggðum bíl og ekki með ökuskírteinið á sér. Skýring verjanda Jaggers fyrir rétti var áhugaverð.
Að kvöldi 10. ágúst ´64 hélt hljómsveitin rosalega tónleika í Liverpool þar sem sturlaðir unglingar öskruðu allan tímann og það leið yfir 200 stúlkur. Það var nokkur aukning í yfirliðstölfræðinni því á tónleikum kvöldið áður hafði „bara liðið yfir 100 stúlkur“ eins og greint var frá í pressunni ytra á sínum tíma.
Auðvitað brutust út slagsmál og svona, bara eins og gerðist þá og gerist enn þegar hormónavillt ungmenni höndla skemmtiatriðin misvel.
Hvað öskrin snertir þá er sá ósiður sennilega löngu dottinn uppfyrir en það að öskra þegar góð tónlist er leikin er afskaplega vond hugmynd.
Það er tilgáta mín að fólk hafi hætt þessu þegar farið var að spila tónleikaupptökur í útvarpi og sjónvarpi. Þá heyrði fólk enga tónlist og áttaði sig á hversu asnalegt væri að öskra svona mikið. Og svo er ekki fallegt að öskra á þá sem eru að syngja og spila fyrir mann.
Fyrir þá sem vilja rifja upp hvernig þetta var þá er hér myndskeið frá sama ári:
Núnú, þarna gleymdi ég mér alveg og biðst ég afsökunar. Eftir sem áður kann þessi útúrdúr að auðvelda lesendum að sjá Jaggerinn fyrir sér dauðþreyttan, með suð fyrir eyrum eftir öskurapana, setjast inn í bílinn og aka burtu af tónleikastaðnum með bensínið í botni.
Hvernig sem hann fór að þessu þá ók hann í það minnsta of hratt og þegar í ljós kom að bifreiðin var ótryggð og ekkert ökuskírteini var með í för, þurfti Jagger að mæta í réttarsalinn. Þegar þangað var komið daginn eftir þustu skrifstofustúlkur í dómshúsinu að Jagger til að fá eiginhandaráritun. Aldrei stundlegur friður.
„Ástæðurnar“
Verjandi Jaggers, Dale nokkur Parkinson, greindi frá því að popparinn hefði verið að flýta sér svona mikið því hann var þá nýbúinn að frétta að tvær stúlkur, miklir aðdáendur, hefðu lent í bílslysi eftir tónleikana og væru slasaðar. Hann ætlaði að heimsækja þær á sjúkrahúsið og „sýna samkennd“ eins og haft var eftir Parkinson.
Hvað tryggingar á bílnum snerti þá á verjandinn að hafa sagt: „Hann [Jagger] er frægur listamaður og bíllinn var ótryggður því hann hefur einfaldlega ekki tíma til að standa í slíku.“ Vonandi er þetta ekki rétt, en hvernig sem það nú var þá voru þetta tvær vondar skýringar sem birtust þann 11. ágúst í Daily Mirror.
Í sama blaði, Daily Mirror, kom fram að lögmaðurinn hefði talað við stúlkurnar sem lentu í bílslysinu. Þetta voru 17 ára stúlkur frá London sem höfðu ekið þessa tæplega 300 kílómetra leið til að sjá Rolling Stones á tónleikum. Þær vildu ekki að nöfn þeirra kæmu fram því „foreldrar beggja stúlknanna héldu að þær væru í London“.
Jagger var sektaður og var sektin heil 32 pund. Dómari mun hafa sýnt mikla mildi því „hægt hefði verið að svipta hann ökuréttindum fyrir að aka á ótryggðu ökutæki,“ sagði í Daily Mirror daginn eftir.
Svona í lokin verður að koma fram að ökuskírteinið var alls ekki heima hjá Jagger heldur höfðu trylltir aðdáendur gert sér lítið fyrir og dírkað upp lásinn á bíl söngvarans og haft ökuskírteinið með sér sem minjagrip.
Og auðvitað rataði þetta allt í blöðin.
Fleira um tíðarandann, poppara, rokkara og ólán í umferðinni:
John Lennon var afleitur bílstjóri
ZZ Top: Tónleikaferðalag og trylltur vísundur
Led Zeppelin og bílslysið 4. ágúst ´75
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein