„Ég ræð yfir framleiðslutæki sem er tólf tonn og átján hjól og slítur vegum ávið 35 þúsund bíla. Hvar er þinn bíll? Umbi: Ég hef aldrei eignast bíl. Og þetta er í fyrsta sinn að ég tala við mann sem ekur tólftonnabíl.“
Þarna svaraði umboðsmaður biskups Jódínusi Álfberg í bók Halldórs Laxness, Kristnihald undir Jökli, en síðar (1989) gerði Guðný Halldórsdóttir kvikmynd byggða á bókinni.
Sigurður Sigurjónsson lék þá umboðsmann biskups en Þórhallur Sigurðsson (Laddi) lék skáldið og verkamanninn Jódínus Álfberg. Tilvitnunin að ofan er úr 19. kafla bókarinnar Kristnihald undir Jökli en bókin kom fyrst út árið 1968.
„Verk meistara, en kannski ekki meistaraverk“
Hér má lesa fyrstu gagnrýnina um bókina en hana skrifaði Þráinn Bertelsson fyrir Vísi og birtist gagnrýnin þann 7. október 1968. „Kristnihald undir Jökli er verk meistara, en kannski ekki meistaraverk. En það er hverjum manni hollt að fara á smávegis kennderí í þessari nýju bók Halldórs,“ skrifaði Þráinn meðal annars í gagnrýni sinni.
Vörubíllinn sem Laddi ók í þessu skemmtilega atriði sem hér er til umfjöllunar er raunar ekki alveg „tólf tonn og átján hjól og slítur vegum ávið 35 þúsund bíla“ heldur rúm níu tonn og hjólin undir honum eitthvað færri en átján.
Trukkurinn sá var skráður árið 1966 og voru það snillingar í grúppunni Gamlir vörubílar á Íslandi sem hjálpuðu mér að finna út hvaða gerð af Volvo þetta er. Það kemur nefnilega ekki fram þegar honum er flett upp.
Niðurstaðan var sú að hér væri að öllum líkindum um að ræða Volvo N88 og þakka ég þeim fjölmörgu sem brugðust við fyrirspurn minni.
Hér er Laddi sem Jódínus Álfberg, á tali við umba í hinni óborganlegu mynd sem Kristnihald undir Jökli er:
Þessu tengt:
Ekið á gargönum eftir ropvatni – Laxness og bílar
Citroën DS sem var „skilinn eftir“ í sandinum á Snæfellsnesi
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein