Það var kannski algengara hér á árum áður að Íslendingar sem ferðuðust um Evrópu létu flytja bílana sína utan til að hafa farartæki á ferðalaginu. Man ég alla vega að afi minn og amma í föðurætt fóru víða og óku nú bara um álfuna á sinni Lödu Sport!
Listamaðurinn Gestur Þorgrímsson (f. 1920, d. 2003) og fjölskylda voru á meðal þeirra Íslendinga sem ferðuðust nokkuð, einkum um Norðurlöndin, og var þá bíllinn með í för. Gestur átti m.a. Trabant og Wartburg og voru bílarnir notaðir á ferðunum erlendis til að flytja fólk og listaverk. Já, jafnvel heilu sýningarnar!
Í fannfergi og hálku á sumardekkjum
Fyrsta Trabantinn eignaðist Gestur árið 1964, eins og fram kemur í þessari auglýsingu sem birtist í Tímanum árið 1976:
Í stuttu viðtali sem birtist einnig í Tímanum, nokkrum árum síðar eða 1982, sagði Gestur skemmtilega sögu af einni ferð þeirra hjóna, hans og Sigríðar Guðjónsdóttur myndlistarkonu, þegar þau óku með sýningu frá Kaupmannahöfn til Þrándheims í Noregi á Trabant.
Gefum Gesti nú „orðið“, og leyfum frásögn hans að birtast hér með sömu orðum og hún birtist lesendum Tímans þann 29. júlí 1982:
„Það var 5. Trabantinn okkar. Þetta var um páskaleytið. Við ókum frá Helsingborg í Svíþjóð í hálku og fannfergi en vorum samt á sumardekkjum. Í Skandinavíu skipta menn ekki yfir á vetrardekk,“ sagði Gestur, en staðreyndin var sú að þarna hafði snjóað mun meira en alla jafna á svæðinu og voru ökumenn því varaðir við að fara þessa leið sem þau hjónin voru á.
„30 slys urðu þarna á smákafla leiðarinnar samkvæmt útvarpsfréttunum en við fundum ekki fyrir neinu á Trabantinum. Ferðin tók 4 daga hvora leið,“ sagði listamaðurinn, sem ef til vill var lunkinn bílstjóri.
Trabant alveg óþekkt tegund í Noregi
Ekki var það nú svo að þau hjónin brunuðu um án þess að farkostur þeirra vekti athygli annarra vegfarenda.
Nei, eftir bílnum var tekið!
„Norðmenn þekktu Trabant ekki mikið og vakti bíllinn feikna athygli. Fannst þeim sérstaklega merkilegt hvað ég kom miklu í hann og var auk þess með stóra toppgrind. Einn spurði hvort plastið myndi bráðna í sólinni,“ greindi Gestur frá og af frásögninni má ráða að Gestur Þorgrímsson hafi verið skemmtilegur sögumaður.
Kraftaverk Trabantsins
Dag einn kom maður nokkur að máli við þau hjónin og var hann afar niðurlútur. „Sagðist hann hafa ekið á Trabantinn okkar í stæðinu.
Var bíllinn að hans sögn mjög dældaður og sýnilega óökufær.
Í Noregi eru engin verkstæði fyrir Trabant og málið því alvarlegt. Þegar ég og þessi maður fórum að athuga skemmdirnar bendir maðurinn á brettið og ætlaði að segja eitthvað en kom ekki upp orði af undrun.
Svo leit hann á mig og sagði „annaðhvort er þetta annar bíll eða þetta er kraftaverk. Bíllinn er ekki beyglaður lengur“.
Ég bara hló og útskýrði þetta fyrir honum því þetta var ekki í fyrsta skipti sem plastið í Trabantinum small út aftur eftir ákeyrslu. Wartburginn minn er þýður og rúmgóður og ég er hæstánægður með hann en hann lagar sig ekki sjálfur eins og Trabantinn,“ sagði Gestur Þorgrímsson listamaður árið 1982.
Umræður um þessa grein